"Skuggi", nútíma Ford T.

Nú fyrir helgina ók ég frá Egilsstöðum til Reykjavíkur á nær 24 ára gömlum smájeppa af gerðinni Suzuki Samurai sem er bandarísk útgáfa af Suzuki Fox.  Hann er svartur og ég kalla hann "Skugga." 

DSC00163

Ég krækti í þennan jeppa fyrir níu árum fyrir nokkra tugi þúsunda og þá var búið að aka honum á þriðja hundrað þúsund kílómetra.

Það mátti heyra á vélinni og finna í gírskiptingu að mikið slit var komið í þennan aldraða bíl.

Hljóðið í vélinni var farið að líkjast hljóði í dísilvél en þó kom hann vel út í mengunarmælingu því að hann var gerður til að standast kröfur Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Fyrir nokkrum árum fóru gírskipting og háa og lága drifið í rugl, þannig að bíllinn gekk á tímabili aðeins í lága drifinu á afturdrifinu einu, en það á ekki að vera hægt! 

Í fimmta gír á lága drifinu er hins vegar hægt að koma bílnum yfir leyfilegan hraða og alltaf skilaði hann því sínu.  

Nokkrum vikum síðar hrökk hann allt í einu í fyrra horf án þess að að koma á verkstæði. 

Í fyrra fór hann skyndilega í gamla horfið og var ekki hægt að setja hann í neitt nema í háa og lága drifið þeim megin sem 4x4 tengingin kemur venjulega á,  en kom þó ekki !

Í gær datt hann síðan fyrirvaralaust í eðlilegt horf. Ég e ekkert að láta skoða svona lagað á verkstæði því að í rekstri svona bíla verður að lágmarka viðhaldskostnað við það sem krafist er í bifreiðaskoðun og ekkert umfram það. Miðað við not þessa bíls í átta ár hefur hann komið frábærlega út. 

"Skuggi" er ein af þremur bíldruslum mínum sem hefur ratað í erlenda fjölmiðla. Í grein um Kárahnjúkavirkjun í National Geographic var þess getið að í þessum litla bíl væri svefnstaður minn þar sem ég lifði á Cheerios og Coca-Cola.

Ekki alveg nákvæmt farið með þetta hvað snertir fæðið, en þó sannleikskorn (sannleiks-morgunkorn) í því.  

 Öll þessi ár hefur Skuggi verið þarfasti þjónninn við gerð heimildamynda um Kárahnjúkavirkjun og önnur verkefni í þessum landshluta og hefur surtur verið lengst af fyrir austan. 

Á 31 tommu dekkjum getur svona bíll fylgt jöklajeppum eftir í flestum ferðum, þó ekki eins og minnsti jöklajeppi landsins, rauður Fox ´86, sem brillerað hefur í tveimur erfiðum ferðum á Vatnajökli.

DSCF5475

Myndin er tekin á Bárðabungu þar sem sá litli flaut ofan á snjónum en kippa þurfti rétt áður í stóra hlunkinn sem er við hliðina á honum.

Sá litli var þó ekki eins duglegur í krapinu og þeir stóru þannig að leikar í ferðinni fóru 3:3, - það var þrisvar kippt í mig en ég kippti þrisvar í aðra. 

Kvikindið er þessa stundina númerslaus í hvíld á Ljónsstöðum í Flóa vegna brotins kambáss í GTI-vélinni sem í honum er.

Það var ódýrari kostur að vekja Skugga upp og því er hann nú kominn á kreik.  

Þegar ég fór síðast á Skugga frá Reykjavík til Egilsstaða 2007 hafði hann fengið athugasemd við bifreiðaskoðun í Reykjavík vegna þess að olía var farin að smita út frá gírskassanum.

Á síðasta kafla leiðarinnar austur fór að heyrast mikið ískur og brak í sumum gírunum og þegar gætt var að kom í ljós að öll olía hafði farið af gírkassanum.

Svo vel hafði gírkassinn tæmst, að í bifreiðaskoðun eystra flaug hann í gegn, því að engin olía var lengur í kassanum sem gat lekið út !  

Haustið 2007 tók ég númerin af honum og stóð hann óhreyfður á Egilsstöðum þar til fyrir nokkrum dögum, þegar ég ákvað,  eftir að ég hafði hætt í bili öllum kvikmyndatökum eystra vegna fjárskorts, að setja ónotaðan utanborðsmotor í Skugga og freista þess að aka með mótorinn til Reykjavíkur og selja hann þar.

Sett var olía og efnið Militec á gírkassann og kom heilmikið af járnsvarfi út, greinilega úr skemmdu gírkassahjólunum.

Hræðilegur hávaði kom úr öllum gírum nema þeim fjórða, - hann var alveg hljóðlaus enda hlutfallið á milli tannhjóla þá 1:1. 

Í gamla daga lærði maður að tvíkúpla á milli gíra sem ekki voru samhæfðir og ég brá því á það ráð að rétt kippa Skugga af stað í fyrsta á lága drifinu og setja hann síðan beint í fjórða gír.

Í 4ða á lága er hægt að aka bílnum í yfir 80 kílómetra hraða, en auðvelt er að skipta á ferð beint úr fjórða gír í lága í sama gír á háa drifinu með því að tvíkúpla og nota þessi tvö hraðastig eingöngu en hreyfa ekki gírstöngina !

Er skemmst frá því að segja að ég ók Skugga vandræðalaust alla leið frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í fjórða gír, ýmist í háa drifinu eða því lága !

DSC00089

Að þessu leyti er þessi bíll nútíma Ford T því að þessir tveir gírar, "high" og "low" nægja fullkomlega ! 

Ég tel Suzuki Fox best hannaða jeppa allra tíma og Gaz-69, "Rússajeppann" númer tvö. Er þá miðað við samanburð við aðra jeppa hvers tíma. 

En Súkkan er mun betur smíðaður en Rússinn og virðist gersamlega ódrepandi bíll á alla lund. Skuggi er gott dæmi um það eins og bílarnir hjá félögum í SÍS, Sambandi íslenskra Súkkueigenda, sem er með síðuna sukka.is

Get síðan að lokum ekki stillt mig um að birta mynd af nokkrum barnabarna minna í minnsta brúðarbíl landsins með númerinu "Ást".  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ingólfsson

Ég átti Súsuki jeppa frá 1986 til 2001 og þvældist víða.

Þetta skiptingarmál á millikiassanum er vel þekkt.

Þegar millikassarnir slitna þá verða þeir viðkvæmir fyrir því ef skiptistöngin er toguð uppávið þegar skipt er H-L. Það verður í raun að ýta létt ofaná stöngina þegar skipt er.

Þetta má laga innan úr bíl:

Með því að fjarlægja gúmmíhulsuna í kringum skiptistöngina má komast að loki ofan á millikassanum sem stöngingin gengur niður um. Þetta lok er fest með 3 skrúfum. Þegar það hefur verið losað má kippa skiptistönginni uppúr kassanum, þá blasa við 2 láréttar stangir og stýrir önnur H-L en hin tengir/aftengir framdrifið.

Það sem gerðist hjá þér er að skiptistöngin hefur verið að villast uppúr grópunum á þessum láréttu  stöngum (þessvegna má ekki togamillikassastöngina uppávið þegar skipt er).

Fáðu þér stórt skrúfjárn og hreyfðu láréttu stangirnar í þá stöðu að skiptistöngin passi í grópirnar og hægt sé að skipta millikiassanum eðlilega. skrúfaðu svo draslið saman og er einsvíst að það dugi áratug í viðbót.

 Þetta er 10 mín verk...

góða ferð.

Karl Ingólfsson, 17.12.2009 kl. 11:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk. Skipti núna með þínu lagi og allt svínvirkar!

Ómar Ragnarsson, 17.12.2009 kl. 23:53

3 Smámynd: Einar Steinsson

Afi minn keypti einn af fyrstu Fox jeppunum sem komu 1982 og átti hann til dauðadags 1994 og dóttursonur hans notaði hann í talsverðan tíma eftir það í hestastúss. Hann reyndist í alla staði vel en var orðin svolítið "músétin" undir lokin. Fox nafnið var eingöngu notað hér á landi, þeir hétu SJ410 en sölumaðurinn sem seldi afa bílinn sagði okkur að þeim hefði þótt það svolítið litlaust og þeir hefðu farið fram á það við Suzuki að fá að selja hann með nafni og hefðu sent þeim nokkrar tillögur. Suzuki samþykkti síðan að þeir mættu nota nafnið Fox. SJ410 bílarnir sem voru seldir í Evrópu voru flestir smíðaðir á Spáni en ég veit ekki hvort það gilti um bílana sem voru seldir hérna.

Ég eignaðist síðan sjálfur seinna ameríkubíl, stuttan SJ413 Samurai með háþekju breittan á 33" dekk. Ég mun líklega aldrei eignast jafn hagstæðan jeppa, hann bilaði nánast ekkert og var alveg þrælduglegur. Hann hafði vissulega sína galla (hastur, varasamur í hálku og vantaði smá tog í vélina) en sem ódýr duglegur fjallajeppi sló honum engin við.

Einar Steinsson, 18.12.2009 kl. 09:46

4 identicon

Frábærir jeppar gömlu súkkurnar.

En nú er erfitt að fá SJ410/Fox/Samurai. Sá sem tók við af honum er Suzuki Jimny. Hefur þú heyrt hvernig þeir eru að standa sig? Flottir og duglegir litlir jeppar og ábyggilega ódýrir í rekstri.

Hefur einhver hérna reynslu af þessum bílum?

Jonni (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 18:28

5 identicon

Drengirnir á www.sukka.is svara góðfúslega öllum spurningum um hvers kyns súkkur.

Gísli Sverrisson (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband