Snilldardagur hjá forfeðrunum.

Val forfeðra okkar á árstíðaskiptum  sumars og vetrar í almanakinu, þar sem þessar árstíðir skiptu árinu í tvennt, var hrein snilld miðað við þau gögn sem þeir höfðu í höndunum.

Þeir höfðu engar veðurfarslegar mælingar en voru komnir ótrúlega langt í stjörnufræði og tímatali að öðru leyti, vissu nokkurn veginn upp á dag hvenær væru vetrarsólhvörf og sumarsólstöður og jafndægri á vori og hausti.

En ótækt var að nota jafndægrin sem tímamörk, því að meðalhitinn við jafndægri á hausti er næstum 4 stig, þótt engar mælingar væru fyrir hendi á tíundu öld.

Það stafar af tregðulögmálinu, sem veldur því að lofthitinn fylgir ekki sólarhæðinni heldur er að jafnaði um einn mánuð á eftir. Hlýjustu dagar ársins að meðaltali eru í kringum 20. júlí, heilum mánuði á eftir lengsta og hæsta sólargangi.

Svipað er að segja um fyrsta sumardag og vetrardag, að meðalhitinn hjá báðum er svipaður, eða 3-4 stig, og báðir dagarnir eru mánuði síðar en jafndægur.

Ef einhver íslenskur hátíðisdagur á skilið að hafa forgang í stað þess að gert sé lítið úr honum, er það sumardagurinn fyrsti. Hann er ekki eini slíki hátíðisdagurinn sem vitað er um í heiminum, heldur er tímasetning hans afrek sem vert er að halda á lofti fyrir okkur sem þjóð og vera stolt af.  


mbl.is Eina þjóðin sem á þennan dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun.

Fyrir viku var það reifað hér á bloggsíðunni undir fyrirsögninni "þekkingar er þörf" að mikil áhætta myndi fylgja því fyrir Guðna Ágústsson ef hann færi í fyrsta sætið á lista Framsóknarmanna í Reykjavík og að mér óaði við þeirri áhættu, Guðna vegna.

Pisttillinn fjallaði um nauðsyn þess að fjölga borgarfulltrúum og fá inn í borgarstjórn fólk, ekki síst ungt fólk, sem hefði góða þekkingu á ýmsum sviðum borgarmálefna, svo sem á skipulagsmálum og umferðarmálum. Tvö nöfn voru nefnd í því sambandi um fólk, sem hefði ekki fengið brautargengi.

Nú er það svo að þekkingin ein á sérsviðum segir ekki allt. Fólk þarf einnig að hafa kjörþokka og samskiptahæfileika og þrátt fyrir að búið sé að koma vissu óorði á stjórnmál, þarf líka þekkingu, reynslu og lagni á því sviði.

Borgarstjórn með hæfilega blöndu af báðum kynjum, aldri, mismunandi reynslu og þekkingu, væri æskileg.

Hugsanlega hefði framboðslisti með reynslubolta í fyrsta sæti og unga og efnilega konu með góða þekkingu á mikilvægu sviði borgarmála reynst Framsóknarflokknum vel, - og raunar hvaða framboði sem er,- ef bæði hefðu komist að í fjölmennari borgarstjórn en nú er.

En eitt hefur gleymst í umræðunni: Í síðustu borgarstjórnarkosningum var brotið blað í Reykjavík, á Akureyri og víðar varðandi það að órói og upplausn í borgar- og bæjarmálefnum kjörtímabilið á undan að viðbættu þætti stjórnmálamanna í Hruninu skapaði vettvang fyrir alveg ný öfl að komst til áhrifa og vald.

Ég geri ráð fyrir að kannanir Framsóknarmanna á hljómgrunni meðal kjósenda fyrir uppstillingu lista með gamlan flokkshest í fyrsta sæti hafi leitt í ljós, að bylgjunnar, sem reis 2010 gæti enn.

Hins vegar hefur Guðna og Framsóknarmönnum tekist eitt með því að gera hugsanlegt framboð Guðna að einu helsta fréttaefni liðinnar viku: Þeir hafa, hvort sem sú auglýsing reynist vel eða ekki, tekist að starta kosningabaráttunni og vekja athygli á sínu fólki og málefnum þess.

Framsóknarmenn eiga enn eftir að spila úr stöðunni, sem komin er upp, og þótt þetta líti í augnablikinu klúðurslega út, nánast eins og örþrifaráð, eru enn meira en fimm vikur til kosninga og það er óralangur tími í pólitík.   


mbl.is Guðni gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birnirnir, Boeing B-52 og Boeing 747, ódrepandi jálkar.

Hún virkar gamalkunnug, myndin af Tupolev 95 sprengjuflugvélinni, sem fylgir frétt um flug slíkra véla rétt utan við lofthelgi Bretlands. Þessir jálkar eru búnir að vera eitt af táknum Kalda stríðsins síðan fyrir hálfri öld.

Allt fram yfir miðja síðustu öld urðu griðarlegar og hraðar framfarir í gerð sprengjuflugvéla. Á tímabili úreltust þær á nokkurra ára fresti.

Þannig héldu Þjóðverjar á árunum 1936-38 að Heinkel He-111, Dornier Do-17 og Junkers Ju-88 væri svo hraðfleygar að þær gætu flogið orrustuflugvélar af sér.

Annað kom í ljós í orrustunni um Bretland sumarið 1940 þegar Supermarine Spitfire lék sér að því að fljúga þýsku sprengjuflugvélarnar uppi og Hurricane skaut raunar niður fleiri vélar heldur en Spitfire skaut niður.

Nauðsynlegt varð fyrir Þjóðverja að senda orrustuflugvélar til að verja sprengjuflugvélar sínar og berjast við Spitfire og Hurricane.

Svipað gerðist, en bara með öfugum formerkjum með sprengjuflugvélar Bandamanna gagnvart orrustuflugvélum Þjóðverja, Messershmitt Me-109 og Focke-Wulf Fw 190.

Gagnstætt því sem margir héldu þegar Bandaríkjamenn sendu B-17 "fljúgandi virkin" í árásarferðir á Þýskaland, að árangurinn væri mikill, lét árangurinn á sér standa allt fram til haustsins 1943, þegar loksins var komin til skjalanna North American P-51 Mustang, fyrsta orrustuvélin sem galt fylgt sprengjuflugvélum alla leið til Berlínar.

Hermt er að Hermann Göring hafi fölnað þegar þessar snilldarflugvélar sáust í fyrsta sinn yfir Berlín og gert sér grein fyrir þeirri ógn sem tilvist þeirra táknaði.

Til eru þeir, sem telja að Mustanginn hafi verið besta orrustuflugvél allra tíma miðað við aðrar samtíðarvélar. Það voru til liprari samtíma orrustuvélar eins og Yak 3 og kraftmeiri flugvélar eins og Thunderbolt, en fjölhæfni P-51 var einstök hvað snerti það hve langfleyg hún var, jafnframt því að vera hraðfleyg og hve miklu minna hreyfilafl og eldsneyti hún þurfti en aðrar vélar, miðað við getu, en þetta gerði rekstur hennar afar hagkvæman.  

Þegar þotuöldin gekk í garð vaknaði gamalkunnur draumur um að hanna sprengjuþotur sem gætu flogið svo hátt og hratt að orrustuþotur gætu ekki ógnað þeim.

Bandaríkjamenn hönnuðu átta hreyfla þotuna B-52 og Sovétmenn Tupolev 95, "Björninn", sem var og er reyndar skrúfuþota en flýgur samt næstum því jafn hratt og B-52.

Þegar í ljós kom að bæði Rússar og Bandaríkjamenn áttu auðvelt með að smíða orrustuþotur, sem gætu haft við B-52 og Birninum var leitað að þeirri lausn að smíða enn stærri, öflugri, hraðfleygari og háfleygari sprengjuflugvélar og var Valkyrie þota Bandaríkjamanna á sjöunda áratugnum gott dæmi um slíka hljóðfráa stóra sprengjuþotu.

En í ljós kom að þessar "framtíðarsprengjuþotur" voru alltof dýra. Aftur og aftur var "kynslóðaskiptunum" frestað og smám saman kom upp úr dúrnum, að skást væri að halda endurbættum B-52 og Birninum gangandi áfram, en þróa frekar öflugar og hraðskreiðar orrustuþotur, sem fljótlega urðu hvort eð var blanda af smærri sprengjuþotum og orrustuþotum.

Þess vegna er gömlu jálkarnir enn í notkun 60 árum eftir að þær voru hannaðar og sést ekki enn fyrir endann á þjónustu þeirra. Ævinlega er kynslóðaskiptunum frestað.

Það er einnig athyglisvert að Boeing 747 breiðþotan, skuli enn vera samkeppnishæf í flokki stærstu farþegaþotnanna, nærri hálfri öld eftir að hún kom fyrst fram.

Hún var sannkallað risastökk fram á við þegar hún kom fram og undra vel heppnað risastökk þar að auki.    


mbl.is Höfðu afskipti af rússneskum herflugvélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband