23.12.2009 | 10:10
Betra að það sé snjór. Einfalt mál.
Af hverju er snjórinn svona mikið atriði í jólasöngvum? Af hverju er honum hampað svona mikið um jólin?
Af hverju heitir fyrsta jólalagið sem varð að verulegum heimssmellli "Hvít jól", "White christmas"?
Er það eitthvert sérstakt keppikefli að hafa hálku og jafnvel ófærð og hríð um jólin?
Ég áttaði mig ekki til fulls á þessu fyrr en í fyrradag þegar ég heyrði um umræðuefnið í símtali konu minnar og tvíburasystur hennar, sem á heima í Bolungarvík.
Systirin fyrir vestan sagði að myrkrið væri svo miklu meira þegar jörð væri auð.
Já, auðvitað ! Einfalt mál. Á svona norðlægri breiddargráðu skreiðist sólin ekki uppfyrir sjóndeildarhringinn nema rétt í 2-3 klukkustundir og það munar mikið þá birtu sem snjórinn gefur, einkum ef það er stillt veður og tunglskinsbjart.
Þess vegna er full ástæða tila að taka undir þegar sungið er: "Meiri snjó! Meiri snjó! Meiri snjó!"
Stormi spáð á Vestfjörðum á aðfangadag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svo á ekki að gleyma því að gróðurinn er betra varinn undir snjóhulu en á bera jörð. Ég tek undir að óska mér snjó og ekki bara um jólin heldur helst allan veturinn. Gleðileg jól.
Úrsúla Jünemann, 23.12.2009 kl. 10:20
Hjálmar Gíslason varð 91 í gær
gisli (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 11:14
Ég er afar sáttur við snjóleysið og sakna bleytu og slabbs, sem er afar þreytandi fylgifiskur snjóa, engan vegin....svo sparast svo miklir peningar á þessu, Gleðileg rauð jól
SeeingRed, 23.12.2009 kl. 11:20
Já, þetta er svona hér í Reykjavík en í Bolungarvík er myrkrið meira og minni saltaustur og tjöruúði vegna nagladekkja ásamt svifryki þegar þurrt er.
Ómar Ragnarsson, 23.12.2009 kl. 13:08
Aldrei man ég eftir rauðum jólum norður á Húsavík þegar ég var þar barn og unglingur.
En hefðum við ekki haft snjóskafl við gamla Múla, hefðum ekki fengið besta rjómaísinn sem hugsast getur, sem mamma gerði. Við áttum engan ísskap, en kunnum ráð við því.
Við keyptum nokkur kíló af þessa ekta grófa salti og hrærðum það saman við snjó og stungum síðan málmílátinu með hráefninu í hræruna. Þegar svo komið var að eftirmatnum á jólanótt, sóttum við ílátið með ísnum, stokkfrosnum. Ekki man ég eftir því hver gaf okkur þetta góða ráð, en með réttu hlutfalli á salti og snjó, má ná mínus 21 gráðu frosti í hrærunni.Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 13:38
Rétt hjá þér. Ég bý á svæði þar sem snjó birjar að festa upp úr miðjum desember og jörð svo yfirleitt hvít fram í mars. Þó það séu hörkufrost á stundum, kemur jörðin oftast græn unda snjónum og allt frost sem komst í hana á haustin horfið, sólin virðist hita jörðina í gegnum snjóinn um leið og snjórinn einangrar. Svo má ekki gleyma að skepnunum líður betur í snjónum, drullan sem drepur. Pabbi vann hjá hernum á stríðárunum og sagði alltaf að Kaninn kynni að klæða af sér kuldann sem er rétt. Leyndamálið að eiga hlítt á lappirnar, þá verður manni aldrei kalt.
Ingimundur Kjarval, 23.12.2009 kl. 14:30
Sauðnautin sem voru flutt til Íslands á sínum tíma drápust í slydduhraglandanum hér á Fróni ,þoldu það ver en frostin á Heimaslóðum.Þoldu þurrvðri og brunagadd miklu betur en hraglanda og slagviðri á Íslandi.
Hörður Halldórsson, 23.12.2009 kl. 19:38
Sumum líkar vel við myrkur, kulda og snjó en öðrum ekki. Hingað koma nú hins vegar tugþúsundir erlendra ferðamanna til að dvelja hér í nokkra daga við þessar aðstæður. Einnig til að sjá norðurljósin og Japanir telja að barn getið undir norðurljósum verði mikillar gæfu aðnjótandi í lífinu.
Og mörgum finnst best að lesa góða bók við kertaljós og arineld á dimmum vetrarkvöldum.
Hér í Reykjavík hafa verið um helmingslíkur á alauðri jörð á jóladag frá árinu 1996.
Snjór á jóladag í Reykjavík frá árinu 1921
Þorsteinn Briem, 23.12.2009 kl. 20:46
"Og mörgum finnst best að lesa góða bók við kertaljós og arineld á dimmum vetrarkvöldum".
Steini Briem, vel til orða tekið. Takk fyrir og gleðilegt nýtt ár. HK
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 21:07
Gleðileg jól öll!
Þorsteinn Briem, 23.12.2009 kl. 21:54
Snjórinn gefur enga birtu svo sem. Þessi snjónostalgía er ekki séríslensk. Ég held að þetta sé arfur frá viktóríutímabilinu þegar oftar var meiri snjór en nú um jólin, líka á meginlandi Evrópu. Þetta held ég að hafi byrjað í myndum, kortum t.d. Það hefur svo styrkst með kvikmyndum. Þetta er bara einhvers konar rómantík. Það gefur augaleið að snjóleysi er þægilegra fyrir færð og öll ferðalög.
Snjóleysi um jólin voru ekki minni kringum 1930 og næstu ár en nú er á Íslandi. Fáir muna bara svo langt aftur.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.12.2009 kl. 01:19
Það er sem sagt ekki skýringin á snjóeftirsókninni að snjórinn varpi birtu. Þetta er þekkt í öllum norðlægum löndum sem þó liggja miklu sunnar en hér, allir heimta snjó um jólin.Þetta er fremur menningartengt. Það er ekki bara vetrarmykrið sem fer í suma heldur líka kuldinn og allt það. Sumum finnst skammdegið miklu bærilegra þegar veður eru mild og auðvelt að komast ferða sinna.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.12.2009 kl. 01:23
Þetta er líkast til keðjuverkun.
Fyrst er það samhljómur snævarins við hátíð birtu og ljósa sem hafa áhrif á áhrifamikla listamenn í Norður-Evrópu og á austurströnd Bandaríkjannal sem skila þessum áhrifum í verkum sínum sem aftur hafa áhrif á fólk sem á heima sunnar.
Ómar Ragnarsson, 24.12.2009 kl. 12:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.