5.12.2009 | 14:23
Hvar liggur línan?
Fyrir um áratug var gefin út æviminningabók sem olli miklu uppnámi og fór málið fyrir dómstóla þar sem úrskurðað var að í bókinni hefði verið farið yfir þau mörk sem sett skuli við frásagnir af lifandi og látnu fólki.
Af samtölum mínum þá við bókaútgefendur mátti ráða að innan þeirra raða ríkti viss feginleiki yfir þessum úrskurði þótt hann hefti frelsi útgefenda. Nú vissu menn nokkurn veginn hvar línan lægi.
Gott væri að fá um það dómsúrskurð hvar sú lína liggur sem ævinlega verður að taka tillit til í þessu efni, þótt viðurkennt sé að eigi megi hefta að óþörfu frásagnargleði eða skáldleg tilþrif.
Eftir þennan dómsúrskurð hér um árið hefur fyrst nú komið upp vafaatriði í útgáfu bókar, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum en virðist ekki ætla að leiða til málaferla.
Draugaferðamálið getur kannski orðið til þess að fenginn verði vegvísir í því hve langt megi ganga í svona málum.
Ekki er síður mikilsvert að þetta leiði til umbóta í málefnum leiðsögumanna og fyrirtækja sem tengjast þeim.
Mér sýnist auðsætt að farið hefur verið yfir strikið í því máli sem hér um ræðir.
Talsmaður þess segir að ferðin að leiði stúlkunnar í kirkjugarðinum hafi ekki verið í beinu sambandi við þær draugasögur sem sagðar voru á leiðinni þangað.
En þá vaknar spurningin: Hvers vegna var þá farið að þessu leiði?
Í kirkjugarðinum eru leiði þjóðþekkts fólks, sem ekkert er við að athuga að farið sé að, ef smekklega og af tillitssemi er að því staðið.
Hvers vegna var leiði sex ára, óþekktrar stúlku valið í framhaldi af svokallaðri Draugaferð?
Amma mín og afi eru grafin í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Ferð sem seld væri að leiðum þeirra á líkum forsendum og ferðin að leiði stúlkunnar virðist hafa verið farin, myndi ég hiklaust flokka sem siðleysi og lögbrot.
Ekki eins auðvelt að fella leiðsögu í strangan lagaramma og virðist í fljótu bragði.
Út um allt land er staðkunnugt fólk á heimaslóðum eða jörðum, sem það býr á eða á, sem oft er leitað til um leiðsögn. Eða að fulltrúi fyrirtækis taki að sér leiðsögn um það og svæðið sem því tilheyrir.
Þar er grátt svæði rétt eins og í því hve langt sé leyft að ganga í framsetningu leiðsagnarinnar.
En hollt væri fyrir alla að Draugagöngumálið færi fyrir dómstóla. Það gæti hjálpað til við að draga þá línu sem draga verður í þessum efnum.
Falsaðar sögur af látnum ekki líðandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála með draugagöngumálið. Það er einfaldlega ósmekklegt. Er samt ekki á því að leiðsögn verði sett í svo strangan lagaramma að hægt sé að lögsækja fólk fyrir að segja til vegar.
Lagaflækjur eru að drepa heilbrigða skynsemi í hinum vestræna heimi.
Villi Asgeirsson, 5.12.2009 kl. 15:34
Þetta er einmitt það sem ég er að segja varðandi lagarammann almennt um leiðsögumenn.
Hins vegar þyrfti kannski að setja eitthvað nánar inn um fyrirtækin sjálf og um ábyrgð leiðsögumanna.
Ómar Ragnarsson, 5.12.2009 kl. 15:44
Lög eru ekkert annað en reglur um góða hegðun, hvernig fólk á að hegða sér í samskiptum við annað fólk, og ekki eru viðurlög við öllum lögbrotum.
Þar að auki eru til alls kyns reglur, bæði skráðar og óskráðar, sem fólk á að hafa kynnt sér og ætlast er til að það fari eftir.
Mannréttindi látinna og lifenda
"Leiðsögumaður skal ávallt miðla upplýsingum um land og þjóð á grundvelli staðreynda og haldbærrar þekkingar sinnar. Hann skal skýra satt og rétt frá því sem fyrir augu ber og sýna óhlutdrægni í starfi."
Siðareglur leiðsögumanna
Þorsteinn Briem, 5.12.2009 kl. 17:01
Takk fyrir þetta innlegg Ómar.
Það væri óskandi að yfirvöld tækju málið upp og skýrðu stöðu leiðsögumanna.
Hitt er annað mál Steini Briem að umrætt fyrirtæki býður ekki uppá hefðbundna leiðsögn heldur útileikhús, uppistand eða sagnamennsku.
Eitt er að leiðsegja og annað er að kalla sig leiðsögumann. Að mínu mati geta allir leiðsagt en mér þætti vænt um að aðeins þeir sem hafa hlotið til þess menntun að kalla sig leiðsögumenn (ferðamanna).
Svo það sé á hreinu er ég ekki að búa neitt til heldur er starfið skilgreint í hinni stóru Evrópu með CEN staðli. Þar er einnig gerður greinarmunur á fararstjóra (e. tour manager) og leiðsögumanni (e. tourist guide).
Siðareglur félags leiðsögumanna eiga aðeins við félagsmenn í Félagi leiðsögumanna, ekki útileikhús, uppistand né sagnamennsku.
Stefán Helgi Valsson, 5.12.2009 kl. 20:16
6. gr. Kirkjugarðar og grafreitir eru friðhelgir, sbr. og almenn hegningarlög."
Lög um kirkjugarða nr. 36/1993
Einstaklingar og fyrirtæki þurfa að fá leyfi til atvinnustarfsemi í kirkjugörðum Reykjavíkur frá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma.
"6. gr. Enginn má vinna í görðunum gegn gjaldi nema undir eftirliti kirkjugarðsstjórnar."
Reglur um umgengni í kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma nr. 810/2000
Þorsteinn Briem, 5.12.2009 kl. 21:11
240. gr. Sé ærumeiðingum beint að dánum manni, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári."
Almenn hegningarlög nr. 19/1940
Þorsteinn Briem, 5.12.2009 kl. 21:54
Þessi Jónas Freydal er annar sakborninganna í málverkafölsunarmálinu. Nú er hann bara að falsa sögur. Annars finnst mér yfirleytt komið gott af öllum lygasögum í menningararfinum, Álfar, tröll, draugar, skrímsli og víkingabull. Þetta er orðið pínlegt.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.12.2009 kl. 02:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.