"Aðeins örfáar Samfylkingarhræður".

Daginn eftir fyrstu mótmælin á Austurvelli mátti sjá hörðustu fylgismenn ríkisstjórnarinnar halda því enn fram á vefmiðlum að aðeins 600 hefðu verið þar en ekki 3500 eins og lögreglan giskaði á, og að þessir 600 hefðu verið stúdentar og "örfáar Samfylkingarhræður."

Í Búsáhaldabyltingunni var því haldið fram að alþingismenn Vinstri grænna smöluðu fólki skipulega til að fylla Austurvöll og stjórnuðu því beint úr þinghúsinu í gegnum farsíma.

Svo vildi til að í báðum tilfellum hef ég verið á vettvangi og séð með eigin augum að fólk af öllum stigum og úr öllum flokkum hefur myndað þessa hópa.

Í nýjustu skoðanakönnunum er hins vegar erfitt að tala um örfáar Samfylkingarhræður og er nýjasta útspilið að kenna fjölmiðlunum, einkum Ríkisútvarpinu, um afhroð stjórnarflokkanna í skoðanakönnunum, bæði afhorð þeirra sjálfra og einnig varðandi þá útkomu að tvöfalt fleiri vilji halda viðræðum við ESB á floti en vilja slíta þeim.  

 

 


mbl.is Fylgi stjórnarflokkanna undir 40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."

Ofangreint rússneskt máltæki kemur upp í hugann þegar verið er að fara yfir málið sem tengdar fréttir á mbl.is fjalla um.

Þegar netheimar urðu til mátti búast við því að margir, sem þar yrðu á ferli, yrðu eins og kýr, sem hleypt er út á vordegi og sletta ærlega úr klaufunum.

Samfélagsmiðlarnir fara nú í gegnum upphaf mótunarskeiðs sem vonandi leiðir af sér framfarir í samskiptum og miðlun á upplýsingum, mismunandi sjónarmiðum og skoðunum án þess að þessi vettvangur verði stórskemmdur af ruddalegu ofstopafólki sem virðist nærast á því að ausa auri og svívirðingum oft í skjóli nafnleyndar.


mbl.is „Ég skammast mín ofan í tær“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti fjaðrandi reiðhjólagaffallinn 1955.

Sumarið 1955 gerðist það í fyrsta sinn að settur var reiðhjólagaffall með höggdeyfum framan á reiðhjól hér á landi.

Eigandi hjólsins var ástríðufullur reiðhjólaíþróttamaður fyrir sjálfan sig en aðeins 14 ára gamall og foreldrum hans leist ekkert á það hvernig hann hjólaði í loftköstum á æsihraða niður brekkur á þeim holóttu malarvegum sem þá voru hér.

Töldu móðir og faðir hætta á að framgaffallinn gæti brotnað í þessum átökum.

Hjólaeigandinnn fór þá niður í Fálkann og bað menn þar á bæ að leita að því hvort framgaffall með höggdeyfum væri framleiddur erlendis.

Svo reyndist vera og þrátt fyrir gjaldeyrishöft, miklu strangari en eru núna, var þessi gaffall fluttur inn og settur á hjólið. Hygg ég að liðið hafi nokkrir áratugir þar til fjaðrandi framhjólagafflar voru voru næst á dagskrá hér á landi því að hjólinu var hent árið 1960.

Hjólagaffallinn bognaði og eyðilagðist í misheppnuðu áhættuatriði 1. apríl 1960 þegar stokkið var af hjólinu á fullri ferð niður túnið fyrir neðan M.R. en það misheppnaðist að láta hjólið fara kollhnís með því að síðasta snerting hjólreiðamannsins væri að kippa í stýrið á leið hans af hjólinu.

Það var þaulæft atriði en misheppnaðist samt í þetta eina sinn.

Hjólið brunaði mannlaust áfram og flaug fram af brún túnsins og stefndi beint aftan á konu sem sat á bekk sem þarna var á strætisvagnastöð, sem þá var þar fyrir neðan.

Eitt augnablik leit út fyrir stórslys, en þá beygði konan sig fram til að taka upp skjóðu sína í þann mund sem strætisvagn renndi þar að.

Framgaffallinn lenti því á sætisbakinu og kengbognaði án þess að snerta konuna. Stóð hún upp, hristi sig og leit forviða aftur fyrir sig þegar hún heyrði skellinn og skildi ekkert í þessu, - hvort þetta beyglaða reiðhjól hefði dottið af himnum ofan.  

Á þessum tíma var hjóleigandinn búinn að eignast örbíl nokkrum mánuðum fyrr, þannig að þetta atvik markaði endalok reiðhjólatímabilsins í lífi hans og upphaf bílastímabilsins.

Stökk hann þar með yfir skellinöðrutímabilið, sem Jón bróðir hans hafði nýlega innleitt í sitt líf.

Atvikið gerðist í stóru frímínútunum í blíðskaparveðri. Voru tugir nemenda vitni að því og eigandi hjólsins er skrásetjari atviksins.    


mbl.is Gafflarnir á leið í framleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vígdísarfregnir í stað veðurfregna ?

Varla líður nú sá dagur að Vígdís Hauksdóttir segi ekki eitthvað eða geri sem hlýtur að vera fréttnæmt, svo óvenjulegar eru þessar tiltektir hennar. Nú síðast er það stjórn Blaðamannafélagsins sem telur sig knúða til viðbragða við því að "fólk í valdastöðum reyni að beita áhrifum sínum til að vega að tilverugrundvelli fjölmiðla." 

Svo rammt kveður að þessu að það hefur verið nefnt, að það hljóti að vera einelti gegn Vígdísi hve mikið er sagt frá og rætt um það sem hún segir og gerir, og þá væntanlega ekki aðeins hér á landi, heldur líka á Möltu og annars staðar erlendis, þar sem fleyg ummæli hennar um Möltu og hungursneyð í Evrópu urðu umrædd.

Ég minnist þess frá haustinu 2008 þegar ég var staddur í Bandaríkjnum hvernig "við borgum ekki" ummæli Davíðs Oddssonar, voru strax á vörum margra Bandaríkjamanna sem dembdu yfir mann athugasemdum og spurningum.

Nú liggur fyrir að nokkurn veginn sama vindátt og veður hefur verið á Íslandi í meira en tvo mánuði og fer að verða spurning, hvort megi hætta veðurfregnum í bili í fjölmiðlum, en taka inn Vigdísarfregnir í staðinn, þar sem ný og ný fáheyrð ummæli fljúga allt að daglega og miklir stormar geysa í vatnsglösum.    

 

 


mbl.is Vigdís vó að tjáningarfrelsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipbrot Bandaríkjamanna í refsimálum.

"Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn." Á Vesturlöndum er þessi setning úr réttarfari í fornöld notuð sem dæmi um grimmilega stefnu í refsimálum, sem nær ekki þeim fælingarmætti sem stefnt er að.

Grátlegt er hvernig komið er refsimálum og afbrotatíðni í því ríki Vesturlanda sem telur sjálft sig vera brjóstvörn mannréttinda og frelsis.

Hvergi á Vesturlöndum falla fleiri fyrir skotvopnum, hvergi er glæpatíðnin meiri og hvergi eru fleiri í fangelsum.

Í því ríki, sem höfuðborgin fékk sitt land frá, eru menn líflátnir löglega reglulega í nafni laga og réttar og refsingar margfalt harðari í ríki frelsis og mannréttinda en í öðrum lýðræðisríkjum.

Ef þetta á að hafa fælingarmátt er augljóst er af glæpatíðninni og mannfórnunum og líkamstjóninu af hennar völdum, að refsistefnan hefur beðið augljóst skipbrot.

Mál Geirs Þórssonar er eitt af hundruðum þúsunda dæma um það.  


"Túrbínutrixið" í fullum gangi.

2007 voru hafnar framkvæmdir við álver í Helguvík með undirskrift samkomulags við þrjá aðila að minnst tólf, sem málið varðar, en þá eru ekki teknir með í reikninginn allir landeigendur og aðrir, sem málið mun varða beint og óbeint.

Þetta var sama aðferð og nota átti við að koma svonefndri Gljúfurversvirkjun á koppinn með því að kaupa svo stórar túrbínur í Laxárvirkjun að öllum aðilum, sem málið myndi snerta síðar, til dæmis landeigendum í Laxárdal, sem til stóð að sökkva, yrði stillt upp við vegg og lýst yfir ábyrgð á hendur þeim ef þeir ætluðu að mögla og eyðileggja þá fjármuni, sem búið væri að eyða í túrbínur og annan undirbúningskostnað.

Sigurður Gizurarson, snjall lögfræðingu andófsmanna, sneri þessu við í sínum málflutningi með þeim rökum, að með þessari siðlausu ákvörðun hefðu virkjanaforkólfarnir tekið áhættu, sem þeir ættu sjálfir að borga, ekki þeir sem siðleysið beindist gegn.

Uppi í erminni var eignarnám rétt eins og nú á að beita á Suðurnesjum.

Munurinn er sá, að 1970 þurfti dínamit til þess að stöðva hinar ofboðslegu náttúrufórnir, sem menn hefðu annars verið tilbúnir til að standa að.

Það er dapurlegt og sýnir, að okkur virðist ekki hafa miðað hænufet áfram á þeim 43 árum, sem liðin eru frá Laxárdeilunni, hvað varðar siðlausa framkomu gagnvart landi, þjóð og komandi kynslóðum í því sem Nóbelskáldið kallaði réttilega "hernaðinn gegn landinu" það merkisár 1970.

Túrbínutrixið virkaði í álversmálununum fyrir austan, þar sem fyrst var látið í veðri vaka að álverið yrði aðeins 120 þúsund tonn, en það síðan þrefaldað þegar búið var að stilla mönnum upp við vegg og valta yfir þá, og nú síðast virkaði það í Gálgahrauni þar sem blekkingum og ofríki var beitt til að þvinga fram vilja valdsins.  

Þeir sem keyra þessa stefnu áfram gera það sallarólegir vitandi það, að það þarf ekki annað til að valta yfir allt og alla en að sýna yfirburði valdsins í formi 60 lögreglumanna í skotheldum vestum með kylfur og handjárn sem loka umferð út í heilt bæjarfélag og beita stærsta skriðbeltatæki landsins gegn 25 persónum, - hreyfingarlausu og áhaldalausu fólki, sem fært er í fangelsi, en síðan eru níu teknir útúr og fá á sig ákæru með kröfu um að verða sett á sakaskrá og taka út refsingu.

13-15 þúsund manna mótmælaganga 2006 og 5 þúsund manna útifundur 1. maí 2013 hagga ekki við "hinum ósnertanlegu" frekar en að stökkva vatni á gæs.

Þvert á móti herða þeir hernaðinnn gegn landinu sem aldrei fyrr.

  


mbl.is Heimilt að taka jarðir eignarnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna brattara af stað en í Búsáhaldabyltingunni ?

Útifundahöld á tímum Búsáhaldabyltingarinnar byrjuðu ekki með neinum sérstökum látum haustið 2008. Fyrstu útifundirnir voru mun fámennari en síðar varð og aðeins haldnir vikulega, eftir hádegi á laugardagum þegar flestir eiga frí frá vinnu.

Það var ekki fyrr en komið var langt fram í janúar sem fundirnir stækkuðu og urðu tíðari í blálokin.

Þess vegna má það vekja furðu hve margir hafa komið þrjá daga í röð niður á Austurvöll og að fjölmennasti fundurinn skuli hafa verið á miðjum vinnutíma klukkan 15:00.

Einnig vekur athygli hve mikið af fundarfólkinu er fólk, sem hefur ekki sést á svona fundum áður og segist margt hvert aldrei hafa órað fyrir því að það ætti eftir að taka þátt í mótmælafundum. 

Ég efast um að nokkur hafi búist við þessu en hygg að skýringin sé sálfræðileg.

Eitt af því sem gerir fólk reitt er þegar því finnst undir niðri að það hafi verið haft að fíflum og verið niðurlægt. 

Reiðin beinist þá að þeim sem fíflaði það. 

En hvers vegna út af þessu og það svona stuttu eftir kosningar?

Ekki er hægt að finna neina skýringu skárri en þá að þessi svik á loforðum hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.

Fyrir kosningar hafði verið lofað með fagurgala gulli og grænum skógum og var leitun að öðrum eins loforðalista þar sem svo margt var talið mögulegt og orðið "ómöguleiki" hafði ekki verið fundið upp.

Þar bar hæst að 300 til 400 milljórðum frá "hrægömmum" og vogunarsjóðum áttu að falla þjóðinni í skaut og þar með yrði hægt að framkvæma "stærstu skuldaleiðréttingu í heimi" án þess að það myndi kosta nokkurn Íslending krónu. Því var harðlega andmælt að þessi himnasending myndi á nokkurn hátt felast í því að færa til peninga, frá ríkinu á endanum.

Verðtrygginguna, sem kennt var um háa greiðslubyrði fólks átti að afnema hið snarasta.

Gjaldeyrishöftin áttu að afnema og koma á stöðugleika á sama tíma.

Fleira mætti nefna, sem nú er búið að finna fínt nýyrði yfir sem er orðið "ómöguleiki".

Svo er að sjá sem að þegar það orð er notað nú um loforð sem talin var vel mögulegt að framkvæma fyrir kosningar að mörgum finnist mælirinn fullur og að um þetta gildi það sem hefur verið sagt að það sé hægt að fífla suma stundum en ekki hægt að fífla alla alltaf.

   


mbl.is Kallaði ráðherra „helvítis dóna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsýnið metið á hundruð milljóna, - eða 0 krónur eftir aðstæðum.

Þegar um íbúðir í íbúðaturnum er að ræða er útsýni metið á tugi milljóna í hverri íbúð og þar með á milljarða alls í hverjum einstökum turni. "Þetta er Ísland í dag" eins og Jón Ársæll myndi orða það.  

Útsýnið felst í því að sjá vel yfir borgina líkt og gerist í mörgum öðrum háhýsum. Sé íbúðin hins vegar lítil, fábreytt og ódýr smíð, eru hins vegar dæmi um að útsýni hafi verið lítils eða jafnvel einskis metið.

Á árunum 1957-61 var ég félagi í byggingarsamvinnufélagi sem reisti háhýsið að Austurbrún 2. Flestir félagsmenn áttu lítinn pening og unnu á kvöldin og um helgar við byggingu hússins og tókst að eignast íbúð í því með vinnu sinni og vegna þess að þetta var langódýrasta hús landsins á hvern fermetra.

Ég vann við járnabindingar og kynntist því vel gerð hússins.  

 Í því voru eingöngu afar einfaldar 44 fermetra íbúðir, allar eins, nema að helmingur íbúðanna var "spegilmynd" hins helmings þeirra. Hönnun hússins var tær snilld, svo einföld, að ég gæti teiknað það á blað eftir minni enn þann dag í dag.

Dregið var um íbúðir 14. mars 1960 og ég dró íbúð á fimmtu hæð, en gat skipt á sléttu við mann sem dró íbúð á 12. hæð, sem var með útsýni yfir nær alla borgina eins og hún var þá. Í þessum skiptum var útsýnið ekki metið á krónu. Hjalladalur.Stapar

Ég hef stundum velt því fyrir mér, af hverju þetta var svona og hallast helst að því, að vegna þess að fyrir neðan blokkina var fínasta og dýrasta hverfið þá í borginni, sem fékk heitið "Snobhill", hafi útsýni úr svona aumingjalegum smáíbúðum lágt setts fólks ekki þótt neins virði ,iðað við útsýnið úr dýrustu og flottustu húsum landsins sem þó var lakara.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var reist lá fyrir, að erlendis var byrjað að nota svonefnt "skilyrt verðmætamat" til að reyna að fá sem réttastan verðmiða á virkjanaframkvæmdir. Hjallad. Rauðaflúð

Við Helga fórum í sérstaka ferð til Sauda í Noregi þar sem slíku verðmætamati hefur verið beitt og töluðum við norskan prófessor, Staale Navrud, sem var sérfróður um þetta.

Í úrskurði umhverfisráðherra var því hins vegar hafnað að setja slíkan verðmiða á landið, sem fórnað var. Það var talið 0 krónu virði.

Þó var þar á ótal stöðum útsýni yfir einstæð náttúruverðmæti, sem hvergi var að sjá annars staðar í heiminum og ferðamenn hefðu getað dáðst að þeim, ef svæðið hefði verið sett á Heimsminjaskrá UNESCO og nýtt í samræmið við það.  Hjalladalur. Stuðlaberg

Ef eða þegar heimildamyndin "Örkin" verður sýnd mun hún sýna allmarga slíka útsýnisstaði, sem sumir lukust ekki upp fyrir mér fyrr en verið var að sökkva landinu í aur. (Lónið á eftir að fylllast upp af auri)

Á meðfyldjandi myndum má sjá svæði við svonefnda Stapa, sem voru fyrir innan Kárahnjúka.

Það var ekki fyrr en tveimur vikum fyrir upphafi drekkingar sem mér vitnaðist, að gljúfrið, sem áin rann þar í, hafði hún grafið á innan við öld og var í óða önn fyrir framan nefið á manni að búa til dýpra gljúfur, sem hefði orðið með eldrauðum gljúfurveggjum innst, hefði hún fengið að halda áfram snilldarverki sínu, sem hvað hraða og sköpunarkraft átti sér engan líka í veröldinni. Hjallad. Stapar

Á ekkert af þessu var minnst í mati á umhverfisáhrifum.

Ástæða þessara dæmalausu afkasta var sú, að Jökla var aurugasta vatnsfall veraldar.

Með tíu milljón tonnum af sverfandi auri á hverju sumri gat hún grafið mestan hluta Dimmugljúfra, dýpstu og mestu gljúfra landsins, á aðeins 700 árum.

Og búið til efni í sethjallamyndun í öllum dalnum, sem líka var einstæð en hefur nú verið sökkt.

Þessi fyrirbæri og mörg önnur voru metin á 0 krónur og einnig það útsýni, sem hægt var að hafa yfir þau. 

Þess má geta, að Stapasvæðið, sem þessar myndir eru frá, lá fyrir neðan 15 kílómetra langa "Fljótshlíð íslenska hálendisins", Hálsinn, sem Hálslón er kennt við, gróinni tveggja til fjögurra metra þykkum jarðvegi, og að alls 40 ferkílómetrum af grónu landi var sökkt í aur vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Það er mesta eyðing gróðurlendis í einni framkvæmd í sögu landsins. Næstum svo mikið af gróðurlendi fór undir Blöndulón og í fyrirhugaðri Hrafnabjargavirkjun verður svipað uppi á teningnum. Gagnstætt því sem hamrað er á og fólki talin trú um, er verið að sökkva gróðurvinjum í langflestum tilfellum en ekki sandi og urð, eins og talað er í síbylju um.

Hjalladalur. Stapar

Öll eiga fyrirbærin, sem fórnað er, það sammerkt að hafa ekki verið metin á svo mikið sem eina krónu.

En ein "penthouse"-íbúð á höfuðborgarsvæðinu getur verið virt á hálfan milljarð.

Íhugunarefni, - já og sorgarefni.       


mbl.is Fáránlega flott „penthouse“-íbúð í 108
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórt hlutverk í fjölmiðlun.

Hlutverk skopteiknara í fjölmiðlun getur verið meira og magnaðra en mörg orð, jafnvel þúsund orð eins og svo vitnað sé í frægt spakmæli.

Fyrsti íslenski teiknarinn sem teiknaði eitthvað af ráði minnir mig að hafi heitið Tryggvi Magnússon og átti blómaskeið sitt fyrir stríð.

Rétt fyrir stríðið kom hingað til lands tékkneskur skopteiknari að nafni Stefan Strobl og hafði áreiðanlega mikil áhrif, því að teikningar hans af þekktum Íslendingum vöktu mikla athygli.

En þá kom til sögunnar Halldór Pétursson sem átti sviðið næstu tvo áratugina og var aldeilis magnaður oft á tíðum. Ég minnist sérstaklega einnar ógleymanlegrar skopteikningar hans af Ólafi Thors og Gylfa Þ. Gíslasyni sem var mjög umdeild enda djörf í meira lagi og farið út á ystu nöf.

Halldór bar uppi skopblaðið Spegilinn sem er það skopblað sögu íslenskra blaða  sem lengst var gefið út og náði útbreiðslu og lífi að einhverju marki.

Þegar ég var í M.R. voru tveir slyngir skopteiknarar jafnaldrar mínir, þeir Kristján Thorlacius og Gunnar Eyþórsson, aldeils stórsnjallir teiknarar eins og Fauna 1960 ber með sér.

Ég sat við hliðina á Gunnari æskuvini mínum í busabekk, en þann vetur teiknaði hann kennarana aftur og aftur tíma eftir tíma af ástríðu þess, sem sækist eftir fullkomun. Þetta var upphaf á skopteikningaferli hans.

Og svo sannarlega náði hann nálægt fullkomnun oft á tíðum. Sem dæmi má nefna að þegar Fauna '60 var teiknuð, var hann beðinn um að skrumskæla ekki einn kennarann, sem var ákaflega viðkvæmur maður, svo viðkvæmur að það kom fyrir að hann felldi tár.

Gunnar lofaði að teikna hann sem næst því að það líktist ljósmynd af honum.

Hann stóð við þetta, en hafði svipinn á honum samt þannig, að það skein út úr alvöru andlitsins að hann væri við það að bresta í grát.

Myndin var svo góð, að allir sem sáu hana og þekktu til, skelltu upp úr, en þegar kennarinn sá hana sjálfur brast hann í grát !  

Þegar Sigmúnd kom til sögunnar 1964 var það á hárréttum tíma til þess að taka við af Halldóri Péturssyni og þegar teikningar hans urðu daglegar í Morgunblaðinu þýddi ekki lengur að reyna að gefa út sérstakt skopblað.

Frá 2008 hafa góðir teiknarar átt fína spretti í blöðunum og einstaka skopmyndir hafa verið hrein snilld.

Sem betur fer kemur oftast maður í manns stað og það er afar mikilvægt hvað snertir gerð góðra skopteikninga í blöðunum.  


mbl.is Fimmtíu ár frá fyrstu mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algild lögmál frá vöggu til grafar.

Sum fyrirbrigði í lífinu lúta lögmálum, sem koma strax við sögunnar í barnæsku, jafnvel á fyrstu mánuðum lífsins. Sem dæmi má nefna grunnatriði þess hvað vekur hlægilegt og er fyndið. Það er að atriðiðið sem um ræðir feli í sér eitthvað óvænt.

Brandari, sem fyrirsjáanlegt er hvernig endar, er ónýtur.

Þekkt er fyrirbæri hjá ungabörnum varðandi viðbrögð við því að gera eitthvað sem kemur á óvart, hrópa: "Dahh!"  eða vera með snöggt afkáralegt látbragð. Barnið skellir upp úr, en ef of langt er gengið, getur það líka farið að gráta.

Ég minnist þess þegar ég var barn, hve oft ég bað föður minn um að segja stuttar skemmtisögur eins og söguna um Sigurði skólameistara á Akureyri og "axlabönd handa Óla."

Okkur finnst þetta barnalegt, en samt er það svo að stundum er endurtekningin atriði sem er ómissandi.

Í þáttunum um Colombo var fyrirfram vitað að nokkrum sinnum í hverjum þætti kom hann til baka til krimmans eftir að hafa nýgengið út úr dyrunum og krimminn átti ekki von á afturkomu hans svona strax eftir útgönguna.

En alltaf vildi maður sjá þetta gerast og eftir á að hyggja hefði maður orðið fyrir vonbrigðum ef þetta vörumerki þáttanna hefði vantað.

Kvennafar James Bond í hverri mynd og atriði tengd því voru og eru vörumerki þeirra mynda, sem ekki má vanta, því að þá er sú mynd ónýt.

Atriðin í myndaröðinni um Bleika pardusinn með samskiptum lögregluforingjans Clouseaos og Catos eða samskiptum hans og Dreyfusar voru fastur liður og nauðalík en án þeirra hefðu þessi vörumerki myndanna dregið stórlega úr gildi þeirra.

Strax í barnæsku þráum við að heyra sögur og sú þörf okkar endist út ævina. Að heyra eða sjá sögur er grundvallaratriði í lífi okkar sem við getum ekki verið án. Hugtakið "saga" fellur aldrei úr gildi.

Þegar maður kemur í strákofaþorp í afskekktu fjallaþorpi í Afríku, tekur kvikmyndir og sýnir börnunum, skemmta þau sér svo yndilega innilega og hlæja og skríkja þótt þau búi við ömurleg kjör og séu svöng og búi við ömurlegar aðstæður. Gildi hins óvænta og nýstárlega fellur heldur aldrei úr gildi í mannlífinu.    


mbl.is „Er ís kaldur?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband