29.11.2009 | 02:04
Ógn og töfrar, Rússland og Stalín.
Rússland er stærsta land í heimi og hefur ótal ólík andlit. Stalín var á ævi sinni blanda af fágætum töfrum og ógn í senn.
Ógn Rússlands birtist nú síðast í svívirðilegu hryðjuverki, sem er frétt dagsins, en töfrarnir eru margslungnir. Töfrar Moskvu og Pétursborgar eru gerólíkir töfrum hins rússneska dreifbýlis sem er hið sanna Rússland.
Því kynntist ég á ferð fyrir nokkrum árum með heimamanni þegar við fórum að vetrarlagi frá Moskvu til smábæjarins Demyansk sem er 550 kílómetrum fyrir norðvestan Moskvu, sunnan við Valdai-hæðir.
Rússinn varð bergnuminn þegar út í víðáttuna kom. Hann hafði aldrei farið slíka ferð fyrr og var að kynnast hinu rétta og óumbreytanlega Rússlandi í fyrsta sinn.
Í fyrrdag rakst ég á íslenska þýðingu á bók um Stalín á yngri árum sem hefur fengið mikið lof gagnrýnenda.
Bókin varpar ljósi á það af hverju Stalín náði svona langt. Myndin af honum ungum stingur mann, einkum hið rafmagnaða og dáleiðandi augnaráð, og um mann fer svipaður hrollur og við að horfa á Godfather-myndirnar þrjár á Stöð tvö undanfarnar þrjár vikur.
Ef þessi bók hefði komið út fyrir 40 árum þarf ekki að spyrja að því hver hefði leikið hlutverk Stalíns í kvikmynd um þennan rússneska Godfather á hans yngri árum. Auðvitað Al Pacino !
Bókin sú arna varpar ljósi á að Stalín hafði gríðarlega og nánast óhugnanlega mikla persónutöfra, vafði kvenfólki um fingur sér ef svo bar undir og var alls staðar á heimavelli, í glæpakreðsum, hjá kirkjunni, í Síberíu.
Skarpur, slóttugur og ógnvekjandi heillandi.
Þrívegis slapp hann úr fangelsi í Síberíu.
Stalín olli dauða um tuttugu milljón manna eða meira með ofbeldisfullri ógnarstjórn sinni en líka það er fullt af mótsögnum því að ef hann hefði ekki látið Rússa iðnvæðast á grimmilegan hátt, hefði Hitler haft betur í heimsstyrjöldinni síðari.
Gerð voru nokkur tilræði við Hitler en ekkert við Stalín. Það sýnir hve snjall hann var í grimmd sinni.
Hitler "hreinsaði" aðeins yfirstjórn SA-sveitanna á "nótt hinna löngu hnífa" 1934 en lét þar við sitja.
Hershöfðingjarnir Beck, Halder og Brauchitsh gerðu samsæri gegn honum 1938 og 1939 en Hitler braut þá niður án þess að þurfa að taka þá af lífi eða setja í fangelsi.
Eftir tilræðið í júlí 1944 var þó enga miskunn að finna hjá honum.
Stalín stóð hins vegar fyrir einhverjum hroðalegustu og grimmdarlegustu hreinsunum sem mannkynssagan kann frá að greina á síðari hluta fjórða áratugarins og fór langt með það að eyða öllum foringjum í Rauða hernum.
Trotskí lét hann myrða í útlegð.
Það sýnir hvað hann og áróður hans voru mögnuð fyrirbæri að sjálft Nóbelskáld Íslendinga sem var viðstaddur réttarhöldin illræmdu, dáðist að því hvað Búhkarin væri forhertur í vörn sinni !
Kommúnistar um allan heim trúðu á Stalín eins og Guð. Þarf ekki annað en að lesa Þjóðviljann þegar hann sagði frá dauða hans til að sjá það.
En vegna hreinsananna í Rauða hernum gekk allt á afturfótunum í upphafi stríðsins við Þjóðverja. En það skipti ekki öllu máli því að framleiðslumáttur Rússlands var svo miklu meiri en Þýskalands að þegar Þjóðverjum mistókst að vinna sigur í stríðinu á fyrsta hálfa ári þess, og Bandaríkin komin í stríðið líka, voru úrslitin ráðin.
Stalín var gríðarlega klókur í samskiptum sínum við forystumenn annarra stórvelda og kom þeim á óvart.
Griðasamningur hans við Hitler 23. ágúst 1939 var eitraður leikur í refskák stórveldanna og gaf Rússlandi frest til að nýta framleiðslugetu sína til eflingar herstyrks síns.
Rússland og Jósef Stalín, áhrifamiklar andstæður ógnar og skelfingar, töfra og stórfengleika.
Lestarslysið rannsakað sem hryðjuverk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góðar pælingar, Ómar.
Ólafur Þórðarson, 29.11.2009 kl. 02:25
Bloggið þitt er frábært Ómar. Fróðlegt, skemmilegt og vel skrifað. Ég ætla ekki að missa dag úr að lesa þig.
Undrandi (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 02:30
Rétt Ómar, en það er auðvelt að skipta nafni stalíns út og setja hitler í staðin, allir þessir karlar höfðu hæfileika, en þvílíkir djö.. drullusokkar sem þeir sannarlega voru.
Það má aldrei ske, að nöfn þessara harðstjóra verði sveipuð rómantískum dýrðarljóma
runar (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 11:22
Sammála, Rúnar, en þeir voru, eru og verða hættulegri vegna þessara hæfileika sinna og töfra. Hitler hafði fágæta dávaldshæfileika og seiðandi persónutöfa.
Þess vegna verðum við að meðtaka eðli þeirra og skilja það því annars koma þeir okkur sífellt á óvart.
Í hnefaleikahringnum heitir þetta "að lesa andstæðinginn" og Don Corleoni segir í Godfather III: "Það skiptir ekki öllu máli hvað þér dettur í hug að gera eða hvað þú vilt, - aðalatriðið er að vita hvað andstæðingarnir hugsa, hverju þeir sækjast eftir og hvað þeir ætla sér."
Ómar Ragnarsson, 29.11.2009 kl. 13:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.