23.11.2009 | 14:48
Grænt grænmetisbruðl ?
Mér sýnist hlálegt ef McDonalds veitingahúsakeðjan ætlar að fara að þykjast vera umhverfisvæn með því að breyta lit á merki fyrirtækisins úr rauðum í grænan.
Grænmetisætur hafa fyrir löngu bent á þá sóun verðmæta sem fylgir því að ala nautgripi á maís og slátra þeim síðan til manneldis.
Í hvert kíló af nautakjöti fari átta kíló af maís, sem nær væri að nota beint til manneldis. Auk þess fylgi mikil auka orkunotkun nautakjötsframleiðslunni.
Ég átti um þetta rökræður við Ragnar son minn á þeim tíma sem hann gerðist grænmetisæta og bar fyrir sig framangreindar forsendur sem umhverfisþenkjandi maður.
Ég andmælti algeru kjötbanni á tveimur forsendum þótt ég viðurkenndi að stórlega vantaði upp á grænmetisneyslu mína og flestra Íslendinga.
Annars vegar sæist á tönnum manna og lægju fyrir um það gögn í mannkynssögunni, að þeim væri áskapað blandað fæði og að þeir þrifust best á blönduðu fæði.
Því ætti grænmetisást ekki að leiða til algers kjötneyslubanns.
Hins vegar tíndi ég fram hin íslensku rök, sem sé þau, að hér á landi æti kvikfénaður gras sem menn gætu með engu móti neytt sjálfir þannig að rök sem giltu sunnar á hnettinum ættu ekki við hér á landi.
Ekki veit ég hvort þessi rök leiddu til þess að Ragnar hóf síðar á ævinni að nýju að nærast á blönduðu fæði.
Hitt sýnist mér ljóst að mikil hræsni geti falist í því að McDonalds fari að berja sér á brjóst og segjast vera umhverfisvænt fyrirtæki.
Hvað viðskipti Íslendinga við McDonalds á sínum tíma snerti voru erlendu nautin, sem kjötið var fengið af í hamborgarana hér, alin á grænmeti á umhverfisfjandsamlegan hátt sunnar í álfunni þar sem hægt var að nýta grænmetið betur.
Kjötið var síðan í ofanálag sent þúsundir kílómetra til Íslands með tilheyrandi flutningskostnaði og orkunotkun.
Ég stend sem áður við þá skoðun mína að "á misjöfnu þrífast börnin best", það er, að það sé í lagi að neyta kjöts í hófi.
En ég vil horfa á það gagnrýnum augum þegar fyrirtæki ætla að sýnast eitthvað annað en þau eru.
Þau eiga bara að koma hreint fram og láta McDonalds-merkið vera áfram rautt og Coca-Cola-merkið líka.
Þá þarf jólasveinninn heldur ekki að fara í grænan búning í Kók-auglýsingunni.
P. S. Fékk athugasemd við innsláttarvillu í setningunni um átta kíló af maí, sem fer í eitt kíló af nautakjöti og er búinn að leiðrétta það núna, kl. 18:40 vegna þess að það eru ekki allir sem lesa athugasemdirnar. En þær eru athyglisverðar, einkum fróðleikurinn um McDonalds, sem kemur fram í einni þeirra.
McDonalds verður grænn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mikið sammála þessu Ómar/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 23.11.2009 kl. 15:14
Smá athugasemd: Bandarískir McDonalds hamborgarar innihalda ekki snefil af nautakjöti eða annars konar kjöti. Þetta er allt unnið úr soyabaunum. Það er það sama, sem var til sölu hér ! Vonandi verða Metro kjötborgararnir betri fyrir yngri kynslóðina okkar !
baldvin berndsen (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 15:28
Mjög sammála, Ómar. En ef þú bara vissir hvað McDonalds er búinn að standa fyrir mörgum "grænum" herferðum í fjölmiðlum í Þýskalandi á síðustu árum. Þar er reynt að sýna hve óskaplega vel er staðið að vinnslu og innkaupa allra hráefna; kjöts, grænmetis ofl. Og þar eru tilgreind fjölmörg eftirlitsfyrirtæki, líka á vegum ríkisins. Í Þýskalandi á að vera 100% nautakjöt í borgaranum, nema annað sé tekið fram (þ.e. kjúklingaborgari, Sojaborgari osfrv.). Það þýðir að eins og þeir auglýsa mikið og hvað þeir taka stórt uppí sig, væri auðvelt fyrir fjölmiðla og samkeppnina að finna skotastað á þeim, ef þeir gera eitthvað rangt. Það hefur aldrei gerst á síðustu árum!
McDonalds er búið að betrumbæta sig alveg rosalega á síðustu ca. 10 árum - það er allavega mín tilfinning (sem þeim hefur greinilega tekist að fá mig til að trúa!). Veitingastaðirnir eru orðnir virkilega þægilegir og notalegir (McCafe), klósettin alltaf þau hreinustu yfirhöfuð, og frítt internet í klukkutíma. Ef ástandið á Íslandi var "old McDonalds" þá þykir mér það miður.
Það sem ég vil segja, er að ákvörðun McDonalds að taka upp græna litinn í Þýskalandi er ekki tekin í skyndi. Þar er fyrirtækið sjálfu sér samkvæmt og greinilega með mjög sterka stefnu. Og ég tel að flestir hér "trúi" á vilja McDonalds til að gera vel og eins hollt og mögulegt er. En hvort það sé hollt og gott er auðvitað allt önnur saga. Ég reyni að forðast þennan fjanda eins og mögulegt er. Minni hér á myndina stórkostlegu "Home" sem Yann Arthus-Bertrand gaf út nú í ár.
Valgeir (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 16:36
Í hvert kíló af maís fari átta kíló af maís, sem nær væri að nota beint til manneldis. Auk þess fylgi mikil auka orkunotkun nautakjötsframleiðslunni.
Átti ekki að standa þarna „Í hvert kíló af kjöti fari átta af maís“?
Annars er þetta mcdónalds ákaflega hallærislegt hvar sem er í heiminum. Hef aldrei farið á svona amerískan veitngastað nema austur í Moskvu í fyrra þar sem mér var svo mikið mál og enginn annar möguleiki á næstu grösum að sinna þörfum náttúrunnar.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 23.11.2009 kl. 17:47
Hafa skal það er sannast reynist. Hugsanlega á gagnrýnin sýn á hina miklu og einhæfu neyslu þeirrar fæðu sem McDonalds er orðið tákn fyrir og uppruna hennar frekar við neytendurna en seljendurna.
Rétt eins og það vill gleymast að gríðarleg eftirspurn eftir fíkniefnum er aðalástæðan fyrir fíkniefnavandanum, - ekki framleiðsla fíkniefnanna.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2009 kl. 18:47
Ekki má nú gleyma að það fer heill haldapoki af bréf og plastrusli í eina máltið sem maður verslar þarna. Fyrir utan pakningarnar sem kúnninn sér aldrei.
Óli (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 16:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.