Nokkur "ekkigos" eða "varlagos".

1, Eftir litla Leirhnjúksgosið í desember 1975 reið mikil skjálftahrina yfir Gjástykki og Kelduhverfi. Mjög stór skjálfti stórskemmdi hús á Kópaskeri og gríðarmiklar gjár urðu til í sveitinni. Nýtt vatn, "Skjálftavatn" myndaðist. Ekkert eldgos varð, - "ekkigos". 

2. Ári síðar, ef ég man rétt, hljóp kvika til suðurs í Bjarnarflag og var um stund talið að þar væri að byrja gos. Allt og sumt var að glóandi hraunmylsna þeyttist upp úr borholuröri þar og dreifðist hraunmylsnan um svæði á stærð við knattspyrnuvöll. Minnsta staðfesta eldgos í heimi. "Varlagos".

3. Í skjálftahrinu við Hamarinn í aðdraganda Gjálpargossins 1996 var talið líklegt að ögn af hraunkviku hefði náð upp á yfirborðið við fjallið. Ekkert var hægt að sanna í því efni. "Ekkigos" eða "varlagos." 

4. Í einu af Skaftárhlaupunum, sem komu úr öðrum af tveimur Skaftárkötlunum var talið líklegt að hugsanlega hefði einhver hraunkvika komist upp undir ketilinn. Ekkert var hægt að sannreyna óyggjandi í þeim efnum. Sem sé: "Ekki gos" eða "varla gos."

5. Á laugardaginn var sást eitthvað sem gat líkst óróa og önnur teikn undir Dyngjujökli sem hugsanlega mátti túlka sem upphaf eldgoss. Lýst var yfir neyðarástandi vegna yfirvofandi goss. Ekkert gos fannst þegar betur var skoðað.  

6. "Ekki gosin" eða "varla gosin" gætu hafa verið fleiri en þessi fimm, sem ég man eftir í svipinn, og í kvöld bættist hugsanlega enn eitt við og þau þá orðin sex.

Eftir stórskjálftana í Bárðarbungu og stóra skjálfta þar norður af þarf ekki að undra að hveravirkni byrji eða aukist stórlega undir ísnum og að það myndist nýjar gjár í Holuhrauni.  

Auðvitað verður eldgos, kannski eftir eina klukkustund, einn dag, einn mánuð, eitt ár eða einn áratug en eigum við ekki samt að anda með nefinu þangað til ? 

 

 

  


mbl.is Óljóst hvar vatnið er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórbrotnar vangaveltur.

Í fréttum Rikisútvarpsins í morgun var frétt, sem sýnir hve stórbrotna atburði við erum í raun að horfa á  

Íslenskur sérfræðingur í London, Ágúst Guðmundsson, telur atburðina einstæða fyrir vísindasamfélagið og benda til að í stað þess að um sé að ræða einstök kvikuhólf og kvikuinnskot, kraumi í raun undir miklu stærra fyrirbæri, risastór kvikuþró sem sé uppruni þessara umbrota allra.

Það rímar við þá viðurkenndu staðreynd að Bárðarbunga liggi við miðju annars af tveimur stærstu mötttulstrókum heims.

Líta má svo á að þessi sýn Ágústar geti gefið vísbendingu um að miklu stærra kunni að vera í aðsigi en afmarkað eldgos af venjulegri stærð og að hugsanlega stefni í eitt af hinum stóru hamfaragosum á borð við Öskjugosið 1875-86 eða jafnvel Skaftárelda, stórgosin að Fjallabaki fyrr á öldum eða Eldgjárgosið 934. 

Einnig varpar Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur því fram að kvikuhólfin undir Kröflu, Öskju og fleiri eldstöðvum séu á aðeins 2ja- 3ja kílómetra dýpi en hólfið undir Bárðarbungu, sem nú er svo virkt, sé á sex kílómetra dýpi.

Af því leiði að setja megi spurningarmerki við það að útskýra stóru skjálftana í Bárðarbungu út frá svipuðum forsendum og við fyrrnefndar eldstöðvar og eingöngu út frá áhrifum kvikustreymis í berggangi, einum eða fleirum, heldur þurfi að skoða dýpra með opnum huga.

Vísa að öðru leyti í næstu bloggpistla mína á undan þessum um þetta efni.  


Ógnvaldur allra stórvirkjana nema Blönduvirkjunar?

Ein stærstu rökin fyrir virkjun Blöndu á níunda áratugnum voru þau, að með tilkomu hennar væru egg stórvirkjana á Íslandi ekki lengur öll í sömu körfunni á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. 

Bárðarbungu eru eignuð upptökin að stórgosum allt suður á Veiðivatnasvæðið og Friðland að Fjallabaki og innifalin í þeim eru gos sem hafa valdið stórfelldum landbreytingum á þeim svæðum og rennsli hins hrikalega stóra Þjórsárhrauns, sem fór í sjó fram í Flóanum og liggur undir jarðveginum í þeirri sveit. 

Árangur sem náðist í baráttunni við Heimaeyjargosið 1973 segir lítið um það hve vel mönnum myndi ganga að ráða við margfalt stærri hraunstrauma og stórgos. 

Þess vegna má segja að Bárðarbunga sé ógnvaldur allrar stórvirkjanakeðjunnar, sem nú framleiðir um 800 megavött samanlagt en myndi fara vel á annað þúsundið ef virkjað verður áfram við Norðlingaöldu og einnig neðar í ánni.

 150 megavött Blöndu mega sín lítils sem mótvægi og enn minna ef Kárahnjúkavirkjun er skilgreind innan hugsanlegs áhrifasvæðis Bárðarbungu. 

Fremri-Kárahnjúkur er eldfjall, sem tvær af þremur stíflum Kárahnjúkavirkjunar liggja upp að, og hin þriðja er skammt frá.

Í bloggpistli næst á undan þessum er tengingu misgengissvæða á Kárahnjúkasvæðinu við eldstöðvakerfið norðan Vatnajökuls lýst, en reynist Askja og Kverkfjöll undir áhrifum frá Bárðarbungu má segja að hún geti líka verið ógnvaldur stórvirkjana á norðausturhálendinu, en orka þeirra er nú 690 megavött en uppi eru hugmyndir um að bæta við næstum jafnmiklu við með virkjunum í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljóti.     


mbl.is Virknin að aukast á skjálftasvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband