"Finnlandisering" Úkraínu?

Rússar höfðu ráðið yfir Finnlandi í meira en öld þegar þeir urðu að gefa Finnum frelsi í kjölfar ósigurs síns fyrir Þjóðverjum 1917. Rússar höfðu líka tekið þátt í að sundurlima Pólland seint á átjándu öld, og það land fékk ekki aftur sjálfstæði fyrr en eftir lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Bæði Finnum og Pólverjum var í nöp við Rússa og Rússar tortryggðu báðar þjóðirnar. Þeir lögðu hálft Pólland undir sig 1939 og gerðu landakröfur til Finna sem átti að tryggja það að þeir héldu Finnum vel frá sér vestan við Leningrad, fengju herstöð vestar í Finnaflóa og skæru aðgang Finna að Norður-Atlantshafi í burtu.

Finnar neituðu en Rússar fóru þá í vetrarstríð við þá sem reyndist báðum þjóðum dýrkeypt.

Þeir hernámu þó ekki landið en Finnar réðust síðan á Rússa í slagtogi við Þjóðverja sumarið 1941.

Eftir stríðið þurftu Finnar að greiða himinháar skaðabætur, vera í náninni hernaðarsamvinnu og vöruviðskiptum við Rússa og stunda utanríkisstefnu, sem var svo háð tilliti til Rússa, að til varð hugtakið "Finnlandisering". 

Hinn grimmi einvaldur og harðstjóri Stalín gat hins vegar verið býsna raunsær í utanríkisstefnu sinni þegar sá var gállinn á honum og lhann og eftirmenn hans eyfðu Finnum að viðhalda vestrænu lýðræði og samvinnu við Norðurlandarþjóðirnar ef tryggt var að hlutleysi þeirra væri á þann veg sem þeir sættu sig við.

Mikið slaknaði á þessu eftir lok Kalda stríðsins og má til dæmis merkilegt heita að finnski flugherinn haldi uppi loftrýmiseftirliti yfir Íslandi í samvinnu við NATO-þjóðir án afskipta Rússa.

Rússar hafa núna Hvíta-Rússland sem stuðpúða milli sín og NATO-ríkisins Póllands en mun aldrei sætta sig við að Úkraína gangi í NATÓ.

Í þeirra augum er það svipað því og Bandaríkjamenn hefðu litið á það ef Kanada hefði gengið í Varsjárbandalagið á sínum tíma.

Hugmyndir Rússa um að Úkraína verði hlutlaust ríki minna svolítið á Finnlandiseringuna á sínum tíma.

Í Finnlandi komust fasísk öfl og öfga hægrimenn aldrei til markverðra áhrifa eftir 1945, heldur voru finnsku ríkisstjórnirnar svipaðar öðrum ríkisstjórnum á Norðurlöndum, hófsamar lýðræðisstjórnir með félagslegu ívafi.

Rússar kunna að hugsa sér "Finnlandiseringu" Úkraínu á svipuðum nótum og mesta hættan, sem núna er uppi kann að vera sú að hörð og fasísk hægriöfl komist þar til valda.   


mbl.is Úkraína verði hlutlaust sambandsríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ikarus fórst, en andi hans lifir í "mannflugi".

Fræg er fornaldarsagan af Ikarusi, sem setti á sig vængi til að fljúga, en í sólarhitanum bráðnuðu þeir svo hann féll til jarðar og fórst.

Þessi saga hefur endurtekið sig allt frá því að fyrstu loftbelgirnir fóru að fljúga á seinni öldum og margir hafa farist, bæði í flugi á þeim og einnig varð mikið manntjón hjá fyrstu ofurhugunum sem voru brautryðjendur í nútíma svifflugi, vélflugi og fallhlífarstökki, og geimflugi.

Ein af nýjustu tegundum flugs má kalla steypisvifflug, eða "mannflug", þar sem menn líkja nær algerlega eftir flugi fugla eins og sjá má af þeim myndum, sem fylga frétt um tvöfalt banaslys í svona flugi í Sviss.

Ljóst er að mikla nákvæmni og aðgát þarf í þessu flugi, og ekki minnkar það áhættuna, að greinilega er mikil eftirsókn í það að ná sem allra glæfralegustum og mögnuðustum myndskeiðum þegar menn steypa sér niður þröng gil, rétt sleikja fram hjá hamraveggjum og flúga jafnvel í gegnum klettagöt með smámyndavélar á sér sem taka allt flugið upp, séð í allar áttir.

Síðan er það greinilega orðin listgrein að fljúga í "mynsturflugi" (formation) þar sem tveir eða fleiri fljúga nálægt hver öðrum.

Þegar við bætast varasamir sviptivindar eru menn farnir að nálgast Ikarus ansi mikið, nema að nú eru það vindar og nálægð við jörð eða samflugsmenn en ekki sólbráð, sem ógna.

Af lagi vængbúninganna má sjá að loftfræðilega svipar þessu flugi til flugs á hraðskreiðum orrustuþotum með "delta"vængjum, sem skrokkurinn og fæturnir mynda afturhelming lyftikraftsins og svonefndum "canard" vængjum sem handleggirnir mynda að framanverðu.

Í fljótu bragði sýnist mér að vænghleðslan sé ekki minni en á þeim flugvélum, þar sem hún er allra hæst, en það þýðir að hraði flugsins verður að vera mjög mikill, varla minni en 200-250 kílómetrar á klukkustund,  og hlutfallið á milli lyftikrafts og loftmótstöðu er greinilega mjög óhagstætt, en það hefur í för með sér afar bratt fall, vel yfir 50 til 60 gráður til þess að missa ekki allan lyftikraft.

Ljóst er að þeir færustu í þessari grein hafa náð ævintýralegri færni í stjórnun flugsins og að spennan og hraðinn eru óviðjafnanleg.

Enn verður að bíða og sjá, hverju fram vindur í þessu sporti áður en endanlegur dómur er felldur.

Fyrir 20 árum var talað um að banna "glæfraíþróttir" á skíðabrettum og einnig skíðafimi eða skíðafimleika vegna þess hve hættulegar þessar íþróttir væru.

Nú eru þetta einhverjar skemmtilegustu kepppnisgreinar á hverjum Vetrar-Ólympíuleikum og með réttum og markvissum þjálfunaraðferðum virðist vera hægt að minnka svo slysatíðnina að hún verði nógu lág.

Svipað gæti gerst með steypi-svifflugið eða "mannflugið", sem kannski er besta heitið, því að í engu flugi sýnist vera líkt jafn mikið eftir flugi fugla og þessu nýja og æsandi flugi.   

 

 


mbl.is Létust eftir misheppnað stökk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað sögðu ekki Norðmaðurinn og Svisslendingurinn hér um árið?

Eftir að snjóflóð féll í Seljalandsdal við Ísafjörð 1994 voru fengnir tveir erlendir sérfræðingar til að veita ráðgjöf, annar frá Noregi og hinn frá snjóflóðavarnastöðinni í Davos í Sviss.

Ég var fréttamaður Stöðvar 2 á þessum tíma og reyndi að fylgjast með, og man að ein setning Norðmannsins fól í sér aövörun: "Þar sem getur fallið þykkur snjór í hallandi landi getur fallið snjóflóð."

Þetta fannst mér útskýra hvers vegna snjóflóð féll í tiltölulega lágri brekku á Blönduósi 1993 og "kom mönnum að óvörum" eins og snjóflóðið, sem nú hefur fallið í Bláfjöllum.  

Ég hafði af því spurnir að svissneski sérfræðingurinn hefði aðvarað vegna þeirra byggða á Vestfjörðum þar sem hættulegar aðstæður væru, en verið sagt að hann hefði aðeins verið fenginn til að líta á snjóflóðið sem féll niður Seljalandsdal og niður í Tungudal, en ætti ekki að vera að skipta sér af öðru.

Mér tókst ekki að fá þetta staðfest hér heima, því miður, og hefði betur farið þá til Davos og fengið þetta staðfest hjá honum og flutt um það sjónvarpsfréttir.  

Menn uggðu ekki að sér, vegna þess að ekki voru sagnir um sérstaka mannskaða af völdum snjóflóða í gegnum aldirnar, hvorki á Blönduósi, Seljalandsdal, Súðavík eða Flateyri.  

Ég tók fréttauppistand á Urðarvegi á Ísafirði þar sem ég sýndi, hvernig annar fótur minn væri á skilgreindu snjóflóðahættusvæði en hinn ekki og fékk mjög bágt fyrir.

Fólk hringdi í mig og spurði sárt og reitt hvort ég væri ekki ánægður með að hafa eyðilagt ævistarf þess með svona fréttaflutningi, sem verðfelldi húsin þeirra, og áhrifamenn vestra reyndu að stöðva hann með því að þrýsta á fréttastjórann.

Það sem menn áttuðu sig ekki á þá og ekki heldur fyrir snjóflóðin í Neskaupstað 1972 var það, að ef snjóflóð hefðu fallið áður á þessum stöðum meðan ekki var þar byggð, þóttu þau auðvitað ekki sæta tíðindum þá.  Þess vegna "komu þau að óvörum."

Þó mátti sjá í jarðabók frá 18. öld að fé væri hætt við flóðum í fjörubeit í Súðavík og hefði það átt að hringja bjöllum.

Eftir snjóflóðið á Flateyri hitti ég þann, sem heitast hafði fordæmt fréttaflutning minn og þegar ég bað hann afsökunar á því að hafa valið ranga götu, Urðarveg, í stað þess að standa á Ólafstúni á Flateyri, varð fátt um svör hjá honum.

Ég fór síðan sérstaka ferð til Davos til að ræða við sérfræðinginn, sem hafði verið á Ísafirði 1994 og koma heim með fréttaskýrslu um verkefnið sem hlaut að bíða varðandi snjóflóðavarnir á Íslandi.

Sú ferð gerði mig enn daprari yfir því að hafa ekki farið þangað tveimur árum fyrr.  

Ekki fannst mér þó að hér heima væru skoðaðar nógu vel ýmis ódýrari ráð og einfaldari svissnesk ráð en hér hefur verið ráðist í.

Svissneski sérfræðingurinn sagði að miða þyrfti við langan tíma í hættumati og að eitt snjóflóð á 100 ára fresti ætti að vera nóg til að setja ekki niður byggð á því svæði án nægilegra varna.

Þegar menn verða hissa á snjóflóðum hér og þar, svo sem í Bláfjöllum, gleyma menn því að hafi snjóflóð fallið þar á árum áður, hafa þau ekki komist í fréttir af því að enginn var þar þá, á slóðum þar sem oft er krökkt af fólki nú.   

 


mbl.is Snjóflóðið kom að óvörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband