9.11.2009 | 16:48
Vafasöm nýjung.
Vafasama nýjung má sjá í Staksteinum Morgunblaðsins í dag. Þeir fjalla í miklu háði um Ólaf Arnarson og menn tengda honum og eru þeir í háðungarskyni kallaðir "ódauðlegir snillingar" í fyrirsögn Staksteinanna og það endurtekið og því fylgt eftir af miklu kappi í pistlinum.
Efni pistilsins sýnir hins vegar að höfundur hans meinar auðvitað að þeir séu eins fjarri því að vera snillingar og hægt sé að hugsa sér, þ. e. örgustu asnar, og hefur Staksteinahöfundurinn að sjálfsögðu fullt frelsi til að hafa þá skoðun.
En þetta virðist ekki hafa nægt honum, því að þegar hann birtir mynd af Ólafi með nafni hans undir, eins og alsiða er, getur hann ekki stillt sig um að bæta við ádeilu sína á Ólaf og láta myndartextann vera svona: "Ólafur Arnarson snillingur." Les: Ólafur Arnarson asni.
Í þau rúmlega 60 ár sem ég hef lesið blöð og tímarit hef ég aldrei séð hliðstæðu þessa í nafnbirtingu undir mynd, hvorki hér á landi né erlendis, ekki einu sinni þegar Kalda stríðið stóð sem hæst og menn kölluðu hverjir aðra landráðamenn og leppa erlendra stórvelda.
Með nýjum ritstjórum Morgunblaðsins hafa borist ný efnistök í blaðinu og er skemmst að minnast frábærlega vel skrifaðs leiðara um villiféð á Vestfjörðum þar sem mér sýndist ég sjá öll bestu stílbrögð rithöfundarins Davíðs Oddsonar og þakkaði honum fyrir hér á bloggsíðu minni.
En þá nýjung að uppnefna fólk í nafnatextum undir myndum í háðungar- og niðurlægingarskyni tel ég vægast sagt vafasama og ekki gott til þess að vita ef þetta fer að verða alsiða í Morgunblaðinu eða í öðrum dagblöðum og tímaritum þar sem mikils virðist stundum þurfa við til að vega mann og annan.
Ég vona að þetta hafi verið undantekning en ekki upphaf á reglu í þessu efni.
Athugasemdir
Það er varla geltandi að rökkunum í Hádegismóum.
Snati (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 17:07
Þó mér finnist málflutningur Ólafs afskaplega "ótrúverðugur" þá tek ég heilshugar undir með þér. Fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega getur ekki "fjallað" svona um menn né málefni. Ekki einu sinni góðir pennar, svona umfjöllun á ekki heima í alvöru fjölmiðli.
ASE (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 17:27
Mogginn er á hraðri leið til glötunar. Svo einfalt er það.
Haraldur Bjarnason, 9.11.2009 kl. 17:34
Já , það er að verða töluverður götustrákastíll á Mogganum. Ég á þess kost að kíkja stundum í blaðið , en var áður áskrifandi til meira en 40 ára.
Og einn daginn las ég leiðarann þar sem ég fékk á tilfinninguna að leiðarahöfundur hefði verið með hausinn niðri í klósetti og baulandi á eftir DV ritstjórum um klóakrörið- hinar klúrustu skammir...vegna einhvers sem leiðarahöfundi mislíkaði...Allavega klóakið var megininnihald efnisins.
Sannalega orðið breyttt blað Mogginn.
Sævar Helgason, 9.11.2009 kl. 17:42
Athugið að hér er um nafnlaus skrif í Morgunblaðinu að ræða.
Aftur á móti er ráðist á nafngreindan mann og mynd höfð með.
Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 17:43
Mér finnst það andstyggilegt og lúalegt þegar nafnlausir ristjórnardálkar eru að vega að nafngreindum mönnum, hvað þá birta af þeim myndir. Þá þýðir lítið að vísa til ritstjóra þvi þeir eru fleiri en einn. Menn eiga að standa augliti til auglitis við þá sem þeir eru að skamma eða gera gys að.
Sigurður Þór Guðjónsson, 9.11.2009 kl. 18:05
Skrýtin tilviljun eða hitt þó heldur, að þú tiltakir kaldastríðsárin sem tíma þegar landráðabrigzl flugu milli andstæðra flokka (ekki síður frá sósíalistum en öðrum). Það kom reyndar í ljós, að hér var reynt að fá menn til landráða í formi njósna, sbr. Kleifarvatnsmálið. Það er þó vart meira en búast mátti við í hartnær 91 árs sögu sjálfstæðis landsins, að landráðaviðleitni hafi komið þar upp ekki sjaldnar en á tveimur tímaskeiðum ...
Jón Valur Jensson, 9.11.2009 kl. 18:15
Sæll Ómar einhvertíma er allt fyrst. Séa Baldur Kristjánsson lokaði á mig á blogginu og því gat ég ekki birt eftirfarandi athugasemd:
Þakka þér samveruna Baldur og gangi þér vel á nýjum vettvangi.
Ég er búinn að vera hérna lengi þó ég hafi aldrei verið flokksbróðir ritstjóranna og því síður skoðanabróðir þeirra sem voru ráðnir af þeim sem stofnuðu Icesave. Ég tek það ekki til mín að vera kallaður skítadreifari þó ég sjái engan kost við það að Ísland verði innlimað í Evrópusambandið.
Ég hef jafnan tekið málstað Ómars Ragnarssonar fagna orðum hans í þinn garð en þyki miður að hann skuli nota þetta orðbragð, sem hann er alls ekki vanur að gera.
Sigurður Þórðarson, 9.11.2009 kl. 18:49
Mér leiðast menn sem nota blogg hjá einum til að koma skilaboðum til annars sem hefur lokað á viðkomandi...
Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 19:13
Staksteinar í dag voru tær snilld, myndatextinn enn betri.
Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 19:29
Tómas, þessi skilaboð eru ætluð Ómari og því sett á bloggið hans.
Sigurður Þórðarson, 9.11.2009 kl. 20:01
Ólafur þessi Arnarson hefur reitt óvenjuhátt til höggs að undanförnu og oft beint lagi að starfsmanni Morgunblaðsins. Ólafur hefur svo greinilega beitt brandi sínum í þeirri trú að viðkomandi myndi ekki svara fyrir sig.
Þegar svarið síðan kemur seint og um síðir kveina aðrir sem reitt hafa til höggs og freista þess að ófegra svaramanninn áður en þeir hinir sömu fá viðeigandi afgreiðslu.
Skíkast Ólafs hefur hitt hann sjálfan fyrir.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 9.11.2009 kl. 20:32
Það er rétt hjá þér Sigurður Þórðarson að ég er ekki vanur að nota þetta orð og hefði átt að orða þetta öðruvísi en svo að viðkomandi maður tæki það beint til sín. Biðst afsökunar á því.
Stundum er sagt að íþróttamenn falli í þá gryfju að fara niður á sama plan og andstæðingarnir og það á maður að forðast að gera.
Orðið "skítadreifari" kom bara upp í hugann í tengslum við nafnlausa bloggarann sem gekk fram af öðrum en mér á bloggsíðu minni með stanslausum óhroða sem hann birti.
Ómar Ragnarsson, 9.11.2009 kl. 20:33
Takk Ómar.
Sigurður Þórðarson, 9.11.2009 kl. 20:40
Það er opið fyrir alla á mínu bloggi meðan það er í dauðateygjunum. Það er rétt hjá Sigurði, hann er enginn skítadreifari en hann valdi það að reyna að hæðast að mér á minni síðu við annan sem kunni sér síður hóf. þetta var svona eitt af því sem fyllti mælinn.
Þakka þér fyrir pistilinn Ómar. Maður sér það núna. Það var eitthvað óafsakanlegt við Staksteina í morgun. Mbl. ætti að biðjast afsökunar.
Baldur Kristjánsson, 9.11.2009 kl. 20:41
Ég sé nú að engin ástæða var fyrir Sigurð Þórðarson að taka orðið "skítadreifari" til sín, því að ég á greinilega við þann sem bloggvinir mínir flæmdu burt af síðunni minni og engan annan.
Þeir sem muna eftir þessu myndu áreiðanlega flestir ef ekki allir nota svipað lýsingarorð yfir þennan með endemum ruddalega, orðljóta og illgirnislega gaur, sem faldi sig undir dulnefninu "fullur" og hefur kannski verið það allan tímann.
Ómar Ragnarsson, 9.11.2009 kl. 20:47
Ritstjórnarlega er Mogginn að verða að einhverskonar menntaskólablaði. Davíð myndi sóma sér vel á Baggalút.
caramba (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 21:02
Hvað er merkilegast við þau skrif sem hér birtast, eftir að Ómar hóf máls á ,,nafnlausum" rógi að ákveðinni persónu ?
Jú, náhirðin mætir og tekur undir rógin !
JR (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 22:02
Ég keypti Moggann um daginn út af góðri forsíðugrein, en sá svo að Sverrir Stormsker er orðinn að dálkahöfundi í blaðinu.
Jamm.
Oddur Ólafsson, 9.11.2009 kl. 22:30
Ég vil taka það fram að ég vona að textinn undir myndinni þeirri arna hafi verið undantekning sem sanni þá reglu sem hefur verið fylgt af fjölmiðlum í þessu efni.
Ómar Ragnarsson, 9.11.2009 kl. 22:45
Þú þarft greinilega að kaupa Moggann oftar Oddur, Sverrir Stormsker hefur oft áður skrifað góða pistla í Moggann, en, Staksteinar standa í þetta sinn alveg fyrir sínu, eins og oftast áður.
Hörður Einarsson, 9.11.2009 kl. 22:59
Var ekki búinn að lesa Staksteina þegar ég las bloggið þitt. Hef alltaf lesið dálkinn með þeim augum að þar mættu menn vera örlítið hortugir. Minnist þess þó ekki að hafa séð mynd af aðila sem fær viðurnafnið snillingur. Ólafur hefur farið mikinn í umfjöllun sinni um hrunið, og ef við gefum okkur að við höfum 60% rétt fyrir okkur, þá hefur hann örugglega skotið einhvern tímann yfir markið í gagnrýni sinni á Davíð. Hér svarar Davíð fyrir sig á sinn háðska hátt. Ekkert stórmál. Einn góður vinur minn semur tvíræðar vísur um menn þegar hann vill koma gagnrýni á framfæri. Hann flytur þær aðeins í góðra vina hópi. Eflaust leka þær einhverjar út, en þar sem tilgangurinn er ljós, leyfist stílbragðið. Eflaust fengju einhverjir hland fyrir hjartað, ef þeir fengju að heyra kveðskapinn. Það verður þá bara svo að vera.
Sigurður Þorsteinsson, 9.11.2009 kl. 23:02
Menn geta greint á um málefni og tekist á um málefni. Það bætir ekki málsstað þeirra sem eru ósammála Ólafi að ráðist sé á persónu hans. Því finnst mér bloggfærsla Ómars góð um þetta mál.
Gísli Gíslason, 9.11.2009 kl. 23:18
Ómar mér finnst þú gera allt of mikið úr þessum myndatexta og það er þín túlkun að sjá asna í stað snillings.
Staksteinar eru það sem þeir eru og vegna þess eru þeir þaullesnir. Ólafur Arnarson, snillingur eða ekki snillingur, hefur farið mikinn í að gagnrýna Davíð Oddsson og hans þátt í hruninu. Samið um það heila bók sem var að sama skapi ætlað að gera minna úr hlut fjárglæframannanna í hruninu. Það er að segja að koma sökinni af viðskiptalífinu yfir á stjórnmálamennina. Við vitum hins vegar að þessir aðilar unnu ágætlega saman og höfðu fjölmiðlana til að mata ,,sannleikann" ofan í okkur sakleysingjana.
Þannig er orðaleikurinn hjá höfundi Staksteina að mínu áliti vel við eigandi því þeir sem leiddu útrásina töldu sig snillinga, þeir sem voru í klappliði snillinganna töldu þá snillinga og fjölmiðlarnir gerðu þá snillinga í augum almennings. Já, þetta voru sannanlega snillingar sem blekktu af tærri snilld.
Jón Baldur Lorange, 10.11.2009 kl. 00:05
Ekkert einsdæmi Ómar. Litli ég fékk m.a.s. Staksteina í hausinn með mynd á sýnum tíma - ekki man ég hvert tilefnið var - en grjótkastinu stjórnað AfStyrmi.
Þetta afstyrmislega meinhorn Moggans hefur lengst af verið notað til að vefa strámenn og sá biturð og sundrungu á meðal þeirra sem ritstjórnin hefur talið vera óvini sína hverju sinni.
Ekki hefur það skánað. Spunrning hvort lyfta á svona skítlegu eðli með því að eyða orðum á það. Mér skylst að 11 þúsund manns hafi sagt upp Mogganum. Nú þyrfti bara einhver að fara að gefa út minningargreinarnar og þá er hægt að fara að kasta moldunum á þennan snepil.
Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 01:13
Dofri, þú getur ekkert vitað hver skrifar og skrifaði Staksteina.
Jón Valur Jensson, 10.11.2009 kl. 02:06
Þetta er nú meiri viðkvæmnin í ykkur. Ég held að það sé nú í lagi að kalla hlutina það sem þeir heita!
Það er hressandi að lesa svona pistla!
Ólafur Arnarson skrifaði bók í flýti, en það kann ekki góðri lukku að stýra. Í bókinni er hann með afbrigðum dómharður og heimildaöflun var nú svona og svona. En það kom ekki í veg fyrir að hann higgi á báðar hendur.... ótt og títt.
Svo er gert góðlátlegt grín að honum í Staksteinum og sómakennd ykkar er misboðið
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2009 kl. 02:14
Það versta sem höfundur gæti lent í væri að fá enga umfjöllun, engan ritdóm. En þá fyrst hefði Ólafi brugðið ef hann hefði fengið blómvönd og kampavínsflösku frá þeim sem hann gagnrýndi harðast.
Við lifum á tímum þar sem tekist er á um auðlindirnar, náttúruperlur, efnahagshrunið og síðast en ekki síst sjálfstæði Íslands. Þetta snertir okkur öll og sjálfur get ég látið eitt og annað fjúka eins og nýlegt dæmi sýnir.
Sigurður Þórðarson, 10.11.2009 kl. 05:59
Sæll,Ómar. E-ð finnst mér þú lítið hafa fylgst með þjóðfélagsumræðunni. Umræddur Ólafur er búinn að fara mikinn að undanförnu í að skammast út í Davíð Oddsson. T.d. skrifar hann í sinni bók að ekki megi kenna stjórnendum bankanna um hvernig allt fór. Allt sé Davíð að kenna. Hann hafi t.d. sett Seðlabankann á hausinn og hafa margir orðið til þess að taka undir það. Lítum aðeins á staðreyndir: Seðlabankinn lánaði Kaupþing stórar upphæðir daginn áður en Bretar yfirtóku eignir þeirra í Englandi. Enginn hefur skrifað um það að Davíð fékk að veði frá Kaupþingi danska bankann FIH sem skilar mjög góðu uppgjöri ! Svo minnist enginn bloggari hér á tengsl Ólafs við Kaupþingsmenn: Eru þeir ekki mágar, Ólafur og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings. Það skýrir ýmislegt, ekki satt ?
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 09:59
Í síðustu viku var útvarpsþáttur á rás1 sem fjallaði um heimspekinginn Kirkegaard. Var fjallað i þessum þætti einkum um hugmyndir hans á íroníu sem myndi kallast kaldhæðni.
Að hans mati var til tvenns konar kaldhæðni og var önnur þeirra oflof. Að hans mati var mikil íronía fólgin í því að lofa þann í hástert sem hann hafði illar bifur á.
Davíð Oddsson er mikil menningarsinni og hlustar á rás1 öllum stundum.
Guðmundur Pálsson (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 10:25
Við fáum ákveðna staðfestingu á viðhorfi til þessa máls hjá aðdáendum Davíðs Oddssonar á systurblaði DOggans í athugasemd #10, en þar úttalar Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, sig um snilli höfundar.
Það verður þess kannski skammt að bíða að viðskiptafréttir verði með svipuðu sniði, nema náttúrulega ef um er að ræða misráðin viðskiptamódel innvígðra og innmúraðra.
Sigurður Ingi Jónsson, 10.11.2009 kl. 13:07
Auðvitað eigum við ekki að banna neinar athugasemdir sem eru skrifaðar á málefnalegan hátt, hvort sem okkur líkar innihaldið eða ekki og hvort sem þær eru frá einstakling með nafnleynd eða ekki. Ég skora samt á ALLA þá sem vilja efla réttláta og gagnrýna umræðu, að svara mönnum sem leika þann leik að velja skoðanir inn á athugasemdakerfin sín, að svara þeim í sömu mynt. Leyfa þeim að smakka á eigin meðali og banna þá til baka. Ég var með bloggsíðu á mbl og aldrei hefði mér dottið í hug að henda t.d. Jóni Val út þó svo hann kæmi með sínar skoðanir á síðuna mína, ég reyndi bara að rökræða við hann. Stundum fanst mér hann hafa betur í þeirri viðureign, og þá var það bara allt í lagi, maður fór ekki að henda honum út bara af því maður var króaður inni með einhverja fullyrðingu sem maður hafði sett fram. Hann meira að segja kom með athugasemdir á síðuna mína eftir að hann hafði bannað mér að setja athugasemdir hjá sér, sem er alveg hreint með ólíkindum.
En sem sagt þá hef ég verið bannaður hjá eftirtöldum aðilum fyrir sömu athugasemdina, að hugsa sér, sömu SAKLAUSU athugasemdina: Hjörtur J Guðmundsson, Jóna Valur Jensson, Gísli Freyr Valdórsson, Sverrir Stormsker og fleirum helbláum sem ég man ekki nafnið á í augnablikinu, og það fyrir mjög skleysislega athugasemd. Jón Valur hefur afsakað sig með því að ég hafi notað dulnefni, en það er undarleg eftiráskýring, vegna þess að ég átti í debati við hann á síðunni hans, áður en þessi athugasemd, sem allir þessir aðilar bönnuðu mig fyrir, kom til skjalanna. Þegar ég setti sömu athugasemdina inn hjá Sverri Stormsker, datt mér ekki í hug eina mínútu að hann af öllum myndi banna mig í kjölfarið. En jú, mottóið féll fyrir flokknum, því ekki mátti skyggja á almættið eða falla kusk á hvítflibba enda maðurinn búinn að uppskera að því er virðist, orðinn dálkahöfundur hjá foringjanum. Er það virkilega þannig í þessum blessaða flokki að eftir því sem þú mærir foringjann og flokkinn meira, passar upp á að ekkert ljótt standi um flokkinn á síðunni þinni, færðu þá feitan bitling eða gott djobb í boði flokksins í staðin?
Valsól (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 13:49
Jón Valur Jensson (26) hittir naglann á höfuðið. Staksteinahöfundur hraunar yfir allt og alla úr launsátri nafnleyndarinnar. Það er ekki geltandi að svona gungum!
Snati (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 14:11
Talandi um skítadreifara. Fyrir nokkrum árum átti öldungadeildarþingmaðurinn Moynihan heitinn bústað í nágreninu, næsta dal.
Þegar Hillary Clinton bauð sig fram til öldungardeildarinnar var hún mikið í sveitinni hjá fyrrinefnda.
Búvéla höndlarinn minn átti til í þá daga að taka út auglýsingar um menn og málefni. Í einni kallaði hann Hillarí skítadreifara (manurespreader). Moynihan svaraði greininni og þar með var sveitin komin í heimsfréttirnar.
Ingimundur Kjarval (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 16:03
Gísli Freyr #10 ...
Var 'tær snilld' ekki einmitt það sem Sigurjón Árnason kallaði Icesave?
Þarfagreinir, 10.11.2009 kl. 18:07
Sú ósk mín að ekki verði farið í það far að birta uppnefni undir myndum af mönnum þeim til háðungar kemur því ekkert við um hvaða málstað er að ræða. Ég tek hvergi afstöðu til hans í pistli mínum.
Ómar Ragnarsson, 10.11.2009 kl. 18:10
Þetta er engin nýjung, Ómar. Snorri benti á það fyrir allnokkru að oflof væri háð og það hafa ýmsir notfært sér þá staðreynd síðan. Í dagblaðaskrifum var frumkvöðull þessa stílbragðs Magnús Kjartansson Þjóðviljaritstjóri, einhver beittasti og eitraðasti penni sem Ísland hefur alið. Hann tók upp á því að nefna andstæðinga sína snillinga, mannvitsbrekkur og sannleiksstólpa til þess að fækka meiðyrðamálssóknum gegn sér og blaðinu.
Andrés Magnússon, 10.11.2009 kl. 21:14
Þakka þér Ómar fyrir að vekja athygli á mikilvægu máli. Ætlum við að færa okkur fram á við með fjölmiðlun og lýðræði landsins eða reka þjóðfélagið útfrá forsendum persónulegrar velvildar eða óvildar.
Það getur vel verið að Ólafur Arnarson hafi reitt hátt til höggs varðandi ábyrgð DO á hruninu. Hinsvegar er með ólíkindum hvað hann og hirðmenn hans telja að ábyrgð hans sé lítil.
Staksteinar ganga ekki út á að hæðast að inntakinu í skrifum Ólafs heldur liggur áherslan í að hæðast að persónu hans. Þar liggur meinsemdin sem við þurfum að sameinast um að fordæma.
Gunnar Rögnvaldsson og fylgdarsveinar hans gengu alltof langt með persónulegum aðdróttunum við grein Baldurs, þar sem að hann viðrar skoðanir sínar á jákvæðum áhrifum aðildar að ESB.
Lýðræðisvitund í landinu nær ekki þroska nema að við sameinumst um að viðhalda lágmarksviðmiðum í fegurð mannlegu samskiptum. Því miður hef ég ekki nennt að blogga um nokkurt skeið vegna aukinna persónulegra aðdróttana.
Gunnlaugur B Ólafsson, 10.11.2009 kl. 21:43
Eitthvað finnst mér þú, Ómar, sért nú að reyna komast út úr þeirri vitleysu sem þú komst þér í. Ertu að segja að Ólafur megi skrifa heila bók um Davíð, skrifa ótal skítkast greinar um hann með myndum og að Davíð megi síðan ekki birta eina mynd af honum ? Þvílík skoðun, Ómar. Ólafur er algjörlega vanhæfur að skrifa einn staf um DO vegna mágsemda við Hreiðar Má, fyrrv. forstjóra Kaupþings. Þetta sjá allir. Það er reyndar gott fyrir alla að lesa viðtalið við Tryggva Þór Herbertsson í DV um helgina. Þar kemur vel fram að Davíð leið illa að fella banka Jóns Ásgeirs, Glitni.
Til þín Gunnlaugur: Við þurfum að sameinast í því að fordæma Davíð fyrir að skrifa um Ólaf, Ólafur hefur einn rétt á að skrifa um Davíð. Þvílíkt rugl, Gunnlaugur.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 23:00
Staksteinar er skemmtilegur dálkur með djókívafi og í svoleiðis dálki ætti nú ekki að liggja dauðasök við því þó að gantast sé lítillega með einhverja persónu með "uppnefni" undir mynd.
Hvað varðar "Valsól" greyið, sem fer hágrátandi um alla bloggheima yfir því að ég skyldi hafa hent honum út af minni síðu (hann skítur alltaf á teppið á annarra manna húsum) þá liggur skýringin á því ljós fyrir þegar lesið er innlegg hans á þessari síðu. Það eru þessar endalausu dylgjur: Bullar t.d. að ég sé "helblár" o.s.fr.
Þó mér hafi alltaf þótt vænt um Davíð þá hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn í þingkosningum. Kaus Alþýðuflokkinn í tvígang því mér hugnaðist ekki að Sjálfstæðisflokkurinn færi í stjórn með Framsókn. Alþýðuflokkurinn var mun meira líbó fyrir minn smekk. Síðan kaus ég Frjálslynda flokkinn og nú síðast var ég ekki á landinu, en ég hefði náttúrulega aldrei farið að kjósa þessa "hreinu" vinstrióstjórn. Það eru hreinar línur.
"Valsól" kemur með dylgjurnar á færibandi og það er einmitt eina ástæðan fyrir því að ég nennti honum ekki meir og henti honum út af minni eigin síðu þar sem ég fæ nú að ráða því hverjir eru þar innandyra og hverjir ekki. Hann dylgjar að ég sé í því að ausa lofi á Foringjann. Enginn íslenskur "hægrimaður" gagnrýndi Davíð eins mikið og ég þegar hann var "einræðisherra." Var með pistla á Stöð 2 og baunaði á kallinn hvað eftir annað því mér líkaði fráleitt allt sem hann var að brasa á síðasta kjörtímabilinu.
Þegar búið var að fleygja honum útúr Seðlabankanum og allir voru í því að velta honum uppúr skít og viðbjóði á öllum vígstöðvum þá vildi ég ekki taka þátt í slíku og skrifaði m.a. þessa grein HÉR, þar sem ég bar saman mikið og innistæðulaust álit fólks á Steingrími J. og svo taumlaust hatrið á Davíð, sem var í algleymingi þegar ég skrifaði greinina. Ekki beint til vinsælda fallið. Var ég með þessu að reyna að fá djobb hjá Davíð einsog Valsól dylgjar um? Kallinn var atvinnulaus og innikróaður út í horni! Hataðasti maður landsins!
Ég hendi semsagt ekki mönnum út af minni síðu vegna skoðana þeirra (af þeim 5 sem ég hef hent út er 1 gallharður sjálfstæðismaður) heldur vegna þess að þeir geta ekki vanið sig af að dylgja og bulla og drulla á teppið í annarra manna húsum. Mjög mjög einfalt mál fyrir flesta að skilja.
Hef ekki fleiri orð um þetta "grafalvarlega" mál.
Kær kveðja til þín Ómar minn og takk fyrir sönginn í Sigurlaginu. Það lag verður einmitt á nýju Serðis Monsters plötunni. Ég sendi þér hana fljótlega.
Sverrir Stormsker, 10.11.2009 kl. 23:01
Linkurinn á greinina sem ég vísaði í kom ekki fram af einhverjum ástæðum, en hana má semsagt finna hér: http://stormsker.blog.is/blog/stormsker/entry/895918/
Sverrir Stormsker, 10.11.2009 kl. 23:08
Örn - það er munur á því þegar Ólafur skrifar um að tiltekin afskipti og afskiptaleysi Davíðs bæði í stjórnmálum og seðlabanka vegi þungt í aðdraganda hrunsins eða að vera eins og eineltistöffari á skólalóðinni sem beitir eingöngu fyrir sig persónulegu háði til að lítillækka viðkomandi og gera hann ómarktækan. Það er svona hegðun sem að er hættuleg aðferð í fjölmiðlum og skaðleg lýðræðinu.
Gunnlaugur B Ólafsson, 10.11.2009 kl. 23:20
Minn kæri Örn, - ég er eingöngu að skrifa þetta út frá prinsippum í blaðamennsku en ekki út frá vopnaviðskiptum Ólafs Arnarsonar og Stakseinahöfundarins sem þeir mega mín vegna haga nokkurn veginn eins og þeim báðum sýnist best henta.
Mín vegna má Davíð skrifa eins mikið og af eins miklum krafti og stílbrögðum um Ólaf Arnarson og hann vill. Ég er ekkert að fjalla um það heldur bara þetta litla prinsipp sem hefur verið haft í heiðri í fjölmiðlum fram að þessu að undir myndum af mönnum standi einfaldlega hlutlaus lýsing á stöðu þeirra, lesendum til glöggvunar.
Dæmi: Mynd af Davíð Oddssyni / Ritstjóri Morgunblaðsins
Mynd af Erni Johnson / verslunarmaður
Í sumum tilfellum getur verið réttara að tengja viðkomandi á hlutlausan hátt við tilefni myndbirtingarinnar eins og sjá má oft í Morgunblaðinu undir myndum með greinum í blaðinu.
Dæmi: Síðasta greinin sem ég skrifaði í Morgunblaðið var um Hálslón.
Mynd af Ómari Ragnarssyni / Höfundur vinnur að heimildamynd um Hálslón.
Get ekki annað en brosað í kampinn hvað þessi pistill minn um lítið og afmarkað atriði hefur valdið miklu fjaðrafoki.
Ómar Ragnarsson, 11.11.2009 kl. 00:14
Já, þeir eru margir sóðapésarnir hérna sem dýrka og dá foringjann alvitra.
Billi bilaði, 11.11.2009 kl. 12:57
Snati nr. 33 (annaðhvort nafnleysingi eða hvolpakyns) útleggur innlegg mitt nr. 29 eins og honum sýnist, en ekki eins og það var meint. Staksteinaskrif eru ekki án ábyrgðarmanns. Staksteinar teljast með ritstjórnargreinum Morgunblaðsins (sem eru Stst., leiðarar og Reykjavíkurbréf), þar birtast skoðanir blaðsins eða ritstjórnar þess. Þar fyrir utan voru þetta fínir Staksteinar – rétt eins og í dag! Vertu ekki svona viðkvæmur, Ómar. Er þessi Ólafur Arnarson jafn-viðkvæmur og þú? Ég get ekki ímyndað mér það.
Innlegg Sverris Stormskers hér (nr. 40) er mjög athyglisvert.
Jón Valur Jensson, 11.11.2009 kl. 14:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.