Nýr vegur yfir Þingvelli ?

Fróðlegt sjónarmið mátti heyra í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi, sem sé það að við mat á umhverfisáhrifum eigi það atriði að vega þungt og þá væntanlega að hafa úrslitaáhrif ef vegur getur orðið sem stystur svo að slysahætta minnki. 

Einar K. Guðfinnsson sagði að um allt land gæti vegakerfið liðið fyrir það að þetta væri ekki haft í huga og þessu þyrfti að breyta.

Það þarf ekki að fara langt til að finna gott dæmi um þetta.  

Þegar lögunum hefur verið breytt opnast væntanlega nýr og stórkostlegur möguleiki til samgöngubóta sem hefur algerlega verið vanmetinn, sem sé sá að stytta hina gríðarlegu fjölförnu leið milli Reykjavíkur og Laugarvatns, Gullfoss og Geysis um heila 5 kílómetra með því að leggja hraðbraut fyrir 90 km hámarkshraða fram af brún Almannagjár fyrir sunnan Þingvelli og fara stystu leið með norðurströnd Þingvallavatns.  

Þar með yrði aðkoma akandi ferðamanna að Þingvöllum jafnvel enn glæsilegri en hún var þegar brunað var á rútum niður í suðurenda Almannagjár, því að útsýnið yrði magnað úr bílunum á leiðinni í gegnum gjárbrúnina og yfir hana og síðan í talsverðri hæð fyrir sunnan Vellina. 

Þessi nýi vegur myndi verða sunnan við Vellina sjálfa og gjárnar og því ekki raska þeim neitt.  

Vegna þess að umferðin þessa leið er líklega minnst hundrað sinnum meiri en um veginn sem Einar þráir í gegnum Teigskóg yrði ávinningurinn í umferðarslysum talið líka hundrað sinnum meiri en við lagningu vegar í gegnum Teigskóg. 

Raunar held ég ekki að jarðgöng undir Hjallaháls og nýr vegur í tengslum við þau yrðu neitt hættulegri en vegur um Teigskóg og mér sýnist ekki að slys hafi verið svo tíð hvort eð er á þessum slóðum, þrátt fyrir gamlan veg.  

Nú þyrfti Stöð tvö að fylgja þessu eftir og sýna bestu dæmin um mikið ágæti stefnu Einars K. og það eru hæg heimatökin svona skammt fyrir austan höfuðborgina. Þingvelli strax á eftir Teigskógi!  

Þá yrði líka kannski meiri líkur á því að einhver yrði til andsvara ef þau eru talin æskileg.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæll Ómar, ég hefði meiri áhuga á að leggja veg fyrir sunnan vatnið, sjá leið 3 hér (eða 4/5).
http://www.steinisv.blog.is/blog/steinisv/entry/928031/

Mér finnst sú niðurstaða að fara leið 2 séu mistök.  Það eykur umferðarþungann á núverandi vegi fyrir austan vatn og hann er alls ekki byggður fyrir mikla umferð. Afleiðingarnarnar verða slys og þær að vegurinn verður ekki notaður eins mikið og ella.

Þorsteinn Sverrisson, 13.12.2009 kl. 21:26

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er að nefna þessa hugsanlegu leið á norðurbakka Þingvallavatns sem dæmi um þær ógöngur sem skilyrðislaus krafa um stystu leið getur leitt menn í.

Ómar Ragnarsson, 14.12.2009 kl. 00:03

3 identicon

Sæll Ómar.

 Einar K. hlýtur þá líka að vera tilbúinn að leggja lóð sitt á vogarskálarnar þegar kemur að styttingu þjóðvegar nr 1 með uppbyggingu Svínvetningaleiðar.  Held að leitun sé að jafn fjárhagslega hagkvæmri samgöngubót, styttingu leiðar - og þá væntanlega miklu minni slysahættu.

Gunnar Björgvinsson (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband