Hvar stendur Reykjavík?

Sú var tíð að Reykjavík var í augum okkar hreinasta og umhverfisvænasta borg Evrópu. Ástæðan var sú að borgin var hituð upp með heitu vatni en ekki kolum eða olíu.

Ástæða þess að Reykjavík er ekki á listanum, sem birtur hefur verið um umhverfisvænustu borgir Evópu, er sú að Reykjavík er ekki ein af 30 stærstu borgum álfunnar og því ekki tekin með.

En hvernig skyldi Reykjavík standa ef hún yrði tekin með í stærra úrtak?  Með yfirburði?

Jú, kannski ef tekið er tillit til þess hvað mengun frá upphitun vegur þungt og þar njótum við heita vatnsins.

En á öðrum sviðum er niðurstaðan ekki eins skýr og fyrrum, jafnvel þótt búið sé að hreinsa strendurnar.

Eðlilegt væri að höfuðborgarsvæðið væri tekið sem heild, samanber það að Frederiksberg er vafalaust tekin með í reikninginn varðandi Kaupmannahöfn.

Lofttgæði á höfuðborgarsvæðinu eru ekki eins og þau voru áður. Álver við Hafnarfjörð mengar og á svæðinu er mest mengandi og eyðslufrekasti bílafloti Vestur-Evrópu, stærri hluti flotans stórir bílar og hvergi í álfunni minna hlutfall af dísilbílum.  

Hjólreiðar eru sáralitlar þrátt fyrir umbætur á því sviði.

Nú þegar stenst andrúmsloftið í Reykjavík ekki lágmarkskröfur Kaliforníu 40 daga á ári hvað snertir lykt og gæði vegna sívaxandi magns brennisteinsvetnis sem streymir þessa daga frá hinum "hreiinu" jarðvarmavirkjunum fyrir austan borgina. 

Þar fer 85% orkunnar út í loftið og að óbreyttri nýtingu og tækni og stórauknum virkjunum mun þetta versna.

Svifryksmengun í borginni fer yfir mörk nokkra daga á vetri hverjum og er einhver sú mesta sem þekkist.  

Við leiddum heitt vatn í borgina af hreinum peningasjónarmiðum en ekki vegna þess að við værum svona mikið hugsjónafólk.

Ef við lítum gagnrýnum augum á okkur sjálf sjáum við að við ættum að fara varlega í að berja okkur á brjóst og hreykja okkur.  


mbl.is Kaupmannahöfn umhverfisvænust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lana Kolbrún Eddudóttir

Loftgæðin í þessari "hreinu" borg eru fyrir neðan allar hellur.

Föður mínum lækninum, sem býr í Svíþjóð, bregður alltaf jafnmikið þegar hann kemur til Reykjavíkur í vetrarstillum. Hann á ekki orð yfir svifrykinu og gulu  stóriðjuslikjunni.

Lana Kolbrún Eddudóttir, 8.12.2009 kl. 14:43

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvaða "gulu stóriðjuslikju" ertu að tala um Lana? Mengun frá álverinu í Straumsvík er ósýnileg og áburðarverksmiðjan í Gufunesi er hætt, en þaðan kom stundum gul mengun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.12.2009 kl. 16:42

3 Smámynd: Lana Kolbrún Eddudóttir

Gulan er frá Grundartanga.

Lana Kolbrún Eddudóttir, 8.12.2009 kl. 17:54

4 Smámynd: Lana Kolbrún Eddudóttir

En það er auðvitað léttir að þeim upplýsingum að mengunin frá Álverinu í Straumsvík sé "ósýnileg". Það gerir málið allt miklu betra.

Lana Kolbrún Eddudóttir, 8.12.2009 kl. 17:56

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég á myndir af álverinu í Straumsvík þar sem mengunin er vel sýnileg að ekki sé nú talað um mynd af Grundartanga en þar eru á kreiki sagnir af því að mengunarvarnarbúnaður járnblendiverksmiðjunnar sé meira og minna bilaður.

Ómar Ragnarsson, 8.12.2009 kl. 18:07

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er ímyndun hjá þér ómar. "Mengunin"  sem þú þykist hafa séð, er vatnsgufa.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.12.2009 kl. 18:49

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allt í lagi, Gunnar minn. Vatnsgufan yfir álverinu í Straumsvík er blágræn og brúnleita skýið sem stundum gýs upp úr Járnblendiverksmiðjunni sömuleiðis.

En er ekki dálítið skrýtið að þegar kviknaði í henni og slökkviliðið var sent á vettvang skyldi sú ferð liðsins vera til þess að slökkva í þessari brúnu vatnsgufu?

Ómar Ragnarsson, 9.12.2009 kl. 00:09

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er hægt að benda á bruna og/eða önnur slys í þessum stóriðjuverum og taka mynd af því og segja "svona er þetta".

Í bull-mynd Andra Snæs Magnasonar, Draumalandið, er sýnt "skot" af álverinu í Straumsvík og sést þar reykjamökkur mikill. Framsetningin,.... tónlistin og samhengið í myndinni, hrópaði að áhorfandanum: "Sjáið þessa ógeðslegu mengun". 

Það þurfti engan texta við þetta myndbrot: "mynd segir meira en þúsund orð".

En staðreyndin var auðvitað sú að engin mengun sást þarna, heldur einungis vatnsgufa frá kælikerfum álversins.

Eina mengunin sem kemur frá nútíma álverum er Co2 og sú lofttegund er undirstaða lífsins á jörðinni eins og við þekkjum það. Algjörlega lyktarlaust og ósýnilegt. Brennisteinsmengun er óveruleg í dag og langt undir öllum hættumörkum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.12.2009 kl. 01:01

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef nefnilega komið oftar að járnblendiverksmiðjunni en þegar þar var bruni og það var enginn munur á litnum á "vatnsgufunni" sem þar gaus upp þegar enginn bruni var og þegar það brann.

Þúsundir manna hafa orðið vitni að því þegar hreinsunarkerfið þarna er bilað en þeir virðast geta sloppið með það. 

Gunnar trúir því að útblásturinn á CO2 sé bráðnauðsynlegur fyrir lífið á jörðinni og því algerlega óþarft að vera halda heila 110 þjóðarleiðtoga ráðstefnu út af því í Kaupmannahöfn. 

Ómar Ragnarsson, 9.12.2009 kl. 10:17

10 identicon

Fyrst Gunnar er sannfærður um ágæti losunar gróðurhúsalofttegunda þá hlýtur hann að vera sérstaklega ánægður með að hafa Fjarðarál í túnfætinum, losun þess á gróðurhúsalofttegundum svarar nefnilega ca. til þess að allur bílafloti Íslendinga stæði á staðnum í gangi allan sólarhringinn allan ársins hring.

Það sem Gunnar hins vegar situr uppi með í nágrenninu og deilir ekki með restinni af íbúum jarðar eins og hann gerir með gróðurhúsalofttegundirnar eru t.d. brennisteinn, köfnunarefnisoxíð, svifryk og PAH efni. Þar er um staðbundna mengun að ræða sem ekki berst mjög langt frá mengunarvaldinum.

En varðandi þessa gulu slikju sem oft sést yfir Reykjavík á lognstillum dögum þá held ég nú að Gunnar hafi rétt fyrir sér með að þar sé ekki hægt að benda á stóriðjuna sem aðalorsakavald heldur mengun frá bílaumferðinni. Venjulegur bíll mengar nefnilega með næstum öllum þeim sömu efnum og stóriðjan gerir og þar er töluvert ófullkomnari mengunarbúnaður en í nútíma stóriðjuveri.

Ég bý nú í DK og verð að viðurkenna að þessi úthlutun til Kaupmannahafnar kom mér mikið á óvart og það læðist að manni sá grunur að þetta sé kannski eitthvað tengt loftslagsráðstefnunni sem nú stendur yfir, án þess að ég svo sem viti neitt um það. En eins og maðurinn sagði þá er pólitíkin skrítin tík og hefur víða viðkomu.

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 11:57

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég sagði ekki að útblásturinn á CO2 sé bráðnauðsynlegur fyrir lífið á jörðinni eða ágæti losunar gróðurhúsalofttegunda. Ég var einungis að benda á hvaða "eitur" væri um að ræða fyrir umhverfið. Gróðurhúsabændur, sumir hverjir, eru með dýran útbúnað til að blása þessu "eitri"(co2) inn í gróðurhús sín til þess að auka uppskeru sína.

Mengun frá Fjarðaáli hefur verið vöktuð frá upphafi. Hjörleifur Guttormsson, sem kærði allt sem hægt var að kæra varðandi framkvæmdirnar hér eystra, notaði þau rök að fjörðurinn væri svo þröngur og þess vegna væri þetta óheppileg staðsetning. Annað hefur komið á daginn. Allar mælingar sýna að mengun er langt undir öllum viðmiðunar og hættumörkum en þess má geta að strompurinn sem leiðir mengunarefnin út í andrúmsloftið er næstum jafnhár Hallgrímskirkjuturni. Loftgæði á Reyðarfirði eru mun betri en á höfuðborgarsvæðinu.

Hjalti talar um að hafa Fjarðaál í túnfætinum hjá sér. Fjarðál er töluvert lengra frá íbúabyggð en álverðið í Straumsvík.

Varðandi Grundartanga, þá þekki ég ekki vel til þar en verksmiðjan þykir mér með eindæmum "sovésk" að sjá, frekar subbuleg. Það á auðvitað ekki að láta þá komast upp með að reka verksmiðjuna með bilaðan mengunarvarnarbúnað. Ég held að þar sé komið ágætt verkefni fyrir umhverfisverndarsinna, þ.e. að þrýsta á um úrbætur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.12.2009 kl. 12:56

12 identicon

Ómar

Þakkaðu frekar fyrir að ekki séu fleiri díselbílar í Reykjavík, því þá væru loftgæðin enn verri. Þó díselbílar losi eitthvað minna af gróðurhúsalofttegundum þá losa þeir margfalt meira af nituroxíðum og sóti. LÍKA nýjir díselbílar með sótsíum. Þeir menga reyndar minna en gömlu díslelbílarnir en samt meira en nýr bensínbíll af sömu tegund.

Halldór (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband