Sumt finnst og sumt finnst ekki.

Sumarið 1916 týndi Jónatan Líndal á Holtastöðum í Langadal, hreppsstjóri Engihlíðarhrepps, forláta vasaúri í hulstri uppi í fjallinu fyrir ofan bæinn.

Liðu nú 35 ár en þá gekk hann fyrir hreina tilviljun fram á úrið þar sem það lá í laut, að mig minnir.

Hann opnaði hulstrið og trekkti úrið upp og viti menn: Það gekk eins og ekkert hefði í skorist. Varð úr þessu blaðafrétt.  

1964 var ég á leið frá Akureyri til Reykjavíkur við fjórða mann á NSU-Prinz 4 í sérlega góðu sumarveðri, sól og hita. Þá var malarvegur alla leiðina.

Þegar komið var í Hrútafjörð fór að draga af krafti vélarinnar og var bíllinn stöðvaður við Þóroddsstaði til að gæta að ástæðunni.

Kom í ljós að svo mikið ryk hafði sogast inn í lofthreinsarann að hann hann var stíflaður, fylltur af þéttum köggli sem var blanda af mold, möl og oliu.

Þessir bílar voru með vélina að aftan og loftflæðið afar óheppilegt við svona aðstæður.

Olíuhreinsarinn var þannig, að loftið lék um liggjandi olíu svo að rykið festist í henni, en það var svo mikið að hreinsarinn fylltist og stíflaðist.

Ég mokaði út úr hreinsaranum, hellti olíu í staðinn í hann, en var þá orðinn svo skítugur á höndunum, að ég þvoði þær með bensínblönduðum tvisti á túninu við veginn og reyndi að nudda höndunum við hátt grasið sem þarna var.

Þegar ég kom inn í bílinn varð ég þess var að giftingarhringurinn minn hafði óvart runnið af fingri mínu, og gat ég ekki með nokkru móti fundið hann í þessu háa grasi. 

Ég átti ekki aftur leið þarna um fyrr en sumarið eftir, en þóttist muna nákvæmlega hvar hringurinn lægi og leitaði að honum, en árangurslaust.

Ég gerði það einu sinni enn á ferð þarna um, en sá að þetta var of vonlítið til að það gæti gengið upp. 

Enn í dag er það svo, að þegar ég á leið þarna framhjá verður mér hugsað til hringsins góða.

Nokkrum árum síðar týndi ég lykli af TF-FRÚ á bílferðalagi sjónvarpsmanna um norðanvert Snæfellsnes og áttaði mig á því eftir bílberðina að hann hefði dottið í gegnum gat á buxnavasa. 

Vini mínum á Gufuskálum tókst að tengja framhjá og við hófum flugferðina suður.

Þá mundi eftir því hvar ég hefði fyrst farið út úr bílnum í bílferðinni fyrr um daginn, en það var á veginum frá Hellissandi sem þá lá á ská upp í Ólfafsvikurenni, og datt þá í hug að sjá hvort það gæti glampað á hann í björtu sólskininu.

Það gekk upp, - þegar ég flaug yfir veginn sá ég glampa á hann og ég lenti flugvélinni rétt hjá og hljóp að staðnum. Þá komu þar aðvífandi ökumenn og spurðu með andköfum hvort ég hefði nauðlent.

"Nei" svaraði ég, "en ég týndi lykli á ferð hér um norðanvert nesið fyrr í dag og datt í hug að leita að honum úr lofti! Og sjáið þið bara, hér liggur hann!" sagði ég um leið og ég gekk að lyklinum og tók hann upp.

Ég gleymi seint undrunarsvipnum á fólkinu sem átti greinilega erfitt með að trúa þessu, þótt það væri dagsatt.  

En svona er þetta: Sumt finnst og sumt finnst ekki.


mbl.is Hringurinn fannst 6 árum seinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flug er ekki "hátækni"?

Svo virðist sem í fæðingarborg minni sé að komast til æ meiri áhrifa fólk, sem hefur einkennilega andúð á flugi sem samgöngumáta og atvinnugrein.

Á nýlegum fundi stjórnmálamanna með þeim, sem starfa í svonefndum Fluggörðum við Reykjavíkurflugvöll kom í ljós, að sumir þeirra héldu að ekkert flugnám færi fram í Reykjavík og að slíkt færi fram og ætti helst að fara fram erlendis.

Hundruð fólks vinnur samt við þetta en litið er á flugið og flugfólk sem undirmálsfólk og flugið sem óæskilega starfsemi.

Talað er um "hátækni" af ýmsum toga á hástemmdan hátt og undir það eru háskólagreinar eins og húmanisk fræði felld, en litið er niður á flugið eins og eitthvað óæskilegt fitl skítugra flugvirkja við véladrasl.

Flugið má ein allra samgöngugreina búa við þessa fórdóma í höfuðborg landsins, sem að sjálfsögðu á að vera miðstöð allrar samgöngustarfseminnar, sem borgin skapaðist í kringum.

Þeir, sem nú bjóða sig fram sem "þjónar almennings" mega ekki heyra það nefnt að yfir 70% borgarbúa vilja hafa flugvöllinn þar sem hann er núna, en auðvitað að sníða hann sem best að annarri byggð.

Flugvöllurinn er 4 kílómetra frá þungamiðju íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins og fimm kílómetra frá stærstu krossgötum landsins og því nákvæmlega á besta stað hvað það snertir, að ekki sé talað um veðurfarslega þáttinn.

Leitun er að borg, þar sem aðalflugbraut vallarins stefnir í báðar áttir að óbyggðum svæðum eins og austur-vesturbrautin gerir, annars vegar yfir sjó, og hins vegar yfir autt svæði í Fossvogsdal.

Með lengingu þessarar brautar leysast flest þau "vandamál" sem menn setja fyrir sig vegna flugumferðar en myndu aukast með færslu upp á Hólmsheiði.

170 kílómetra lenging ferðaleiðar fram og til baka miill Reykjavíkur og landsbyggðarinnar með færslu innanlandsflugsins til Keflavíkur yrði fyrsta og langstærsta samgönguspor aftur á bak í sögu þjóðarinnar.


mbl.is Segir framgöngu borgarinnar harða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarðarheiðin vegur þungt.

Flutningur afgreiðslu Norrænu frá Seyðisfirði til Eskifjarðar getur haft áhrif langt út fyrir þessa tvo staði.

Það er drjúgur munur á því hvort hinn erlendi ferðamaður er staddur innst í Reyðarfirði þegar hann ákveður, hvort hann ætlar suður með Austfjörðum eða hvort hann er staddur á Egilsstöðum.

Vegna beinna tengsla sinna við Seyðisfjörð hafa Egilsstaðir sem helsta miðstöð samgangna, verslunar og þjónustu notið þess að  öll umferðin, sem kemur úr Norrænu, fer þar í gegn.

Ef Norræna leggst að á Eskifirði, mun einhver hluti umferðarinnar ekki fara í gegnum Egilsstaði, heldur halda áfram suður um til Hornafjarðar, einkum ef veðrið er betra þar en á norðanverðu landinu. 

Umferð ferðamanna mun aukast um Suðurfirðina ef Norræna leggst að á Eskifirði, vegna þess að eins og nú er, aka margir um Öxi eða Breiðdalsheiði á hringferð um landið og fara framhjá leiðinni um Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Fjarðabyggð.

Það er skiljanlegt að Smyril Line vilji færa sig frá Seyðisfirði til Eskifjarðar. Tvennt kemur til: Annars vegar talsvert styttri siglingarleið Norrænu og hins vegar öryggisleysið sem fylgir veginum yfir Fjarðarheiði.

Síðustu árin hefur hún verið sérstaklega leiðinleg og það vegur þungt.  

Af kynnum mínum við landshlutana í meira en hálfa öld hef ég því miður hvergi fundið fyrir eins djúpum ríg á milli byggða og á Austurlandi.

Þetta er þeim mun dapurlegra vegna þess hve Austfirðingar eru gott og skemmtilegt fólk sem býr í fallegu og fjölbreytilegu landslagi.

Ég hygg að ekkert hafi verið eins mikill dragbítur fyrir Austurland og þetta gríðarlega skæklatog. Og nú bætist þetta við. Það kann að fara svo að þingmenn kjördæmisins eigi enn einu sinni eftir að biðja Guð að hjálpa sér.    


mbl.is Norræna vill sigla til Eskifjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband