"Litli bróðir, - úti í Atlantshafinu."

Þulir norska sjónvarpsins voru búnir að vera rosalega hlutdrægir í lýsingu sinni hér um árið á leik Íslendinga og Norðmanna, sem skar úr um það hvor þjóðin héldi áfram á handboltastórmóti. 

Þeir kölluðu Robert Duranona til dæmis aldrei neitt annað en Kúbverjann, - "Kubaneren" gerði þetta og gerði hitt, þar til fjórar mínútur voru eftir af leiknum og orðið ljóst að Norðmenn voru búnir að skíttapa honum.

Þá breyttist hljóðið allt í einu í þeim. Þeir fóru að kalla Duranona nafni sínu og hæla Íslendingum fyrir góðan leik.

Hámarki náðu þessi umskipti þegar þeir sögðu það vera mikinn heiður fyrir norræna menn að "litli bróðir úti í Atlantshafinu" færi áfram og varpaði ljóma á Skandinava.

Á ferðum um þveran og endilangan Noreg finnur maður vel hug Norðmanna til okkar og sér mörg dæmi þess hve líkir þeir eru okkur í mörgu. 

Helsti munurrinn er kannski sá að þeir eru mun reglufastari en við.  

Það hefur verið orðað þannig að í Noregi sé allt bannað, nema það sé leyft, en á Íslandi sé allt leyft, nema það sé bannað.  


mbl.is Íslendingar í Noregi eru vinsælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skella landinu í lás !

Þessa dagana les maður á fasbók og í bloggpistlum geigvænlegar upplýsingar frá mjög vel menntuðu og skynugu íslensku fólki. 

Það er víst veira út um allt sem getur breytt hegðunarmynstri fólks og jafnvel heilla þjóða. Milljón ferðamenn streyma til landsins árlega og fer fjölgandi. Þetta er svakalegt. 

Koma þarf málum þannig fyrir að hvítir menn þurfi ekki að setjast við hliðina á svörum mönnum í flugvélum, af því að þeir svörtu gætu verið með ebóluveiruna.

Þó er það svo að ekki er vitað um aðra ebólusmitaða farþega í flugvélum en hvíta.

Auk þess er stór hluti þjóðanna í kringum okkur svart fólk svo að það þarf heldur betur að vara sig.

Upplýst er að 99% kjöts í Ameríku sé fullt af sterum og aukaefnum.  

Þótt reynt sé að koma því á framfæri að þessi prósentutala sé aðeins brot af því sem haldið er fram er það eins og að stökkva vatni á gæs.  Erlenda kjötið er stórhættulegt.

Margfalt meiri tíma tekur útlenda lækna og hámenntað fólk að fá að flytja til landsins en fyrir okkur að flytja til landa þeirra.

Þetta virðist talið sjálfsagt mál, jafnvel þótt það hamli því að við fáum hingað nauðsynlegt fólk í til að sinna aðkallandi verkefnum í staðinn fyrir þá Íslendinga sem flytja úr landi vegna lélegra kjara.

Þannig mætti lengi telja varðandi þær ógnir sem steðja að okkur frá útlöndum.

Smám saman er það að renna upp fyrir okkur að það kunni að vera eina ráðið við þessari margslungnu vá að skella landinu í lás eftir því sem það er mögulegt.  

Verst væri þó ef það kæmi í ljós að farfuglarnir bæru til okkar allskyns veirur og annað skaðræði.

Þú myndi ekki duga upphrópunin fræga hins skotglaða norðlenska veiðimanns, sem Laddi gerði ódauðlegan: "Skjóta helvítin!"  

 

 


mbl.is Breytir ekki hegðun manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geysi skemmtileg íþrótt fyrir áhorfendur.

Sé veður heppilegt er afar skemmtilegt að horfa á torfærukeppni. Þetta fékk ég að reyna fyrir nokkrum vikum þegar keppt var fyrir utan Egilsstaði í móti, sem var hluti af mótaröð, sem gefur stig til Íslandsmeistaratitils. 

Hér á landi hefur myndast harðsnúinn hópur manna sem kann vel til verka við að halda svona mót, en það er mjög flókið og vandasamt starf, og er aðdáunarvert hve langt menn hafa komist í því.

Lagning keppnisbrautanna er orðin háþróuð og býður upp á dramatíska og æsilega tilburði í akstrinum.  

Ekki þarf að fjölyrða um færni keppendanna og snilld í smíði keppnisbíla því að þar erum við Íslendingar búnir að vera í forystu um árabil, eða allt frá því er Árni Kópsson umbylti gerð bílanna með Heimasætu sinni.

Það sýnir, hve langt sá bíll var á undan samtíð sinni, að hann er enn gjaldgengur í keppni, þótt nú megi sjá merki þess að önnur bylting sé að verða í smiðinni.

Ýmis atriði má nefna, en liklega eru þrjú mikilvægust.

1.  Stórfelld létting bestu bílanna.

2. Sjálfberandi heilsoðin bygging.

3. Tilkoma nýrrar meginhönnunar, þar sem vélin er færð aftur fyrir ökumanninn inn að miðju bílsins.

Þetta síðastnefnda er svipuð hugsun og í gerð bestu formúlu kappakstursbíla, en með því að hafa vélina þétt við bakið á ökumanninum, eru þyngdarpunktar tveggja þyngsu hluta bílsins, ökumannsins og vélarinnar, færðir eins nálægt hvor öðrum og miðju bílsins og unnt er.

Í síðustu tveimur mótum hefur einn bílanna verið með þessu byggingarlagi og sannað gildi þess, bæði hvað varðar getu bílsins og það hve miklu léttari og samþjappaðri hann getur verið fyrir bragðið.

Nokkrir höfðu á orði þegar bíllinn birtist fyrst að það væri nánast móðgandi að koma með keppnisbíl með helmingi minni fjögurra strokka vél en er í hinum bílunum, en þær raddir hljóta nú að þagna, því að litlu munaði að sigur ynnist á þessum bíl.

Nú er spurningin um hvort fjórða byltingaratriðið, sjálfstæð fjöðrun, kemur til skjalanna.

En þar þarf að leysa afar erfið tæknileg vandamál, sem sennilega verður erfitt að fást við.

Sumir átelja keppni í bílasporti á þeim forsendum að þar sé bruðlað með orku i orkuþyrstum heimi.

En ef tölurnar eru skoðaðar sést að yfir 99% af eldsneytiseyðslu bílaflota heimsins felst í almennri umferð og snatti.

Bílasport felst í því að kunna að gera sér dagamun, líkt og felst í því að borða kræsingar á stórhátíðum, þótt sultur sé í heimininum.  

Árangur í orkusparnaði og nýtingu matvæla byggist á því að taka á þessum atriðum í daglega lífinu þar sem 99% af möguleikunum er að finna.   


mbl.is Stærsta torfærumót Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband