19.11.2009 | 20:25
Margt gott hjá Styrmi.
Á langri ritstjóratíð sinni var Styrmi Gunnarssyni ekki um það gefið að koma í viðtöl í fjölmiðlum.
Nú er hann frjáls og getur auðvitað ekki slegið hendi á móti því að nýútkomin bók hans um hrunið fái umfjöllun.
Margt gott kom fram hjá Styrmi í kvöld, svo sem um það að færa völdin í stærstu málum í okkar mikla kunningja- og venslaþjóðfélagi beint til þjóðarinnar sjálfrar.
Það er eins og talað út úr mínu hjarta og minnir mig á þá tilviljun að lengi hefur verið auglýsing fyrir sunnudagsmoggann á áberandi stað í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli með fyrirsögninni "allt sem þjóðinni viðkemur" en það var tilvitnun í viðtal við mig í Morgunblaðinu í aðdraganda kosninganna 2007.
Þá féllu svona ummæli og umbótastefna Íslandshreyfingarinnar í stjórnskipunarmálum í grýttan jarðveg og enn verður vart við mikla fyrirstöðu og íhaldssemi gagnvart sjálfsögðum breytingum í lýðræðisátt.
Það var rétt hjá Styrmi að Bretar fengu aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkjamenn með sér í því að vera ákaflega ósveigjanlegir og um sumt fullir af offorsi í garð Íslendinga þegar ljóst var að regluverk Evrópusambandsins í bankamálum var gallað.
Aðstæðum og ástæðum Breta var vel lýst í sjónvarpsþætti BBC sem var sýndur í gærkvöldi þar sem því var lýst að sömu dagana og íslenska kerfið hrundi var breska bankakerfið komið fram á brún hengiflugs og ráðamenn Breta lögðu dag við nótt í örvæntingarfullri baráttu fyrir því að forðast hrunið sem var svo nálægt, að þeir bankar sem tæpast stóðu, vissu ekki að kveldi hvort þeir yrðu gjaldþrota daginn eftir.
Þessa daga voru Bretar komnir út í horn og í þeirri stöðu verða menn stundum ekki einhamir.
Í þessu andrúmslofti þreifst enginn sveigjanleiki eða sanngirni gagnvart Íslendingum, sem voru greinilega taldir stórhættulegir ef þeir mismunuðu innistæðueigendum eftir þjóðerni, og ég er sammála Styrmi Gunnarssyni að æðstu ráðamenn beggja þjóða hefðu þurft að hittast strax snemma árs 2008 og æ síðan.
Þegar þorskastríðin stóðu yfir hittust æðstu ráðamenn þjóðarinnar og hrunstríðið mikla er á sama plani og þau.
Gildir einu hvort þessir fundir hefðu skilað lausn frekar en sumir fundir æðstu ráðamanna í þorskastríðunum. Svona fundir gátu aldrei orðið til annars en að skýra málin og koma sjónarmiðum á framfæri á æðsta valdastigi.
Með þessu er ég ekki að segja að Íslendingar hafi ekki sjálfir átt sinn þátt í því hvernig fór. Það er óskiljanlegt hvernig bankakerfið fékk að blása út án þess að þjóðin vissi um það fyrr en um seinan upp í himinhæðir með svo skelfilegri áhættu, að dæmalaust er hjá nokkurri annarri þjóð.
Athugasemdir
Hann var ekki í beinni????
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 20:55
Hvað hét forsætisráðherran aftur sem sagði í viðtali "maybe I should have"? Aðgerðaleysið þeirra manna varð okkur að falli.
Úrsúla Jünemann, 19.11.2009 kl. 21:06
Sæll, ég horfi, og hlustaði á viðtal við Styrmi í kvöld í Kastljósi og fannst spyrill, þ.e. Þóra, með afbrigðum léleg í hlutverki sínu, skil engan veginn hvers vegna reyndari og harðari fréttamenn eru ekki látnir sjá um svona merka og umdeilda menn og þar af leiðandi með beittari spurningar og meiri eftirfylgni með svörum!!
Guðmudur júlíusson (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 21:12
Ósammála söguskýringu Styrmis G um að ESB hafi rekið okkur inn í öngstræti. Þar var alíslensk græðgi og oflátungsháttur sem réði för. Sammála framtíðarsýn hans um að áherslur á lýðræði munu brjóta upp klíkuskap og óheilbrigt tengslanet í samfélaginu. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 19.11.2009 kl. 23:09
Ég legg til að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan verði um hvort við eigum að lýsa stuðningi við næsta stríð sem Bandaríkjamenn fara í.
Séra Jón (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 23:15
Ég lít á Styrmi Gunnarsson sem sleipan ref sem passar sig á að segja ekki of mikið hreinskilið þegar hann er að búa til skoðanir í höfuðið á þeim sem bjóða upp á það án eigin gagnrýni. Hann er eflaust þokkalega góður náungi en sleipur sem áll og lymskur sem refur. Með fullri virðingu fyrir þessum ágæta manni. Með bestu kveðju, Anna.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.11.2009 kl. 00:38
FJÓRFLOKKURINN ER OKKAR BÖL, HVERNIG VÆRI ÍSLAND ÁN STJÓRNMÁLA.
Mótmæli: Samstöðu fundur kl 12:00 í dag föstudag ...
Nýtt Ísland boðar til mótmæla og samstöðu fundar kl 12:00 í dag föstudag fyrir framan Félagsmálaráðuneytið Tryggvagötu.
Við mótmælum vilja og aðgerðarleysi ríkisstjórnar í garð heimilanna í landinu sem eru að verða fyrir þeirri mestu kjaraskerðingu sem um getur. Kjaraskerðing í formi hækkunar lána og eignabruna.
Bankarnir taka yfir húsnæðislán með 44% afföllum, en ekkert er í boði fyrir hinn almenna nema að lengja í lánum.
Verðtrygging afnumin strax. Það tók ríkisstjórnina ekki nema 15 mínútur að tryggja fjármagnseigendur í bankahruninu og því er krafan sú sama hjá heimilunum í landinu, að þeim verði bjargað strax.
Við krefjumst þess að öll húsnæðislán verði færð til ármóta 2007-2008.
FJÓRFLOKKINN BURT, KLANIÐ BURT, ÍSLAND ÁN STJÓRNMÁLA.
Mynni ykkur á.
Íslendingar, í dag föstudag.20.11.2009, kl 12:00 tökum við mótmælastöðu fyrir utan Félagsmálaráðuneytið. Mætum öll.
Lúðvík Lúðvíksson, 20.11.2009 kl. 09:10
Styrmir kom mjög vel frá þessu viðtali. Hann er ljóngáfuð og glöggur enda einjn mesti reynslubolti á sviði stjórnmála.
Það sem mestu skipti máli í málflutningi hans er að upplýsa þarf margfalt betur aðdragann að hruninu. Hvenær varð Geir Haarde ljóst að allt stefndi út í ógöngur. Davíð Oddsson hefur lýst yfir að hann hafi gert sér grein fyrir þessu og margvarað við!
En af hverju var ekkert gert? Það hefði verið unnt að bjarga gríðarlega miklu áður en græðgiseldurinn babkaeinkavæðingarinnar skildi allt eftir í rjúkandi rústum.
Mér skilst að þessi tímapunktur hafi verið ekki seinna en í febrúar 2008. Þá var alla vega hálft ár til stefnu! Miklu hefði verið unnt að bjarga og draga verulega úr tjóninu.
Hvert eigum við að senda reikninginn fyrir bankahruninu? kannski í Valhöll?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 20.11.2009 kl. 13:30
Mér þykir miður að hafa yfirsést ásláttarvillur mínar í fyrstu línunum. Bið eg afsökunar á yfirsjón minni.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 20.11.2009 kl. 13:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.