Horft fram til næstu 6 mánaða.

Íslenskir stjórnmálamenn eru komnir í gamalkunnan ham. Eftir sex mánuði verða kosningar, byggðakosningar, og allt verður að miðast við það. 

Stóriðjustefnan fær vítamínsprautu. Eða eigum við að segja amfetamínsprautu?  

Lofað er "600 störfum meðan á framkvæmdum stendur:" En hvað svo? Verða þá ekki hinir sömu 600 atvinnulausir? Sumir hinna ófaglærðu munu þá sjá eftir því að hafa frestað því að fara í nám. 

"Hindrunum verður rutt úr vegi Suðvesturlínu". Hvaða hindranir eru það? Eru það sveitarstjórnir tólf sveitarfélaga sem þurfa að samþykkja línuna sem geta orðið "hindranir í veginum"?

Eru það neysluvatnssvæði höfuðborgarinnar. Eða er hindrunin umhverfisráðherrann? 

Orðið "hindrun" er þeim hugstætt sem fylgja fastast fram þeirri óðagots- og örvæningarstefnu sem bitna mun á næstu kynsllóðum. Þessari æðibunustefnu er vel lýst með gamla máltækinu "það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn." Má kannski kalla hana skómigustefnuna. 

Erum við, sem andæfum Bitruvirkjun, "hindrun" í vegi álversins mikla? 

Eða er "hindrunin" sú stefna Samfylkingarinnar sem samþykkt var á landsfundi hennar skömmu fyrir síðustu kosningar, sem kvað á um það að hætta skuli "ágengri vinnslu" á jarðvarmasvæðum.

Slíka ágenga vinnslu er samt ætlunin að viðhafa við orkuöflun handa álverinu í Straumsvík.  

Ekki er vitað hvaða orku hvert vinnslusvæði muni gefa til langframa. Vísindamenn giska á að þau endist í 50 ár en treysta sér ekki til að sjá lengra fram í tímann og þetta kemur ekki í ljós fyrr en árin líða. 

Í stefnu Samfylkingarinnar er ákvæði um "jafnrétti kynslóðanna" og "sjálfbæra þróun."  Er sú stefna nú orðin "hindrun"? 

Því að jafnrétti kynslóðanna og sjálfbær þróun verða fótum troðin ef menn standa uppi eftir 50 ár með þverrandi orku.  

Og jafnvel þótt orkusvæðin endist í 50 ár er ekki séð að næg orka muni fást fyrir 360 þúsund tonna álver sem þarf 625 megavött, um það bil jafnmikið og allar virkjanirnar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu.

Heiðarleiki var helsta dyggðin sem nýliðinn þjóðfundur setti á blað. Auk hans voru hófstilling, viska og hugrekki þrjár af höfuðdyggðunum fjórum hjá Forngrikkjum. 

Allar þessar dyggðir eru fótumtroðnar í núverandi virkjanastefnu.

Það er ekki heiðarlegt gagnvart komandi kynslóðum að ganga fram af svona eigingirni og skammsýni.

Það er engin hófstilling fólgin í óðagoti og æðibunugangi stefnu sem krefjast mun þess að farið verði hamförum um náttúrugersemar Íslands fyrir risaálver sem bægja öðrum og skaplegri orkukaupendum frá. 

Virkjanasinnar segjast vera hófstilltir þegar þeir vilja virkja á fimm vinnslusvæðum á Nesjavalla-Heillisheiðarsvæðinu en segja að við, sem viljum þyrma einu af þessum fimm svæðum séum "öfgamenn."  

Það felst ekki viska í því þekkingarleysi og þöggun um verðmæti íslenskrar náttúru og eðli virkjananna sem hér hefur viðgengist.

Sex mánuðum fyrir kosningar hverfur það litla hugrekki sem stjórnmálamenn hafa og þeir hamast við að bjarga sér hver sem betur getur og forðast að taka ærlega til hjá sér og þjóðinni sem hefur kosið þá.  

 


mbl.is Hindrunum rutt úr vegi Suðvesturlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta virkjanaæði minnir um margt á atvinnubótavinnu.  Það eru slegin lán erlendis fyrir virkjanaframkvæmdum.  Einhverjum hundruð manna er komið í vinnu.

Nú er ekki einusinni víst að Íslendingar verði þeir lánsömu. Kannski Kínverjar ? Auðvitað verður á bjóða þetta úr á Evrópskaefnahagssvæðinu.

Og þegar upp er staðið og skuldaklafinn hefur lagst á þjóðina að afloknum "gröfu-steypu og tengi" framkvæmdum- þá verða aðeins örfá störf eftir til frambúðar.

T.d í Straumsvík- aðeins 12 störf... 

Já, ég er sammála þér Ómar. Þetta er að míða í skóinn sinn- í hörku frosti.

Sævar Helgason, 21.11.2009 kl. 21:42

2 Smámynd: Sævar Helgason

Leiðrétting texta:

Já, ég er sammála þér Ómar. Þetta er að míga í skóinn sinn- í hörku frosti.

Sævar Helgason, 21.11.2009 kl. 21:43

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ómar þú talar bara eins og Steingrímur og c/o engin munur,fyrr má nú vera grænn en svona/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 21.11.2009 kl. 22:16

4 identicon

Takk fyrir þennan pistil Ómar - ég er verulega hugsi eftir þessi orð formanns okkar. Hvað þýða þau, hverra eyrum voru þau ætluð?

Það er ekki eins og þau breyti nokkru um þá staðreynd að orkuöflun fyrir 360 þúsund tonna álver er í fullkomnu uppnámi, fjármögnun álversins gengur illa, fjármögnun Hverahlíðavirkjunar gengur illa og fjármögnun Helguvíkurhafnar sínu verst.

Það er í meira lagi undarlegt af forsætisráðherra að hefja ræðu sína á spásögn um að hindrunum verði rutt úr vegi SV línu eins og sú framkvæmd skipti höfuðmáli.

Voru orð hennar ætluð "hjónum atvinnulífsins" sem nýlokið hafa við að semja um að sköttum á stóriðju verður velt yfir á almenn fyrirtæki og launþega?

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 22:28

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Halli minn, það fer ekki eftir flokkslínum hvaða stefnu menn hafa í umhverfismálum.

Sú stefna sem ég aðhyllist myndi ekkert breytast eftir því í hvaða flokki ég er og pistill minn hér að ofan er í fullkomnu samræmi við stefnu Íslandshreyfingarinnar sem öllum ætti að vera kunn og ekki að koma neinum á óvart.

Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að allt að þriðjungur þeirra sem styðja VG eru fyrst og fremst vinstri menn en láta grænu stefnuna mæta afgangi.

Margir harðir hægri menn víða um lönd eru grænir.

Dofri, eins og þú sérð eru stjórnmálamenn nú farnir að hugsa um byggðakosningarnar og það verður að leggja mat á ýmis orð þeirra og yfirlýsingar næstu sex mánuði í ljósi þess.

Ómar Ragnarsson, 21.11.2009 kl. 22:50

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Var Jóhanna ekki í fluggírnum og ræddi um "nokkur þúsund störf?"

Árni Gunnarsson, 22.11.2009 kl. 00:07

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ræða Jóhönnu er hér. Og jú, Árni - hún talar um árverk í þúsundum.

Ég er ekki enn búin að jafna mig eftir áfallið sem ég fékk þegar ég hlustaði á Jóhönnu í sjónvarpsfréttum beggja sjónvarpsstöðva.

Vitað er að orkuöflunin er óljós og ónóg og leggur allt suður- og suðvesturlandið undir sig. Og hvað ætli menn komist lengi upp með að þagga niður brennisteinsvetnismengunina og þau eituráhrif sem hún hefur nú þegar t.d. í Hveragerði?

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.11.2009 kl. 01:24

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því fleiri sem fá vinnu "á meðan á framkvæmdum stendur", því fleiri munu missa þá vinnu þegar framkvæmdum lýkur, - það er nú öll hófstillingin.

Ómar Ragnarsson, 22.11.2009 kl. 06:11

9 identicon

Þessi rökfræði (8) minnir óneitanlega á kaupmanninn sem hætti að kaupa inn ákveðna vöru og rökin voru þau að það þýddi ekkert, hún seldist alltaf upp!

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 22.11.2009 kl. 09:02

10 identicon

Ómar minn ! Við skulum halda áfram að vera "græn" allt til enda veraldar ................

Vigdís Agústsdóttir (IP-tala skráð) 22.11.2009 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband