Bárðarbunga og Leirhnúkur: suður eða norður?

Leirhnjúkur við Kröflu minnir um margt á Bárðarbungu.  Hann er í miðju kerfis sem liggur í gegnum hann og er mikill sprungusveimur og röð eldgíga.

Í fjórtán umbrotahrinum 1975-84 var stóra spurningin ævinlega hvort kvikan, sem var að þrýstast upp á yfirborðið, kæmi beint upp við Leirkhnjúk eða hlypi annað hvort í suður eða norður.  

Einkum óttuðust menn hlaup í suður um svæði, sem í eru Bjarnarflag, Kverkfjall og gígaröðin Lútentsborgir.

Níu sinnum kom kvika upp og sem betur fór kom aðeins einu sinni kvika í suður.  Það var líkast til minnsta eldgos í heimi því að glóandi hraunmylsnan kom upp um rör í Bjarnarflagi og dreifðist um hundrað metra svæði.  

Við Bárðarbungu er sama spurningin, kvikan getur sýnst vera að fara í aðra áttina en fer svo allt í einu í hina.  

Nú hrúgast inn erlendir fjölmiðlar á höttunum eftir myndum af Báraðarbungu og umhverfi hennar og hef ég orðið var við það.

Erlendu fjölmiðlarnir vita svo lítið um málið allt að það væri algerlega fráleitt að einhverjum þeirra dytti í hug að spyrja hvort kvikan fari í suður eða norður. 


mbl.is Fjallað um Bárðarbungu erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfireldstöð Íslands.

Ef eitthvert íslenskt eldfjall ætti að fá "starfsheitið" yfireldstöð Íslands er það Bárðarbunga. Það er ekki vegna þess hve eldfjallið er umfangsmikið og um leið annað hæsta eldfjall landsins, heldur fyrst og fremst fyrir það hvernig hún virðist stjórna fjölda eldstöðva í kringum sig á um 200 kílómetra löngu svæði og láta þær framkvæma hið ógnvekjandi vald sitt.

Hún minnir á býflugnadrottningu í búi sínu eða bara einhverja af frægum drottningum í mannkynssögunni eins og Kleópötru, Elísabetu 1 eða Katrínu miklu, - allt snýst í kringum hana og allir fara eftir því sem hún skipar fyrir.

Hún er eldstöðvahershöfðinginn sem skipar kvikubrynsveitum sínum fyrir og sendir þær í mkla leiðangra.

1996 sendi hún eimyrjukvikuinnskot í suður í átt til Grímsvatna og úr varð Gjálpargosið með sínu mikla hamfaraflóði sem fór í gegnum Grímsvötn.

Nú sendir eldstöðvadrottningin eldspúandi herdeildir sínar neðanjarðar í tvær áttir, í átt til Dyngjuháls og í átt til Kverkfjalla í stað þess að spúa eimyrjunni sjálf þar sem hún kemur upp.

Og allir bíða með öndina í hálsinum. Því að Bárðarbunga ætlar að gera 21. öldina að sinni öld með því að nýta sér þá léttingu og eins konar tómarúm sem hnignun Vatnajökuls skapar.

Það er búið að vera stórkostlegt undanfarna daga og vikur að sveima í kringum drottninguna, sem vekur svona óttablandna virðingu með því að deila og drottna meðal eldstöðvanna í kringum sig án þess að hafa sig sjálf í frammi nema með því að láta alla skjálfa á beinunum.


mbl.is Sjáðu Bárðarbungu í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband