Gluggagægir, mesti jólasveinn sem ég hef þekkt.

Hjálmar Gíslason heitir maður og átti 91 árs afmæli fyrir nokkrum dögum.

Hjálmar er einn af þessum mönnum sem manni finnst að hafi alltaf verið til og verði það áfram.

Ég hef komist í kynni við marga jólasveina í gegnum tíðina en Hjálmar verður alltaf fremstur meðal jafningja í mínum huga.

Áður en jólasveinarnir fóru að skemmta við Austurvöll þegar kveikt er á Oslóarjólatrénu tíðkaðist það í nokkur ár að þrír jólasveinar kæmu fram fyrir mannfjölda á torginu, sem stóð á torginu, sem nú ber nafnið Ingólfstorg, en var þá kallað Hótel Íslands planið eða Hallærisplanið.

19641206Morgunbladid04JolasveinariVesturveri

Í síðastnefnda nafninu fólst glens um þá sem þar voru á ferli á rúntinu þar sem "konur voru í karlaleit og karlar í konuleit" eins og segir í lagi Stuðmanna.

Þeir jólasveinar sem þarna birtust börnum og fullorðnum hétu Gáttaþefur, Gluggagægir og Giljagaur.

Var Giljagaur þeirra stærstur eins og sjá má af mynd sem birtist í dagblaði 1964 og Jónas Ragnarsson, höfundur bókarinnar Jólaminningar sendi mér.

Við héldum margar æfingar fyrir þessar uppákomur, ég, Hjálmar og Tómas Grétar Ólason, sem lék á harmonikkuna.

Hjálmar var lipur hagyrðingur og saman gerðum við nokkra texta eins og Jólasveinn, taktu í húfuna á þér og Jólasveinarnir talast við.

En Hjálmar hafði annan óborganlegan eiginleika. Jafnskjótt og hann var komin í gervið vék hann til hliðar fyrir öðrum persónuleika, sem hét Gluggagægir.

Hann bókstaflega umbreyttist og hafði alger hamskipti. Hjálmar Gíslason fór heim til sín á meðan á þessu stóð en Gluggagægir fór hamförum í Vesturveri eins og búðirnar á neðstu tveimur hæðum Morgunblaðshallarinnar hétu.

Um þetta hef ég aðeins þau orð sem eru yfirskrift þessa pistils: Gluggagægir er mesti og sannasti jólasveinn sem ég hef kynnst.

Að svo mæltu sendi ég öllum sem þessa pistla lesa eða hafa lesið mínar bestu jólaóskir og þó einkum hinum 91.árs gamla öldungi sem gladdi mig svo mjög í þá gömlu góðu daga svo og Giljagauri, alias Tómasi Grétari Ólasyni. Lifið heil !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ég var lítill púki, allavega minni púki  en ég er í dag, fór ég oft á Ingólfstorg að sjá Jólasveinana.

Gleðileg jól Ómar, og takk fyrir alla pistlana þína.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 14:12

2 identicon

Gleðileg jól Ómar - og til Helgu einnig, alveg sérstaklega! Og njótið hátíðanna!

Ég man eftir jólasveini, sem kom og skemmti okkur krökkunum í Óháðasöfnuðinum. Hann var alveg einstakur; fjörugur og skemmtilegur. Það er sá jólasveinn sem er hinn eini sanni í mínum minni. Ég held þú þekkir hann betur en ég. Það var sko alvöru jólasveinn, skal ég segja þér! ;)

Hafið það gott, bæði tvö - og allur sá skari sem á eftir ykkur fylgir! ;)

Skorrdal (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband