Ánægður með Desember.

Ég fór með blendnum huga að sjá Desember, nýja mynd Hilmars Oddssonar. Jólamynd? Var það ekki tvíbent viðfangsefni?

Myndin gerist í hversdagslífi og basli fremur venjulegs fólks og því fannst mér enn frekari ástæða til að óttast að hún myndi ekki viðhalda athyglinni allan tímann.

En það fór á aðra leið. Þegar myndinni lauk var ég ánægður með þessa bíóferð og tel höfuðkost myndarinnar einmitt þann hve auðvelt er fyrir hvern sem er að láta lokkast inn í heim hennar sem allir geta fundið svo mikla samsvörun við úr eigin lífi og sinna nánustu.

Hvað eftir annað stóð ég mig að því að hugsa: Hver kannast ekki við þetta?

Það er nefnilega pottþétt uppsetning að tefla saman mestu hátíð ársins og vandamálum og viðfangsefnum hversdaglífs hjá breyskum og ófullkomnum manneskjum, svo framarlega sem úrvinnslan er góð.

Og það finnst mér hún vera í þessari mynd þar sem jöfn og góð frammistaða allra er aðall þess hve vel hefur tekist til.

Gæti vel ímyndað mér að þessi mynd eigi eftir að verða klassísk jólamynd og góð heimild um þann desember sem Íslendingar upplifa á hverju ári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Íslendingar eru léttruglaðar eyðsluklær, sem aldrei sést betur en í jólastreitunni, 

Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2009 kl. 13:28

2 identicon

Já, Ómar, þú hefur vakið áhuga minn að sjá þessa mynd. Næst þegar ég eignast pening, er að safna tómum flöskum og dósum, þá breyti ég þeim í bíómiða. Það er alltaf gaman að fara í bíó, sérstaklega til að sjá íslenskar myndir.  Og svo geta bíómyndir breytt skapinu. Man að ég var einu sinni í reiðikasti fyrir mörgum árum, ákvað að drífa mig í hressandi göngutúr til að losna við reiðina. Labbaði alla leið í Mjóddina, kíkti á auglýsingarnar og ákvað að skella mér á myndind um Tinu Turner sem þá var nýkomin til sýninga og ég var með tvö þúsundkall í vasanum. Komst í svo gott skap, tónlistin góð og kom syngjandi heim. Gott að lesa þetta hjá þér. kveðja. Jónína S. Guðmundsd.

Jónína S. Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2009 kl. 14:03

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Sammála þér um Desember, Ómar.  Þetta er hlý og mannleg mynd í þeirra orða bestu merkingu, tilgerðarlaus, með einstaklega sjarmerandi aðalleikurum.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 7.11.2009 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband