22.12.2009 | 00:34
Þrír bílar í 5-6 stæðum.
Ég hef áður birt myndir af því hvernig Íslendingar leggja margir hverjir bílum sínum í stæði. Ætlaði að láta það nægja. En í dag blasti við táknmynd hugsunarháttarins sem lá að baki hruninu þegar ég var á ferð í Kópavogi, nánar tiltekið við hús útbús Landsbankans þar.
Þarna var mikil umferð og slegist um bílastæðin.
En á sama tíma, um og eftir klukkan fjögur, mátti sjá hvernig þrír bílastjórar ákváðu að hver um sig ætti rétt á tveimur bílastæðum fyrir einn bíl. Alls voru 2-3 stæði ónothæf vegna þessa meðan þessir bílar stóðu þarna.
Á efstu myndunum sést vel að hvíti bíllinn stendur þannig að línan, sem afmarkar bílastæðin, liggur undir miðjum bílnum.
Þótt bílarnir sitt hvorum megin leggi yfir línur stæða sinna hefði verið hægt að bakka hvíta bílnum inn í stæðið þétt upp við hliðina á gráa bílnum til vinstri, vegna þess að bílstjóri þess bíls kemst eftir sem áður greiðlega inn í bílstjórasæti hans.
Hins vegar er ótrúlegt að sjá hve fólk er oft ófært um að framkvæma jafn einfaldan hlut og að aka bíl afturábak.
Segjum sem svo að bílarnir sitt hvorum megin við þann hvíta hafi komið á eftir þeim hvíta og þess vegna hyllst tll að svindla svolítið á stæðum sínum, er ekkert hugsað um það að sá hvíti gæti farið og þeim bílstjórum gert erfiðara fyrir sem koma í staðinn fyrir hann.
Ég ek um á ódýrasta og minnsta bílnum í umferðinni og venjulega get ég smokrað honum inn í stæði, þótt annar bíll skagi vel inn í það.
Í þetta skipti var þetta ekki hægt, svo kyrfilega kom hvíti bíllinn í veg fyrir það.
Komið hefur fyrir að ég verði að gera þetta þannig að bílstjórinn á bílnum, sem stendur inn í mitt stæði, kemst ekki inn í hann nema hægra megin.
Ég haga því þá þannig að ég geti fylgst með bílnum og brugðið við ef bílstjórinn kemur.
Hafa þeir sumir orðið öskureiðir við þetta þótt minn bíll standi innan marka stæðisins en þeirra bíll ekki.
Ég hef þá boðist til að færa minn bíl hið snarasta en það hefur ekki sefað þá. Einn hótaði að kalla til lögreglu og ég bað hann blessaðan um að gera það. Þá sljákkaði í honum en jafnreiður var hann fyrir mínútu töf.
Í annað siinn lagði ég þétt upp að hægri hlið bílsins, sem stóð langt inn í mitt stæði, en bíljstórinn varð samt bálreiður vegna þess að hann sagði að ég ætti ekkert með að meina konu hans að komast hægra megin inn í bíl þeirra.
Ég benti honum á að það væri bakgír á bílnum hans og hann þyrfti aðeins að bakka þrjá metra til að konan kæmist inn og hún að ganga þremur metrum lengra en ella. .
Við þetta varð hann enn reiðari og sefaðist lítt þótt ég snaraðist upp í minn bíl og færði hann um þessa metra.
Í raun eru þessar uppákomur þrælfyndnar en þó íhugunarverðar.
Eða getið þið skilið hvers vegna bílstjórinn á bílnum á neðstu myndinni þarf að leggja bílnum á ská inn í stæðið og skaga inn í mitt stæðið við hliðina svo að þar er aðeins eftir lítið horn, sem einungis minnstu bílar geta troðið sér inn í?
Þótt þetta sé Lexus, þarf hann allt þetta pláss?
Athugasemdir
Við Smártorg eru stæði að utaverðu við miðútganginn þar er upphækkað gult og allt það og meira sega bráðamótaka heilsugæslunnar. Ég lagði eins og verjulega 25metra frá inganginum og kom labbandi með frúnna á þessari forboðnu göngubrú. Þá kemur ung kona með barn á útopnu skellir sér í allt sem mögulega var bannað og læsti bílnum. Ég spurði hvort hún hafi aldrei séð gult merki á kantsteini áður og upp kom svar sem börn eiga ekki að heyra. Þarna er verið að kenna barninu að ekki virða reglur og að rífa kjaft við ókunnuga!
Wolfang
Eyjólfur Jónsson, 22.12.2009 kl. 01:00
Þetta byrjar oft með því að einn leggur vitlaust og síðan koma fleiri á eftir en mér sýnist á þessum myndum að þetta séu nú ansi þröng stæði.
Jóhann (IP-tala skráð) 22.12.2009 kl. 05:20
Ég ætla að mæla þetta í dag og birta tölurnar. Þetta er nóg rými, jafnvel fyrir stóra bíla, ef menn hugsa eitthvað um það sem þeir eru að gera.
Þeir ættu að sjá hvernig Frakkar leggja bílum sínum við Hauptmann-breiðgötuna í París þar sem hver sentimetri er nýttur.
Þeir sem snatta um borgina einir á bílum, sem eru á sjöunda metra á lengd og meira en tveir metrar á breidd eiga ekki að láta það bitna á öðrum á þann hátt sem maður sér út um allt.
Það er lágmarkskrafa að þeir kunni að aka þessum bílum.
Ómar Ragnarsson, 22.12.2009 kl. 08:14
Þetta eru ljótu hálfvitarnir!
Þorsteinn Briem, 22.12.2009 kl. 14:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.