Nei, hættið þið nú alveg !

Kona "léttist um 27 kíló án þess að fara í megrun" segir í frétt um það, hvernig kona nokkur ákvað að fara í megrun og gefur eftir á fjölbreytileg ráð, já heila uppskrift í sjö býsna flóknum liðum um það hvað eigi að gera skipulega til að ná svona árangri "án þess að fara í megrun."

Ég segir bara fyrir mig að ég verð alveg ruglaður við að sjá lesa þetta. Ég get ekki betur séð en að þetta sé eitt af ótal dæmum um það að fólk hafi gert það sem hingað til hefur verið lýst með orðunum "að fara í megrun"

Og meira að segja eftir nokkuð flókinni uppskrift.

Er hægt að létta sig án þess að megra sig?   

Hvað næst?  Að komast í gott úthald án þess að auka þolið ?


mbl.is Léttist um 27 kíló án þess að fara í megrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Japönsk útsjónarsemi: Coolcar.

Þetta er nýr bíll í umferðinni hér, að vísu aðeins til í nokkrum eintökum ennþá, en hver veit hvað í vændum er?  Er "Bitaboxið að koma aftur? Suzuki Coolcar

Já, Suzuki Coolcar heitir hann, í stærðarflokki með minnstu bílum flotans, mjórri og álíka langur og þungur og þeir en með margfalt meira rými og notkunarmöguleika.  

Ef orðtakið að sá eigi að borga sem notar væri notað í umferðinni væri hér á landi tekið lengdargjald af bílum í stíl við gjaldtöku Japana af bílum, sem miðuð er við stærð þeirra. Daihatsu Cuore 00

Síðan 1998 hafa svonefndir Kei-bílar þar í landi, sem eru styttri en 3,40m, mjórri en 1,48 og með minna sprengirými vélar en 660cc fengið myndarlegan afslátt af opinberum gjöldum.

Þetta hefur virkað vel í þrengslunum í umferðinni í Japan enda er fljótlegt að reikna út ávinninginn.

Meðallengd íslenskra fólksbíla er um 4,50 metrar en ef hún væri 4,00 metrar, sem er alveg nóg í langflestum tilfellum (Toyota Yaris, Volkswagen Golf, Skoda Fabia, Honda Jazz) myndi losna rými á hverjum degi á Miklubrautinni í Reykjavík sem samsvaraði 50 kílómetrum af auðu malbiki og umferðarteppur og tafir minnka og jafnvel hverfa á einstaka stað.

Kei-bílarnir voru minni fyrrum og dæmi um slíka bíla hér voru Daihatsu og Suzuki "bitaboxin" þegar kröfurnar voru: 3,20, 1,40 og vélin minni en 660 cc.

Til útlanda fluttu japanir þessa bíla og venjulega Kei-fólksbíla með 800cc og 843cc vélum. Daihatsu Cuore ´88

Þeir sem sátu í framsætunum í bitaboxunum voru alveg óvarðir fyrir árekstrum framan frá en þó minnist ég þess ekki að neitt banaslys hafi orðið í þeim hér á landi.

Frá 1980 hafa margir Kei-fólksbílar verið fluttir til landsins, svo sem Suzuki Alto og Daihatsu Cuore, Alto með 800cc vél og Cuore með 843cc vél. 

Ég nota enn Cuore 1988 módel sem er orðinn fornbíll en hefur aðeins verið ekið um 80 þúsund kílómetra. Súkka-Toyota

Líka voru fluttir inn Kei-jeppar og jepplingar, Suzuki Fox/Samurai/Jimny og Daihatsu Terios. Í alla þessa bíla settu Japanir 1300 cc vélar til útflutnings og hlóðu utan á Terios og Jimny plastí til þess að geta breikkað sporvídd þeirra.

Auk þess lengdu þeir gafl Terios um 40 sentimetra.

Í fyrra sá ég sérkennilega bíla fyrir utan Bílaryðvörn af gerðinni Suzuki Coolcar og í dag gat ég skoðað og kynnt mér lauslega einn slíkan.

Í grunninn er þetta Kei-bíll en með lengdum gafli og 1300 cc Jimny vél, en hann er smíðaður í Kína og sett á hann fjórhjóladrif í Þýskalandi. Suzuki Coolcar 1

Hann hefur algera sérstöðu meðal bíla í umferðinni hér.

Hann er ekki stærri að utanmáli en minnstu bílarnir á markaðnum hér, Volkswagen Up!/Skoda Citigo, Kia Picanto eða Hyondai i10, en rúmar samt vel sex manns í sæti í þremur sætaröðum auk þess að bjóða upp á um 300/450 líkra farangursrými fyrir aftan þriðju sætaröðina fjórhjóladrif og hærri veghæð !

Vél og driflína eru undir gólfi bílsins og taka því nákvæmlega ekkert af flatarmáli hans, ef undan er skilinn vatnskassi í nefinu og nokkur áfyllingarílát fyrir bílinn. Suzuki coolcar 2

Gagnstætt því sem var um Bitaboxin gömlu, er þessi fremsti hluti bílsins hugsaður sem árekstravörn.

Lega vélar og driflínu gefur lágan þyngdarpunkt, en þakið á bílnum er nokkuð hærra en þörf er á vegna farþeganna, af því að bíllinn er hugsaður sem bæði fólksbíll og sendibíll, og hann gæti því verið nokkuð næmur fyrir hvössum vindi.

Hið háa þak gæti hins vegar gefið möguleika á að gera bílinn að húsbíl, sem væri flestir vegir og slóðar færir vegna fjórhljóladrifsins og veghæðarinnar. Suzuki coolcar 3

Það er alveg nóg rými fyrir sex fullorðna í bílnum, en galli er hvað sætisseturnar aftur í eru flatar, þannig að það vantar stuðning undir lærin á farþegunum.

Við því ætti að vera hætt að bregðast með því að búa til einfalda sessu ofan á sætin, sem væru með það hárri frambrún að stuðningur fengist undir lærin.

Bíllinn er aðeins 980 kíló eða 120 kílóum léttari en Jimny og því talsvert sprækari og jafnframt sparneytnari.  

Þarna er á ferðinni japönsk útsjónarsemi af bestu gerð. Suzuki coolcar 4

Verðið á bílnum gæti legið á bilinu 3-3,5 milljónir, milli Jimny og Suzuki Swift 4x4.

En Suzuki Swift er varla samanburðarhæfur sem fjölhæfur aldrifsbíll vegna þess að hann er með minnstu veghæð allra aldrifsbíla, alveg óvenju lága að aftan.     

 


Frásagnargleðin í umferðinni.

Stefán Jón Hafstein var fréttaritari Ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum í nokkur ár. Þegar hann sneri aftur heim til Íslands varð honum starsýnt á hegðun landans í umferðinni og gat ekki orða bundist. 

Flutti hann meira að segja einn bráskemmtilegan pistil um stefnuljósanotkunina hjá okkur.

Mér varð hugsað til þessa pistils í dag þegar ég var á leiðinni í þungri umferð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og kom akandi eftir Reykjanesbraut framhjá Kaplakrika.

Þegar komið er að gatnamótunum við Reykjavíkurveg í Engidal fer umferðin til Reykjavíkur til hægri eftir tveimur samsíða beygjuaðreinum.

Ég var á hægri aðreininni en bílstjóri vinstra megin við mig gaf þá stefnuljós til hægri. Það var á engan hátt hægt að skilja þessa stefnuljósagjöf öðruvísi en þannig að af einhverjum ástæðum vildi hann færa sig yfir af vinstri aðrein yfir á hægri aðrein.

Ég hægði því ferðina aðeins til þess að búa til rými fyrir framan mig fyrir þennan ökumann með blikkandi stefnuljós til hægri.

En þrátt fyrir þetta færði hann sig ekki en hélt þó áfram að gefa stefnuljós til hægri.

Hik mannsins gat ég svo sem skilið út af fyrir sig, því að það er algengt í umferðinni hér á landi að menn eru orðnir svo varir um sig vefna óreiðunnar í umferðinni, að þeir þora ekki nýta sér tillitssemi annarra ökumanna og treysta engum.

Ég hægði því aðeins meira á sér svo að ökumanninum mætti vera ljóst að hann gæti treyst því að ég hleypti honum inn í auða bilið sem hafði myndast fyrir framan við.

En þá hófu bílstjórarnir fyrir aftan mig að flauta og gefa óánægju sína til kynna þannig að á endanum neyddist ég til að gefa í og tefja ekki umferðina meira fyrir aftan mig.

Svo var að sjá

Þar með var niðurstaða þessa sú að ég var orðinn skúrkurinn sem olli töfum í þungri umferð í stað þess að sýna þeim, sem voru fyrir aftan mig þá tillitssemi að halda uppi nógu góðum hraða til að umferðin afkastaði sem flestum bílum.

Í ljós kom að bílstjórinn sem gaf stefnuljósið var að gera það, sem Stefáni Jóni Hafstein fannst svo fyndið hér um árið, að gefa fyrst stefnuljós eftir að hann var kominn inn á beygju í aðrein, þar sem engin leið var lengur að gera neitt annað en að aka áfram þessa beygju.

Þetta nefndi Stefán Jón "hina heimsfrægu frásagnargleði Íslendinga sem skóp Íslendingasögurnar og aðrar stórkostlegar bókmennir."

Úr stefnuljósunum mátti lesa: "Ég verð að segja sem flestum frá þeim tímamótum á ferð minni í bíl mínum að vera kominn inn í þessa líka vel löguðu beygju! Sjáið þið hvað ég tek hana fallega!"   


Mat manna á kvikmyndinni og sögunni fer eftir hugarfari.

Það getur vafist fyrir fólki að útskýra afar misjafna stjörnugjöf fyrir kvikmyndina um Nóa og örkina hans.

En það má útskýra ólíkt mat á myndinni og sögunni með því að það skipti mestu máli með hvaða hugarfari horft er á myndina eða sagan lesin, svipað og gildir um þekktustu ævintýrin svo sem um Hans og Grétu, Rauðhettu, Öskubusku eða Þyrnirósu.

Ef litið er á þessi ævintýri með strangri og raunsærri hugsun, er hægt að afgreiða þau þannig, að þau séu öll hið argasta bull. Enda hefur skemmtilegt fólk eins og Auður Haralds tætt þau sundur í miskunnarlausu háði.

En ævintýrin verða hins vegar með allt öðrum blæ ef þau eru tekin sem táknrænar sögur sem geti vakið börn eða fólk til umhugsunar, glatt það og aukið skáldlega hæfileika og hugmyndaflug.

Ef áhorfandinn fer á myndina um Nóa með opnum hug barnsins og hugmyndafluginu er gefinn laus taumur getur hún orðið margra stjörnu virði, vakið margar krefjandi spurningar og vakið fólk til nauðsynlegrar umhugsunar um mikilsverðustu siðfræðilegu viðfangsefni nútímans.

Ef hins vegar er hnotið um sjálfa söguna í upphafi vegna órökréttra atriða hennar og farið með því hugarfari á bíósýningu, sem byggð er á þessari sögu á henni verður útkoman aðeins ein eða tvær stjörnur.

Tökum dæmi úr íslenskum þjóðsögum.

Tungustapi í Sælingsdal er strangt tekið brattur grasi vaxinn hóll með smá standbergi í miðjum dal og ekkert annað.

Kröfuharður maður um sannanir og staðreyndir fær nákvæmlega ekkert út úr því að horfa á hann.

Hann gefur Tungustapa og svæðinu i kringum hann enga stjörnu. Hann væri þess vegna alveg tilbúinn til þess að fá jarðýtu til þess að ryðja þessum einski verða hól í burtu.

En maðurinn er það sem hann hugsar og beisli hann huga sinn og hugsun, beisli hugmyndaflug sitt og skáldlega sýn og gefi sig á vald skáldskapar og lista, getur málið gerbreyst.

Slíkur maður les þjóðsöguna um álfakirkjuna í stapanum, fer á vettvang og upplifir í huganum það atriði sögunnar, að standa mitt á milli kirkna manna og álfa, þar sem kirkjudyrnar snúa hvor á móti annarri af því í kirkjum manna snúa dyrnar til vesturs en í kirkjum álfa til austurs.

Hann upplifir þann magnaða atburð þegar dyrnar opnast samtímis á báðum kirkjunum og presturinn, sem stendur fyrir altarinu á annarri þeirra, hnígur örendur niður við það að horfa í augu prestsins hinum megin.

Hann upplifir áhrifamikla dramatík og heyrir kannski í huganum sungið lagið Kirkjuhvol:

Hún amma mín það sagði mér um sólarlagsbil: /

"Á sunnudögum gakk þú ei Kirkjuhvols til. /

Þú mátt ei trufla aftansöng álfanna þar. / 

Þeir eiga kirkju´í hvolnum og barn er ég var  /

ég þóttist heyra samhljóminn klukknanna´á kvöldin."

 Og í framhaldi söngsins hljómar seinna erindið í þessu fallega og grípandi lagi þar sem barnabarn ömmunnar endar frásögn sína með því að segja fyrir sína hönd:

" Ég þóttist heyra samhljóminn klukknanna á kvöldin."      

Sá, sem hrífst, getur gefið sögunni, laginu og ljóðinu fimm stjörnur sem er jafngild einkunn og engin stjarna hjá hinum vantrúaða, sem krefst vísindalegra sannana fyrir hverju og einu, sem fyrir hann ber á ævinni og fer að reikna það út stærðfræðilega hvort Örkin hans Nóa hefði getað flotið með nógu mörg dýr og strandað að lokum uppi á fjallinu Ararat.

Sumir segja að sagan um Örkina eigi sér flugufót í flóðum í fornöld, þar sem fólk bjargaðist á skipum og bátum, þótt flóðið yrði ekki það mikið að það næði upp í fjöll.

Og þannig má lengi dvelja við rannsóknir fram og til baka á sögu sem er fyrst og fremst dæmisaga, táknræn saga eða mýta og sem slík fullgild í sjálfu sér.

Sem getur verið hluti af safaríkri og mikilsverðri menningu.


mbl.is Örkin gat flotið með öll dýr jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband