Bráðum "kominn tími á" svæðið?

1480 urðu feiknarleg eldsumbrot á Landmannaafrétti og gaus á tuga kílómetra langri sprungu. Síðasta stórhrina af þessu tagi varð um 550 árum fyrr. 

Komi svona stórhamfarir með um það bil hálfs árþúsunds millibili þarna gæti verið "kominn tími á" þetta stórbrotna eldvirka svæði.

Það er svo margt sem er mest og stærst á þessum slóðum. Þar er stærsta askja landsins og mesta líparítsvæði landins, þar er stærsta hrafntinnuhraun landsins og þar er mestu jarðvarmaorkuna að finna.

Sé allt svæðið að Fjallabaki tekið með í reikninginn hafa orðið þar tvö stærstu hraungos á sögulegum tíma á jörðinni, Eldgjárgosið um 930 og Skaftáreldarnir 1783, Eldgjárgosið öllu stærra.

Frá þessu magnaða svæði hafa runnið hraun allt í sjó fram í Flóanum og niður í Meðalland.

Fjölbreytni eldstöðva og sköpunarverka eldvirkninnar er slík, að sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn bliknar í samanburðinum.

Hann er heilög jörð í augum Bandaríkjamanna og verður því aldrei snertur, en erfiðlega gengur að fá Íslendinga til að hugsa um svæðið að Fjallabaki öðru vísi en sem vettvang tuga virkjana.    


mbl.is Skjálftahrina í Torfajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfréttirnar byrjaðar að streyma.

Á erlendu máli bera fréttir heitin news, nyheder o. s. frv, eitthvað sem er alveg nýtt, kemur á óvart eða breytir miklu. 

Fyrir "gúrkutíðina" hjá okkur kemur það sér oft vel að slík merking skuli ekki felast beint í orðinu "frétt".

Þar með eru árleg fyrirbæri eins og verslulanarmannahelgi, páskarnir eða jólin orðin að fréttum og allt sem þeim tilheyrir, Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum, Ein með öllu og hvað þær nú heita allar samkomurnar og sami straumur fólks út frá höfuðborgarsvæðinu og verið hefur á sama tíma í áratugi.

En allt þetta verður að stórfréttum næstu daga. Það er frétt að umferð vaxi jafnt og þétt út úr þéttbýlinu fyrir þessa helgi, þótt hún vaxi raunar líka fyrir allar aðrar helgar í sumar en þyki ekki frétt þá. 

Lágmark að vera með beinar útsendingar og uppistönd við straum fólks og bíla.  

Veðurútlitið fyrir verslunarmannahelgina er svo fyrirferðarmikið í fréttum, að maður verður að hafa sig allan við til að finna út hvernig veðrið verður eftir helgina ef það eru einmitt dagarnir sem skipta mann máli.

Síðan verður það svipuð stórfrétt í lok þessara frídaga þegar straumurinn byrjar í átt til borgarinnar.

Á sínum tíma hafði maður ekki svo lítið fyrir því að taka þátt í þessu á fullu, fylgjast með því úr lofti og af landi sem fréttamaður og standa sig sem allra best, svo að það líður um mann vellíðan að vita að þessar sömu fréttir standa enn fyrir sínu, þótt ekkert nýtt sé í þeim, enda sem betur fer fyrir fjölmiðlana ekki þörf á því af því að íslenska heitið gerir kröfu til þess.    


mbl.is Umferðin farin að aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tregða til að sýna þjónustulund og öðlast viðskiptavild.

Hér í gamla daga þegar stór hluti vega- og gatnakerfisins, jafnvel stærstur hlutinn, var malargötur og malarvegir, þótti það sjálfsagt mál hjá olíufélögunum að bjóða viðskiptavinum sínum upp á aðstöðu til að þvo bíla sína. 

Á allra síðustu árum hefur hins vegar komið fram mikil tregða varðandi þetta og þarf sums staðar að leita og fara víða til að finna slíka aðstöðu.

Þótt augljóst sé að slík ókeypis aðstaða færi viðkomandi bensínstöð ekki peninga beint, af því að aðgangur hefur aldrei verið seldur að henni, hlýtur hitt að eiga að vega eitthvað, að það tákn um þjónustulund og jákvætt viðhorf gagnvart viðskiptavinum, sem aðstaða til bílþvottar er, skapar óbeinar tekjur þeirra, sem vilja skipta við fyrirtæki sem býður slíka aðstöðu.

Í allri samkeppni í verslun og þjónustu á að meta viðskiptavild til peninga, þótt það þurfi kannski ekki að vera hluti af stórfelldum blekkingum eins og slíkt mat var orðið í aðdraganda Hrunsins.  

Með hreinum ólíkindum má telja að á fjölförnum stað eins og Borgarnesi í héraði, þar sem enn eru margir malarvegir og þar sem tjara sest á bíla að vetrarlagi, skuli það teljast til tíðinda að opnuð sé bílþvottaaðstaða. Gott er að Olís ríður þar á vaðið öðrum til eftirbreytni. 

Það getur verið tafsamt fyrir bíleigendur að þurfa að aka fram og til baka um heilu borgarhlutana í Reykjavík til að finna, hvar sé boðið upp á bílþvott, loftdælu, ryksugu eða kaup á olíuvörum.  

Síðan er það efni í annan pistil að fjalla um skort á kurteisi og þjónustulund hjá allt of mörgu afgreiðslufólki í verslunum og fyrirtækjum á Íslandi, sem virðist telja það sjálfsagt að það komi fram hve illa það sé launað og hve lítilsvert starf þeirra sé með því að vanrækja höfuðatriði slíkra starfa, atriði sem maður sér svo vel, til dæmis í Bandaríkjunum, að er almennt metið mikils.  


mbl.is Geta nú þvegið bílinn í Borgarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband