4.12.2009 | 15:49
Valbjörn Þorláksson látinn.
Látinn er í Reykjavík Valbjörn Þorláksson, einn af fremstu íþróttamönnum síðustu aldar. Tvívegis hlaut hann sæmdarheitið íþróttamaður ársins.
Valbjörn varð tólfti í tugþraut á Ólympíuleikunum í Tokyo 1964 og enginn veit hvernig honum hefði vegnað í Melbourne 1956 ef hann hefði fengið að fara þangað.
Vegna fjárskorts gátu aðeins tveir íþróttamenn farið með einum aðstoðarmanni, þeir Vilhjálmur Einarsson og Hilmar Þorbjörnsson.
Ekkert var við það að athuga að þeir teldust vera efstir á afrekaskránni, en þegar úrslitin þar eru skoðuð sést að á góðum degi hefði Valbjörn átt góða möguleika á einhverju af efstu sætunum í aðalgrein sinni, stangarstökkinu.
Frjálsar íþróttir og íþróttaæskan áttu hug hans allan og hann átti glæsilegan feril á íþróttamótum öldunga erlendis. Það er ekki tilviljun að einn af íþróttavöllum Reykjavíkur ber nafn hans.
Þær fáu vikur sem ég keppti kynntist ég Valla ágætlega. Ég keppti aðeins einu sinni við hann í 100 metra hlaupi á Akureyri þar sem við náðum báðir okkar bestu tímum. Þetta ár, 1964, var hann í hörkuformi og illviðráðanlegur.
Ég mátti því horfa á eftir honum á undan mér í markið og nú horfi ég með söknuði á eftir honum á undan mér yfir marklínuna miklu.
Athugasemdir
Sem fyrr kemstu bráðvel að orði Ómar Ragnarsson og sem fyrr með skilning og tilfinningu fyrir sögunni.
Ég náði að kynnast Valbirni í seinni tíð. Þó 40 ár skildu okkur að náðum við að etja kappi einu sinni í stangarstökki, það var eftirminnilegt.
Bestu kveðjur,
Freyr Ólafsson
Freyr Ólafsson (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 18:02
Minning hans lifir. Ég votta aðstandendum hans samúð.
Guðmundur St Ragnarsson, 4.12.2009 kl. 20:33
Þakka þér fyrir þennan pistil, Ómar.
Þegar ég var krakki inni í Smáíbúðarhverfi fórum við á sundnámskeið í Sundhöll Reykjavíkur við Barónstíg og þar var Valbjörn einn starfsmanna. Sögur gengu um það, sem við skildum síðar, að hann hefði farið í sólbað í hádegishléinu uppi á svölum og sett tannstöngla á milli tána til að ná jafnri brúnku! Hann var flottur! Einnig Ernst Bachmann, sem ég sagði kennaranum mínum í átta ára H í Breiðagerðisskóla að liti út alveg eins og Jesús Kristur!
Flosi Kristjánsson, 4.12.2009 kl. 23:57
Sæll, gamli félagi og vinur, í tvö eða þrjú ár var Valbjörn Þorláksson kostgangari hjá móður minni ,Þórönnu L. Guðjónsdóttur á Skeggjagötu 19 í í Reykjavík, líklega hefur þetta verið 1956 til 1960 eða þar um bil . Valbjörnjvar einstakt snyrtimenni og prúðmenni í alla staði, og naut greinilega kvenhylli. Því stundum biðu konur á stéttinni á Skeggjagötunni eftir því að hann lyki við að borða !
Um tíma borðaði félagi hans,Heiðar, einnig hjá móður minni.
Eiður Svanberg Guðnason, 5.12.2009 kl. 02:35
Hver er summan af fjórum og sextán?
Svona kjánaspurningar fara í taugarnar á mér. Hægt er að fara einfaldari leið.
----
Er þá ekki Eiður líka Norðmýringur eins og ég og fleiri. Upprunin segir ekkert hvaða pól menn taka síðar eins og sannast.
Er annars nokkuð verið að gefa í skyn hér Eiður?
----
Blessuð sé minning látin mans. Valbjörn var mörgum kostum gæddur og átti öfundarmenn víða.
Gummi (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 10:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.