21.12.2009 | 18:18
Eina landið með eitt skattþrep?
Það er rétt að erfiðara er að halda uppi staðgreiðslukerfi þegar skattþrep eru fleiri en eitt.
Hins vegar var mjög fróðleg grein í Fréttablaðinu nýlega þar sem kom fram að í öllum nágrannalöndum okkar, þar á meðal Bandaríkjunum, séu skattþrepin fleiri en eitt.
Ísland hafi hingað til verið eitt á báti í þessu efni.
Í þessu svonefnda forystulandi frelsisins séu sex skattþrep og sama sé uppi á teningnum í öðrum nágrannalöndum okkar.
Þessi grein hefur ekki vakið neina umræðu hér og það er kannski ekki síður athyglisvert en efni hennar.
Ömurlegt skattkerfi sem enginn skilur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þótt allir hinir séu með þetta þá er sú krafa að hinir efnameiri borgi hlutfallslega meira en við hin án þess að fá meira til baka einfaldlega ósamgjarnt. Skiptir engu þótt allir geri rangt, það er samt rangt.
Teitur Haraldsson, 21.12.2009 kl. 19:09
Undanfarin 22 ára hafa verið óendanlega mörg skattþrep á Íslandi, sem verða til við samspil álagningarprósentu og persónuafsláttar. Þetta fer eftir eðli kerfisins og má ekki rugla saman mörgum skattþrepum og mörgum reikniprósentum.
Kerfi sem er byggt upp á "hreinum" þrepum er annars eðlis, t.d. enginn skattur af fyrstu 100.000, 10% af næstu 200.000, 15% af næstu 200.000 og svo framvegis. Eins og kerfið er hér þýðir það að eftir breytingar virka "þrepin" þannig að raunveruleg skattbyrði verður svona:
Þannig er skattbyrðin stigvaxtandi og fer í 40% markið við um 1,5 milljónir í mánaðarlaun. Það er algjör óþarfi að hafa fleiri en eina reikniprósentu til að ná fram mörgum skattþrepum, eins og reynsla síðustu 22 ára sýnir.
Haraldur Hansson, 21.12.2009 kl. 19:10
Þetta er samgjarnara kerfi, það hlýtur að vera að allir sjái það?
Af hverju er verið að hræra í þessu?
Teitur Haraldsson, 21.12.2009 kl. 19:55
Haraldur Hansson.
Ég myndi ekki vilja eiga bílinn þinn ef hann eyðir meiru á hvern ekinn kílómetra því lengra sem honum er ekið.
Allir greiða hér 37% skatt af öllum tekjum umfram skattleysismörkin, sem koma öllum jafnmikið til góða, sama hvort þeir eru með 150 eða 800 þúsund króna tekjur á mánuði.
Maður með 800 þúsund króna tekjur hér á mánuði greiðir af þeim 255.305 krónur í skatt, eða 37% af 686.546 króna tekjum umfram skattleysismörkin, sem eru 113.454 krónur á mánuði.
Lágmarkslaun hækkuðu hér í 157 þúsund krónur á mánuði 1. mars síðastliðinn og því eru allir í fullri vinnu með hærri tekjur en 113.454 krónur á mánuði. Einnig öryrkjar og ellilífeyrisþegar, sem nú eru með 150 þúsund króna lágmarkstekjur á mánuði og greiða af þeim 13.505 krónur í skatt á mánuði.
Þar af leiðandi leggur ríkið ekki 150 þúsund krónur inn á reikning þessara öryrkja og ellilífeyrisþega um hver mánaðamót, heldur 136.495 krónur, og tekur því 37% skatt af 36.546 króna tekjum þeirra umfram skattleysismörkin.
Allt þetta fólk greiðir því 37% skatt af tekjum sínum umfram skattleysismörkin og allir greiða sömu upphæðina í skatt af hverjum tíu þúsund krónum umfram 113.454 krónur á mánuði, að frádregnum til að mynda barnabótum og vaxtabótum.
Skattprósentan er núna 37,2% og persónuafslátturinn 42.295 krónur á mánuði.
RSK - Helstu tölur einstaklinga 2009
Þorsteinn Briem, 21.12.2009 kl. 22:51
Útvarpsgjald, sama upphæð óháð tekjum viðkomandi, er lagt á alla einstaklinga á aldrinum 16-70 ára, sem eru með tekjur umfram skattleysismörk næstliðið ár, 187.340 manns í ár.
Og þegar útvarpsgjaldið er tekið með í reikninginn greiða þeir sem eru með lægstu tekjurnar, 150 þúsund krónur á mánuði, nú hærra skatthlutfall en þeir sem eru með mun hærri tekjur, til dæmis 800 þúsund krónur á mánuði.
Útvarpsgjaldið er hins vegar ekki nema 17.200 krónur í ár, 47 krónur á dag, fyrir Sjónvarpið, Rás 1 og Rás 2, og var lögfest á Alþingi þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var menntamálaráðherra.
Sjálfstæðisflokkurinn lögfesti því hæsta skatthlutfallið á þá sem lægst hafa launin, örorku- og ellilífeyrisþega.
Þorsteinn Briem, 21.12.2009 kl. 23:28
Steini, þú verður síðan að draga frá það sem mismunandi tekjuhópar fá til baka s.s. mismunandi vaxtabætur, mismunandi barnabætur o.s.frv. Það hlýtur að vera nettótalan sem gildir.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 21.12.2009 kl. 23:41
"V. Álagning og innheimta útvarpsgjalds. Megintekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf. til og með 31. desember 2008 eru gjöld fyrir útvarpsafnot, gjöld fyrir auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi og öðrum miðlum og aðrir tekjustofnar sem Alþingi kann að ákveða. Menntamálaráðherra skal staðfesta útvarpsgjöld að fengnum tillögum útvarpsstjóra."
Lög nr. 6/2007 1. febrúar um Ríkisútvarpið ohf.
Þorsteinn Briem, 21.12.2009 kl. 23:42
Sigurður Viktor Úlfarsson.
Mikið hefur verið rætt um að "ríkustu" Íslendingarnir hafi kostað íslenska ríkið háar fjárhæðir undanfarin ár.
Allir á aldrinum 16-70 ára með tekjur yfir skattleysismörkum greiða í ár 7.534 krónur í Framkvæmdasjóð aldraðra, samtals 1,4 milljarða króna, og rúma 3,2 milljarða króna í útvarpsgjald, sem einnig er óháð tekjum umfram skattleysismörk.
Í mörgum tilfellum hafa tekjuháir greitt hér einungis 10% fjármagnstekjuskatt og þar af leiðandi ekkert til síns sveitarfélags, enda þótt þeir hafi notið þjónustu þess í hvívetna. Meðalútsvar í staðgreiðslu var 12,97% fyrir síðastliðið ár og hér voru greiddir 19,7 milljarðar króna í fjármagnstekjuskatt vegna tekna á síðastliðnu ári.
Tekjuháir fá hver og einn mun hærri atvinnuleysisbætur en tekjulágir. Í fyrra fengu 10.370 manns greiddar samtals tæpa 3,7 milljarða króna í atvinnuleysisbætur, um 356 þúsund krónur á mann á mánuði að meðaltali, en lágmarksatvinnuleysisbætur eru 150 þúsund krónur á mánuði.
Launaháir fá einnig hærri bætur en tekjulágir úr Fæðingarorlofssjóði.
"Fæðingarorlofssjóður greiðir 80% af meðaltali heildarlauna."
Réttur foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði - Börn fædd eftir 1.júní 2008
Réttur foreldra til fæðingarstyrks - Börn fædd eftir 1.júní 2008
Lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000
Fæðingarorlofssjóður árið 2009 - Hámarks- og lágmarksgreiðslur
Og 5.736 sjómenn, sem eru tekjuhá stétt, fengu á síðastliðnu ári rúman 1,1 milljarð króna í sjómannaafslátt, að meðaltali um 192 þúsund krónur, eða 16 þúsund krónur á hvern sjómann á mánuði.
Fyrir síðastliðið ár fengu 69.129 foreldrar um 9,6 milljarða króna í barnabætur, eða 139 þúsund krónur, um 12 þúsund krónur á mánuði að meðaltali á hvert foreldri. Og 64.900 einstaklingar fengu fyrir síðastliðið ár rétt rúmlega tíu milljarða króna í vaxtabætur vegna kaupa á íbúðarhúsnæði, um 154 þúsund krónur á mann, eða 13 þúsund krónur á mánuði.
Hámarks vaxtabætur einstaklings eru nú 246.944 krónur, eða 20.579 krónur fyrir hvern mánuð, og hámarks vaxtabætur hjóna eru 408.374 krónur, eða 34.031 króna fyrir hvern mánuð.
RSK - Um vaxtabætur
Sveitarfélög greiddu 9.704 manns alls 343,3 milljónir króna í húsaleigubætur á fyrsta ársfjórðungi 2004, þrjú þúsund krónur á mann á mánuði, eða 4.500 krónur á mánuði á núvirði, miðað við hækkun á launavísitölu á þessu tímabili.
Fréttabréf um húsaleigubætur
Reglur um sérstakar húsaleigubætur í Ísafjarðarbæ
Húsaleigubætur eru nú að hámarki 18 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling og að hámarki 46 þúsund krónur á mánuði fyrir fólk með börn.
Húsaleigubætur skerðast hins vegar í hverjum mánuði, óháð fjölskyldustærð, um 1% af árstekjum umfram tvær milljónir króna, eða 167 þúsund króna tekjur á mánuði allra sem eiga lögheimili í viðkomandi íbúð, samkvæmt 9. grein laga um húsaleigubætur, en lágmarkslaun eru nú 157 þúsund krónur á mánuði.
Og 25% af eignum allra sem eiga lögheimili í viðkomandi íbúð umfram 5,5 milljónir króna bætast við þær tekjur sem liggja til grundvallar ákvörðun um fjárhæðir húsaleigubóta.
378/2008 - Reglugerð um breytingu á reglugerð um húsaleigubætur, nr. 118/2003
Lög um húsaleigubætur nr. 138/1997
Tekjuháir skulda væntanlega hver og einn hærri fjárhæðir en tekjulágir og í fyrra skulduðu 28.060 fjölskyldur samtals 125,4 milljarða króna umfram eignir, um 4,5 milljónir króna að meðaltali á fjölskyldu.
Einnig er líklegt að hlutfallslega fleiri tekjuháir en tekjulágir fái dagpeninga en í fyrra fengu 26.577 manns hér 7,8 milljarða króna frádrátt frá skatti vegna dagpeninga, um 24.500 krónur á mann á mánuði.
Fjöldi fólks greiðir kostnað við uppeldi barna sinna, sem ekki eiga lögheimili hjá þeim, og fá þar af leiðandi engar barnabætur eða húsaleigubætur með börnunum.
Kostnaður við að ala upp eitt barn í átján ár er mun meiri en sem nemur barnabótunum. Ef enginn eignaðist hér börn og enginn flyttist til landsins myndi íslenska ríkið lognast út af og enginn yrði hér skattgreiðandinn.
Því er það engan veginn byrði fyrir íslenska ríkið að fólk eignist hér börn og því sjálfsagt og eðlilegt að ríkið greiði barnabætur. Það er fjárfesting sem skilar miklum arði.
Tekjuháir Íslendingar kosta íslenska ríkið hver og einn meiri gjaldeyri en tekjulágt fólk, því tekjuhátt fólk kaupir til dæmis dýrari bíla, sem eyða í flestum tilfellum meira bensíni en bílarnir sem tekjulágir kaupa. Tekjuháir fara einnig í fleiri skemmtiferðir til útlanda en tekjulágir.
Og enda þótt íslenska ríkið fái virðisaukaskatt af erlendum bílum og vörum, sem seldar eru hérlendis, vegur sá skattur einungis að hluta til upp á móti gjaldeyriskaupunum.
Ekkert fyrirtæki, hvorki framleiðslufyrirtæki né þjónustufyrirtæki, kemst af án ræstingafólks og því kemst íslenska ríkið ekki heldur af án þess. Ræstingafólk hér fær hins vegar mjög lág laun og því er engan veginn óeðlilegt að það fái bætur frá ríkinu.
Þúsundir tekjulágra, sem búa og starfa hérlendis, skapa hér miklar gjaldeyristekjur, til að mynda fiskvinnslufólk, sem að stórum hluta er útlendingar, flestir Pólverjar. Og í ár eru fluttar út sjávarafurðir fyrir um 200 milljarða króna, eða 20 milljónir króna á hvern mann, sem hér starfar við sjómennsku og fiskvinnslu.
Allir ellilífeyrisþegar hafa lagt sitt af mörkum til ríkisins með skattgreiðslum og barnauppeldi. Ellilífeyrisþegar og atvinnulaust fólk greiðir og hefur greitt tekjuskatt.
Öryrkjar greiða einnig skatt af sínum örorkubótum og langflestir þeirra hafa greitt skatt af atvinnutekjum, jafnvel áratugum saman, áður en þeir fá örorkubætur frá ríkinu og lífeyrissjóðum sem þeir hafa greitt iðgjöld til.
Að öllu samanlögðu er því langlíklegast að fólk með háar tekjur fái hærri bætur og meiri skattfrádrátt en þeir sem eru með lágar tekjur.
Einnig verður að líta hér á framlag hvers og eins til ríkisins og hvað viðkomandi kostar ríkið, til dæmis í erlendum gjaldeyri.
Álagning einstaklinga 2009
Þorsteinn Briem, 22.12.2009 kl. 10:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.