8.12.2009 | 12:34
"Ofurmaðurinn" er ekki til.
Nasistar trúðu því að hægt væri að búa til kynþátt ofurmenna sem réði heiminum. Á síðustu árum sínum varð Hitler sjálfur samt að skjálfandi lyfjafíkli og Hermann Göring ríkismarskálkur var heróinfíkill.
Í Sovétríkjunum trúðu menn því að búið væri að útrýma vændi.
Í ferð myndarlegra bílablaðamanna til Murmansk 1978 sem ég fór í ásamt konu minni voru nokkrir laglegir einhleypir menn.
Við vorum við fljót að frétta af því að af mörgum innfæddum, sem vildu eiga við okkur ólögleg viðskipti, voru vændiskonur fyrirferðarmiklar.
Eisenhower var fyrirmynd um siðsamlegt líferni en síðar kom í ljós að hann átti viðhald þegar hann var yfirhershöfðingi Bandamanna í stríðinu.
Franklin Delano Roosevelt átti eiginkonu sem var stórkostleg manneskja og fyrsta bandaríska forsetafrúin sem komst til sambærilegrar virðingar. Þótt lamaður væri að miklu leyti og bundinn við hjólastól lengstum átti FDR samt hjákonu.
Breyskleiki og ófullkomleiki andlegra leiðtoga hefur orðið opinber og verður opinber með reglulegu millibili svo lengir sem maðurinn lifir í núverandi mynd hér á jörðinni.
Ekki þarf að orðlengja um hliðarspor Kennedy-bræðra eða Bills Clintons og margar heimsfrægar konur glímdu við Bakkus og voru ekki allar þar sem þær voru séðar.
Rokkkóngarnir Presley og Jackson voru engin ofurmenni nema á afar afmörkuðu sviði.
Stalín var tákn andbandarískrar stefnu en sat um nætur og horfði á bandarískar kúrekamyndir.
Vitað er að Tiger Woods hefur flestum öðrum íþróttahetjum framar gert færni sína í íþróttinni að algeru forgangsatriði í smáatriðum, sem sum hver hafa sýnst smásmuguleg fram úr hófi.
Í slíkri fullkomnunaráráttu liggur hættan á lyfjamisnotkun og hrösun í leyni.
"Ofurmaðurinn" er nefnilega ekki til og mér liggur við að segja, þrátt fyrir allt, - sem betur fer.
Eiginkonan farin frá Tiger | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skemmtileg samantekt Ómar og úr nógu að moða. Sá íþrótta-ofurmenni, sem ég ber mesta virðingu fyrir -for the time being-, er tenniskappinn, Roger Federar. Hann er búinn að vera með sömu konunni í mörg ár, giftist henni í fyrra og orðinn pabbi. Hefur aldrei verið bendlaður við aðra konu. Roger er líka sérstaklega sympatískur náungi og blátt áfram. Margir telja hann mesta íþróttamann í heimi í dag. Nákvæm mælistika á slíkt er auðvitað ekki til.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 13:27
Skemmtilegar hugleiðingar þótt ég telji að þessar sögur um Tiger Woods sé samsæri keppninautanna eða ADIDAS til að koma höggi á hann. Æi nei jæja kannski er þetta rétt um piltinn? Best að halda þá bara með Roger Federer í staðinn enda Nike maður. Við vitum það samt Ómar að Ofurmaðurinn/Superman er samt til alveg eins og jólasveinninn. Þú hefur séð bíómyndirnar er það ekki :)
Guðmundur St Ragnarsson, 8.12.2009 kl. 15:17
Hversu mikið varðar okkur um einkalíf annarra, Ómar? Ætli allt syndlausa fólkið sé að kasta steinunum í Tiger eða þá aðra sem frægir eru? Það er alveg makalaust þegar Bylgjan smjattar á einkalífi mannsins í íþróttafréttunum. Þykir fólki þetta í lagi? Mér þykir það ekki.
Gústaf Níelsson, 8.12.2009 kl. 15:36
Það er alþekkt að þegar svona mál koma upp sprettur upp fólk sem telur sig tengjast því. Oft er það fólk sem þyrstir í 15 mínútna frægð eða að geta beitt fjárkúgun.
Þess utan finnst mér það ekki skipta nokkru máli hvað Tiger Woods gerir í einkalífi sínu.
Mitterand Frakklandsforseti afgreiddi þetta best: Óreyndur blaðamaður rétti upp hönd á stórum blaðamannafundi og spurði hann: "Er það rétt að þú eigir hjákonu og hafir átt lengi? " "Já," svaraði Mitterand, - gjörið svo vel, næsta spurning." Málið dautt.
Ómar Ragnarsson, 8.12.2009 kl. 17:43
Margir frægir og snjallir stjórnmálamenn voru kvennamenn miklir. Margir álykta jafnvel að slíkt eðlisfar geri viðkomandi að betri pólitíkus. Ég er ekki frá því, að hefði Dabbi kallinn verið að brölta á maga einhverrar stelpu út í bæ á sínum valdatíma, hefði hrunið ekki orðið og að Íslendingar stæðu ekki frammi fyrir því að borga reikning upp á mörg hundruð milljarða vegna vitleysunnar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 19:41
Það er til vísindaleg kenning þess efnis að þeir karlmenn sem eiga velgengni að fagna séu frekari til kvenna en aðrir og njóti meiri hylli hjá konum en aðrir.
Að baki liggur ævagömul útgáfa af lögmáli Darwins um "survival of the fittest" sem brýst fram í því að konur leiti frekar eftir körlum sem hafa vald og gengur vel til að tryggja öryggi afkomendanna og slíkir karlar leiti líka frekar eftir að fjölga sér til að bæta kynstofninn.
Ómar Ragnarsson, 8.12.2009 kl. 19:49
Frábær grein Ómar.
Takk.
Teitur Haraldsson, 8.12.2009 kl. 21:03
Heldur þykir mér þetta karlrembulega skrifað blogg.
Að sjálfsögðu hefur ekki hvarflað að nokkrum manni í Sovétríkjunum að þar hafi vændi verið útrýmt. Það er nú betra að halda sig við staðreyndir í þessum efnum en reyna að viðhalda hér einhvers konar flökkusögu og kvarta svo undan ámóta sögum um Íslendinga:
"Í Sovétríkjunum trúðu menn því að búið væri að útrýma vændi."
Í Sovétríkjunum og Rússlandi hefur ætíð búið fjöldinn allur af fátæku fólki, drykkju- og eiturlyfjasjúklingum, rétt eins og hér á Íslandi. Og sumt af þessu fólki, einnig hérlendis, er í vændi til að útvega sér peninga fyrir mat, áfengi og eiturlyfjum, en ekki vegna þess að þeim lítist svo vel á þá sem eiga peninga:
"Í ferð myndarlegra bílablaðamanna til Murmansk 1978 sem ég fór í ásamt konu minni voru nokkrir laglegir einhleypir menn."
Og þessir "laglegu einhleypu menn" hafa að sjálfsögðu látið þessar konur fá peninga fyrir ekki neitt, líkt og hið laglega og einhleypa KSÍ í Sviss.
Þorsteinn Briem, 8.12.2009 kl. 21:48
Það er dálítið síðan að ég uppgötvaði að ég væri ekki fullkominn, það var algjört sjokk
Sigurður Þorsteinsson, 8.12.2009 kl. 21:49
Afneitun Sovétmannanna var alger þegar þeir ræddu við okkur á blaðamannafundum og blaðafulltrúar þeirra héldu því fram fullum fetum að vændi fyrirfyndist ekki í Rússlandi. Trúleg saga í hafnarborg eins og Murmansk. Ég ætti kannski að skrifa bloggpistil sem lýsir þessu nánar.
Einn hinna einhleypu norrænu blaðamanna átti raunar viðskipti við eina af þessum vændiskonum og var í sambandi við hana.
Hún var í góðum efnum enda á mála hjá KGB til að veiða upplýsingar upp úr mönnum, nokkurs konar Christine Keeler í Murmansk.
Ég get ekki séð nokkra karlrembu fólgna í því að greina frá svona staðreyndum.
Ómar Ragnarsson, 9.12.2009 kl. 00:04
Ég kalla þetta karlrembu:
"Í ferð myndarlegra bílablaðamanna til Murmansk 1978 sem ég fór í ásamt konu minni voru nokkrir laglegir einhleypir menn."
Það skiptir ENGU máli í þessu samhengi hvort þessir menn voru laglegir og einhleypir. Vændi er viðskipti og fólk selur öðrum alls kyns vörur og þjónustu, einnig "ljótum" kvæntum mönnum.
Að sjálfsögðu viðurkenndi fólk í Sovétríkjunum ekki þegar það talaði við útlendinga, sem það þekkti ekki neitt, að þar væri til fátækt, vændi, ofneysla áfengis og eiturlyfjaneysla. En auðvitað vissu allir sem bjuggu í Sovétríkjunum af þessu öllu þar, annað hvort af eigin reynslu eða afspurn.
Ég VEIT að hér í Reykjavík er allt krökkt af rottum en þó hef ég ekki séð eina einustu hér.
Og við Íslendingar byrjum nú yfirleitt ekki á því að tala hér við útlendinga um fátækt, vændi, ofneyslu áfengis og eiturlyfjaneyslu annarra Íslendinga, enda þótt við vitum mæta vel af þessu öllu hér og höfum alltaf vitað.
"Njósnir" voru iðnaður í Sovétríkjunum en árangurinn af þessum iðnaði var sáralítill, miðað við allt fólkið sem "stundaði" hann. En allir urðu að hafa einhvers konar "vinnu" í kommúnistaríkjunum.
Í sendiráði Sovétríkjanna hér í Reykjavík "unnu" um eitt hundrað manns og þar voru margir KGB-menn hverju sinni. Þeir sendu alls kyns skjöl héðan til Moskvu og þar var þeim samviskusamlega raðað í nokkurra kílómetra langar hillur. Langmest af því var hins vegar einskis virði fyrir Sovétríkin en KGB-mennirnir urðu að sýna að þeir hefðu hér eitthvað fyrir stafni.
Verst var ástandið þó í Austur-Þýskalandi, þar sem nánast allir "njósnuðu" um alla af þýskri nákvæmni, allir símar voru hleraðir allan sólarhringinn og innihaldið í öllum ruslatunnum var grandskoðað. En þetta veistu svo sem allt saman.
Óli föðurbróðir kvæntist rússneskri konu, Kötju, sem bjó í Kislovodsk í Kákasusfjöllunum og Sovétmenn töldu þau svo hernaðarlega mikilvæg á þessum árum að Óli fékk ekki að fara þangað fyrr en hann hafði fengið leyfi til þess frá sjálfum Nikita Krústsjoff, þá leiðtoga Sovétríkjanna, eftir margra mánaða þras við Kremlverja, enda var Ísland þá fyrir löngu komið í NATO.
Þegar Katja gat svo loksins flutt hingað til Reykjavíkur eftir að hafa fengið til þess leyfi frá Sovétríkjunum krafðist KGB í sovéska sendiráðinu hér að Óli "njósnaði" fyrir þá, enda gat hann farið inn í herstöð Bandaríkjanna á Miðnesheiði. Að öðrum kosti "kæmi eitthvað fyrir" fjölskyldu Kötju í Kislovodsk.
Óli gerði það sem KGB bað hann um en það var allt nauða ómerkilegt og hann sagði jafnframt sendiráði Bandaríkjamanna hér frá öllu saman. Og þeir höfðu að sjálfsögðu áhuga á að vita hvað Sovétmenn vildu vita, þannig að Óli var einnig orðinn "gagnnjósnari". En allt var þetta tóm vitleysa frá upphafi til enda.
Þorsteinn Briem, 9.12.2009 kl. 02:37
Steini Briem,
Hvað er "pointið" með skrifunum þínum?
Þú skrifar eins og þú hafir fæðst í gær, jú og einnig telurðu lesendur þína hafa fæðst í gær. Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta, er einhverskonar "besserwissera-loftþembuprump".
Þorsteinn (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 06:50
Þorsteinn.
Það er beinlínis heimskulegt af þér að tala hér um "besserwissera" í þessu sambandi þegar ég ræði hér um hluta af fjölskyldu minni sem bjó í Sovétríkjunum og þar að auki hef ég sjálfur búið í Rússlandi.
Og mér er nákvæmlega sama hvað þér og álíka fábjánum finnst um það sem ég skrifa hér en ég get svo sem endurtekið hvert "pointið er", enda þótt ég hafi útskýrt það hér að ofan í löngu máli:
Ég kalla þetta karlrembu:
"Í ferð myndarlegra bílablaðamanna til Murmansk 1978 sem ég fór í ásamt konu minni voru nokkrir laglegir einhleypir menn."
Það skiptir ENGU máli í þessu samhengi hvort þessir menn voru laglegir og einhleypir. Vændi er viðskipti og fólk selur öðrum alls kyns vörur og þjónustu, einnig "ljótum" kvæntum mönnum.
Þorsteinn Briem, 9.12.2009 kl. 10:06
Steini,
Aftur spyr ég. Hvað er pointið með skrifum þínum? Hvað ertu að reyna sýna fram á?
þorsteinn (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 20:01
Þorsteinn.
Ég þarf alla vega ekki að sýna fram á það hér að þú sért fábjáni. Þú sérð ágætlega um það sjálfur.
Þorsteinn Briem, 9.12.2009 kl. 22:07
Af skrifum þeirra hálfnafnanna Þorsteins og Steina liggur ljóst fyrir hvor þeirra er fábjáni. Það er þá upplýst og vonandi getur þjóðin sofið betur þess vegna.
Þorvaldur (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 22:26
Þorsteinn og Þorvaldur eru sem sagt einn og sami maðurinn.
Er ekki einhver Þengill líka á Litla-Hrauni, álíka heimskur og hann sjálfur, það er að segja Þorsteinn og Þorvaldur?
Þorsteinn Briem, 9.12.2009 kl. 22:43
Ég legg málið í dóm! Þarf framar vitnanna við?
Þorvaldur (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 09:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.