HRÆÐSLUÞJÓÐFÉLAGIÐ - EKKERT NÝTT.

Á óvart kemur að jafnreyndur blaðamaður og Agnes Bragadóttir skuli fyrst nú sjá merki um að hræðsluástand geti ríkt í þjóðfélagi okkar. Svo virðist sem það ástand sem hér ríkti og fór versnandi um og upp úr aldamótunum hafi farið að mestu fram hjá henni. Hún virðist ekki hafa tekið eftir því á sínum tíma hvernig aðeins tilhugsunin um tilvist og völd Davíðs Oddssonar gat gert menn óttaslegna.

Það sem olli mér áhyggjum þá var hve tiltölulega lítið þurfti á þessum árum til að gera fólk hrætt. Aðeins þurfti fáa en áhrifamikla opinbera atburði, svo sem bréfið til Sverris Hermannssonar, símtalið til umboðsmanns Alþingis, niðurlagning Þjóðhagsstofnunar og tiltalið til Skipulagsstofnunar. 

Eftir það þurfti ekki hótanir, - fólk sá um það sjálft að haga sér þannig að engin hætta væri á hugsanlegum eftirköstum.

Ég lýsti þessum ótta í viðtölum þegar árið 2003 með því að útskýra hvers vegna aðeins einn kunnáttumaður þorði að koma fram í viðtali í heimildarmyndinni "Á meðan land byggist".

Rétt er þó að taka fram að Guðmundur Sigvaldason jarðeðlisfræðingur hefði vafalaust komið óhræddur fram ef þess hefði verið kostur.

Allir nema Sveinn Runólfsson sögðu það sama: Þú mátt ekki taka við mig viðtal, ekki vitna í mig og helst að setja þekkingu þína þannig fram að ekki sé hægt að rekja hana til mín. Annars hætti ég á að verða smám saman kæfður fjárhagslega og faglega. 

Háskólamaður einn sagði við mig:

"Besti vinur minn nam sín fræði í Austur-Þýskalandi þar sem vísindamenn voru hægt og rólega teknir faglega og fjárhagslega af lífi ef þeir mökkuðu ekki rétt. Mismunurinn á Íslandi og Austur-Þýskalandi er einungis sá að þar í landi var þessum aðferðum beitt svo harkalega að smám saman varð það á vitorði alls heimsins. Hér er þetta miklu lymskulegar gert. Ég get ekki tekið neina áhættu á að missa smám saman þá styrki og þau verkefni sem ég á undir yfirvöldum og halda mér á floti. Þar með verð ég smám saman kæfður faglega og þar með fjárhagslega líka, svo mikils virði eru verkefnin langt og dýrt háskólanám getur fært mér.

Sama var uppi á teningnum þegar ég reyndi að fá vísindamenn hjá einkafyrirtækjum til að koma fram í myndinni. Þeir sögðust ekki geta afborið það að hætta á að fyrirtækin, sem þeir unnu hjá og áttu mestallt sitt undir því að fá verkefni fjármögnuð af ríkinu, misstu þessi verkefni og færu út í kuldann. 

"Ég get ekki afborið þá hugsun", sagði einn þeirra, "að missa vinnuna og horfa upp á bestu félaga mína og vini hjá fyrirtækinu ganga um atvinnulausa, - ég get ekki hætt á neitt. "

Á þessum árum nægði að vinir manna segðu þeim frá því að þeir hefðu frétt að ótiltekinn hópur manna myndi fara fram með ófrægingu og aðdróttanir og koma af stað gróusögum ef bátnum yrði ruggað. Þessir vinir sögðu sig vilja manni vel með svona aðvörunum. 

Slíkar viðvaranir dugðu vel á þessum árum.

Ég minntist á þetta lítillega í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár"í fyrra en greinilegt er að þetta ástand hefur farið það mikið fram hjá Agnesi Bragadóttur að hún hefur ekki talið það þess virði að taka það upp opinberlega á þeim tíma.

Rétt er að taka fram að þetta hræðsluástand hjaðnaði eftir brottför þeirra félaga Davíðs og Halldórs af vettvangi enda hafa arftakar þeirra yfir sér annað yfirbragð. 

En það er áhyggjuefni hve langt svona hræðsla, hugsanlega stórlega ýkt í huga hins óttaslegna, getur leitt fólk. Það leiðir hugann að orðum Roosevelts Bandaríkjaforseta um það að við ættum ekki að óttast neitt eins og óttann sjálfan.

Rétt er einnig að minnast kröfuna um fjórfrelsi sem Roosevelt setti fram 1941:

Tjáningarfrelsi. (Freedom of speech)

Trúfrelsi. (Freedom of worship)

Frelsi frá skorti. (Freedom from want) 

Frelsi frá ótta. (Freedom from fear)

Ef eitthvert af þessu fernu vantar er illt nærri. Þess ættum við að minnast þegar við óttumst afleiðingarnar af því að leita sannleikans og leiða hann í ljós.  


Bloggfærslur 12. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband