10.12.2009 | 17:18
Jólin og íslensk náttúra.
Ég er í augnablikinu í Mývatnssveit á leið frá Egilsstöðum á gamla Samurai-jeppanum, sem þar hefur verið, með utanborðsmótor af Örkinni sem ég ætla að reyna að selja í Reykjavík.
Ég renndi við hjá verkstæði Karls Viðars hjá gamla Rússanum, sem nýlega lék bara furðu stórt hlutverk í tveimur þýskum sjónvarpsþáttum um íslenska náttúru og virkjanamál sem sýndir voru í haust.
Þarna var kíkt sem snöggvast á slitna pútrörspakkningu svona til öryggis.
Þar sem ég var að taka bensín spurði ég hvar í sveitinni væri netsamband og var strax boðið að koma í Kaffi borgir sem er miðstöð við Dimmuborgir sem er opin vegna þess að þar er unnið að því að markaðssetja staðinn sem stað jólasveinanna þrettán, Grýlu, Leppalúða, Jólakattarsins, tröllanna og álfanna.
Læt fylgja hér með nokkrar myndir, sem börnin sem hingað hafa komið, hafa teiknað og skilið eftir.
Hér er ungt og frískt fólk sem er að þreifa sig áfram í því sem hefði getað orðið einhver arðbærasti atvinnuvegur Íslands ef menn hefðu áttað sig í tíma á gildi þess að börn í Evrópu skrifuðu jólasveininum á Íslandi bréf sín um jólin, Íslendingum til mikillar armæðu.
Finnar gripu hins vegar tækifærið og hafa gert Lappland og Rovaniemi að heimkynnum jólasveinsins sem fleirii heimsækja á veturna en Ísland allt árið, og er þó lengra frá helstu markaðslöndunum til Lapplands en Íslands.
Á Íslandi bera menn fyrir sig rysjótt veður og hlákur á veturna þótt aðeins 15 kílómetrar séu frá byggðinni í Reykjahlíð upp í snævi þakið ævintýraland gíga og hvera í meira en 500 metra hæð yfir sjó norður af Kröflu.
Frá alþjóðlega flugvellinum á Egilsstöðum eru aðeins nokkrir kílómetrar upp á meira en 600 metra háa snæviþakta Fljótsdalsheiðina með vetrarríki sínu, hreindýrum og Snæfelli.
Lappland býður upp á fjögur atriði: Þögn, myrkur, kulda og ósnortna náttúru auk jólsveinsins og hreindýranna.
Ísland hefur þetta allt plús 12 aukajólasveina, Grýlu, Leppalúða, Jólakattarins og álfanna.
Ég sá á blogginu að rætt var um að það eina sem nú blasti við fyrir Íslendinga væri að stöðva allt annað en álver og fiskvinnslu og koma öllum vinnandi höndum inn í þau.
Flott hugmynd þetta.
Sex risaálver á Íslandi, sem þyrftu alla orku landsins myndu gefa 2% af vinnuaflinu vinnu við kerin og sennilega myndu álíka margir geta unnið í frystihúsunm.
Þá eru eftir hin 96% vinnuaflsins sem flokkast undir "eitthvað annað", algerlega vonlaust og að engu hafandi.
Jólaþorp opnað við Laugaveg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvert fer þögnin í slagviðrinu?
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.12.2009 kl. 02:47
Þegar ég var síðast á ferð um Leirhnjúk og Gjástykki í fyrravetur var hvergi hægt að vera á þessu 200 ferkílómetra svæði án þess að heyra hvininn í borholum Landsvirkjunar við Kröflu og Þeystareyki.
Í dag er logn hér fyrir norðan á sama tíma og slagviðrið ergir Reykvíkinga.
Það er líka til fyrirbrigði sem heitir vindur annars staðar í Evrópu.
En gleddu þig bara áfram við vonina um hvaðeina sem má flokka sem "eitthvað annað" sé vonlaust hér á landi.
Ómar Ragnarsson, 11.12.2009 kl. 12:23
"En gleddu þig bara áfram við vonina um hvaðeina sem má flokka sem "eitthvað annað" sé vonlaust hér á landi. "
Það er auðvitað ekki mjög málefnalegt að koma með svona. Hvaða hagsmuni hef ég í því að koma í veg fyrir "eitthvað annað" ?
Ég er bara að reyna að koma með raunsæ sjónarmið. Menn geta svo verið ósammála þeim og allt í lagi með það. Þú markaðsetur ekki þögnina og kuldann þegar innan við 50% líkur eru á því að þú getir staðið við "afhendinguna".
En þú myndir sjálfsagt segja við fólk sem kemur hingað um langan veg, í slagveðurs rigningu, til að njóta kuldans og þagnarinnar: "Þið gerið þá bara eitthvað annað í staðinn".
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.12.2009 kl. 16:15
Þegar ferðamaðurinn áttar sig á þessu, þá fer hann til Rovaniemi , frekar en hingað.
Málið er að við getum ekki markaðssett ákveðin veðurskilyrði hér. En við höfum upp á margt að bjóða, líka á veturna, enda sýna tölur að ferðamönnum fjölgar yfir vetrarmánuðina, sem betur fer.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.12.2009 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.