"Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn".

"Öllum skal tryggður til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna." 

Þannig hljóðar 8. grein frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár Íslands.

Þetta eru fá orð og skýr í greininni um mannlega reisn, sem kemur á eftir fyrstu tveimur greinum kaflans um mannréttindi og náttúru, en þær kveða á um jafnræði og rétt til lífs.

Merkilegt má telja hve seint gengur að innleiða jafn sjálfsögð atriði nútíma mannréttinda og felast í þessum kafla. 

Þrátt fyrir eindreginn stuðning kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá í október 2011 eru lappirnar dregnar í þessu margfalda hagsmunamáli fyrir þjóðfélag sem vill kenna sig við frelsi, lýðræði og mannréttindi.  

Tregðan leiðir til þess að einstaklingar og hópar komast upp með að niðurlægja þá, sem þeim er af einhverjum ástæðum í nöp við, bara fyrir það eitt að vera á einhvern hátt ekki alveg eins og aðrir, hluti af "margbreytileika mannlífsins"

Dæmin sem nefnd eru í tengdri frétt varðandi niðurlægjandi steggjun eða gæsun í Gleðigöngunni myndu vera skýlaust brot á stjórnarskrárvörnum réttindum ef nýja stjórnarskráin hefði tekið gildi. 

Þannig er um ótal fleiri réttinda- og réttlætismál í frumvarpinu, mál, sem einhvern veginn gengur svo illa að veita brautargengi.  

 


mbl.is Ekki steggja í gleðigöngunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan er töpuð. Tvö ráðuneyti geirnegla orðalagið "bílvelta varð."

Fjölnismenn og fleiri börðust við svonefndan "kannsellístíl" í málfari sem danska stjórnsýslan innleiddi svo rækilega á fyrri hluta 19. aldar, að við glímum enn við þennnan draug sem nú er orðinn íslenskur. 

Eitt af einkennum þessa stíls er að flækja orðalag sem mest og lengja textanna sem mest með því að hlaða upp sem flestum löngum og flóknum nafnorðum og heitum en útrýma sagnorðum.

Það þykir fínt, er "in" og sýnir menntun og miklar gáfur í stað þess að orða hlutina á mannamáli.  

"Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum" sagði þingmaður einn og notaði 16 atkvæði í stað þess að orða þetta í 10 atkvæðum: "Fólki hefur fækkað á Vestfjörðum". 

Lítið dæmi um þetta mátti heyra undir lok frétta á Ríkisútvarpinu nú í hádeginu. "Bilvelta varð" sagði fréttamaðurinn. 

Um  leið og fréttunum lauk kom pistill frá Samgöngustofu sem hófst á því að sagt var strax í fyrstu setningunni "það varð bílvelta."

Svo mikið virtist liggja við á vegum menntamálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins, að sama örfréttin var sögð með stuttu millibil með því að nota fjögur atkvæði í stað tveggja og segja einfaldlega: "Bíll valt."

Baráttan í þessu máli gegn nafnorðasýkinni er augljóslega töpuð. Gegn yfirþyrmandi valdi tveggja ráðuneyta, arftaka danska kansellísins, auk kranablaðamennsku frjálsra fjölmiðla dugar engin vörn.

Næst fáum við að heyra: "Fíkniefnafundur varð", "hnífsstunga varð","nauðgun varð" og "rigning varð", sannið þið til.  

 


mbl.is Fimmtán fíkniefnamál í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanleg síðdegisskúr = Morgunskýfall.

"Er ekki bíllinn opinn hjá þér?" spurði Helga mig á sjöunda tímanum í morgun. 

"Jú, og hvað með það? spurði ég á móti og sneri mér á hina hliðina, svekktur yfir því að vera vakinn úr fastasvefni upp úr þurru. 

"Það rignir" svaraði hún.

"Getur ekki verið", umlaði ég í svefnrofunum. "Ég var að gá út fyrir korteri og það er þurrt og spáð þurru næstu daga".

"Hlustaðu" sagði hún.

Ég hlustaði. Hvert þó í þreifandi!  Það buldi regn á rúðunum! Billinn galopinn! Að sjálsögðu. Spáin hafði verið "fínasta veður um helgina." 

Ég hentist í buxur og yfirhöfn utan yfir náttfötin á mettímaog þau út í skýfallið fyrir utan. Rigningin dansaði á malbikinu svo að stórir droparnir hentust upp í loftið eins og bílaplanið væri sjóðandi hverasvæði.  

Sjá myndir á facebook síðu minni.  

Ég varð gegnvotur við að setja seglið yfir bílinn og vatt margar tuskur af vatni af sætunum í bílnum til að reyna að þurrka þau. 

Veðurfræðingar eiga bágt þegar loftið er svalt um hásumar eins og nú.

Líka þeir sem treysta á þurrviðri og halda að það rigni bara 17. júní.  

En móðureyra konunnar bregst aldrei þótt börnin séu farin að heiman fyrir 30 árum, ekki einu sinni í fastasvefni.  


mbl.is Fínasta veður um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því minna "gistirými", því betra?

Það getur verið vandasamt að fá góðan svefn í tjaldi, hjólhýsi eða bíl, þar sem ekki er um að ræða neinn hita frá gististaðnum sjálfum. Mestu skiptir að vera í ullarfatnaði næst sér, jafnvel tvöföldum, og vefja sig inn í sem flest lög af fatnaði og ábreiðum.

Einföld húfa sem er hægt er að binda vel eða festa eða jafnvel lambhúshetta er mjög stórt atriði, því að halda þarf kulda frá höfðinu öllu og þó sérstaklega hnakkagrófinni.  

Þegar maður sofnar fast, eins og nauðsynlegt er ef halda á fullu þreki alla útileguna, hægir á líkamsstarfseminni og þá getur manni orðið það kalt, að maður vakni upp hríðskjálfandi um miðja nótt.

Fyrr á árum gat ég alls ekki sofið nema láréttur og engan veginn sofið í bílsæti. Síðan fékk ég bakflæði og samfall í neðstu hryggjarliðum og þá er stellingin í afturhallandi bílsæti sú besta fyrir mig að ráði læknanna, þannig að með árunum sef ég ekki vel nema þannig.

Í áranna rás hefur safnast reynsla af því að sofa í bílum, og næsta óvænt niðurstaða hennar er sú, að því minni sem bíllinn er, því betur sefur maður.

Ég hef sofið best í allra minnstu bílunum, sem eru í umferð hér á landi.

Ástæðan er sú, að þegar rýmið er orðið svona lítið, helst hiti manns sjálfs betur inni í svo litlu rými en í stóru. Maður er jafnvel farinn að hita þetta litla innanrými upp og níðþröngur bíll að nálgast ígildi svefnpoka !  

Í björtu veðri er hitasveiflan milli dags og nætur mikil og það þarf að hafa í huga.

Að svo mæltu býð ég góða nótt.  


mbl.is Gæti orðið kalt að gista í tjaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband