Nokkur "ekkigos" eða "varlagos".

1, Eftir litla Leirhnjúksgosið í desember 1975 reið mikil skjálftahrina yfir Gjástykki og Kelduhverfi. Mjög stór skjálfti stórskemmdi hús á Kópaskeri og gríðarmiklar gjár urðu til í sveitinni. Nýtt vatn, "Skjálftavatn" myndaðist. Ekkert eldgos varð, - "ekkigos". 

2. Ári síðar, ef ég man rétt, hljóp kvika til suðurs í Bjarnarflag og var um stund talið að þar væri að byrja gos. Allt og sumt var að glóandi hraunmylsna þeyttist upp úr borholuröri þar og dreifðist hraunmylsnan um svæði á stærð við knattspyrnuvöll. Minnsta staðfesta eldgos í heimi. "Varlagos".

3. Í skjálftahrinu við Hamarinn í aðdraganda Gjálpargossins 1996 var talið líklegt að ögn af hraunkviku hefði náð upp á yfirborðið við fjallið. Ekkert var hægt að sanna í því efni. "Ekkigos" eða "varlagos." 

4. Í einu af Skaftárhlaupunum, sem komu úr öðrum af tveimur Skaftárkötlunum var talið líklegt að hugsanlega hefði einhver hraunkvika komist upp undir ketilinn. Ekkert var hægt að sannreyna óyggjandi í þeim efnum. Sem sé: "Ekki gos" eða "varla gos."

5. Á laugardaginn var sást eitthvað sem gat líkst óróa og önnur teikn undir Dyngjujökli sem hugsanlega mátti túlka sem upphaf eldgoss. Lýst var yfir neyðarástandi vegna yfirvofandi goss. Ekkert gos fannst þegar betur var skoðað.  

6. "Ekki gosin" eða "varla gosin" gætu hafa verið fleiri en þessi fimm, sem ég man eftir í svipinn, og í kvöld bættist hugsanlega enn eitt við og þau þá orðin sex.

Eftir stórskjálftana í Bárðarbungu og stóra skjálfta þar norður af þarf ekki að undra að hveravirkni byrji eða aukist stórlega undir ísnum og að það myndist nýjar gjár í Holuhrauni.  

Auðvitað verður eldgos, kannski eftir eina klukkustund, einn dag, einn mánuð, eitt ár eða einn áratug en eigum við ekki samt að anda með nefinu þangað til ? 

 

 

  


mbl.is Óljóst hvar vatnið er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar maður les um Skaftáreldanna sem byrjuðu árið 1783 þá er ekki sjálfgefið að það verði hægt að anda með nefinu þegar slíkir eldar verða aftur sem dæmi ef þeir yrðu á þessu svæði sem er í eldlínunni í dag frá Bárðarbungu til Öskju og þar um kring.

Við erum að tala um að ef 50 km löng sprunga með gjósandi eldhaf af hrauni kæmi upp úr jörðinni á sama tíma með svörtum og hvítum reyk að hluta undan stærsta jökli í Evrópu sem Vatnajökull er.

Vá hér gæti verið upphafið af en þá stærri náttúruhamförum í farvatninu undirliggjandi en þá en þegar Móðirharðindin voru. 

Hér fyrir neðan er tilvitnun og svo linkur til að lesa allt um Skaftáreldanna á vísindavefur.is 

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=22048

 ,,Vorið 1783 var tíð góð á Suðurlandi, og íbúar hlökkuðu til sumarsins. En náttúruöflin áttu eftir að grípa í taumana á örlagaríkan hátt. Upp úr miðjum maí varð vart við veika jarðskjálfta í Skaftártungu, en styrkur þeirra og tíðni jókst næstu tvær vikurnar. Þann fyrsta júní varð harður skjálfti sem fannst greinilega vestur í Vík í Mýrdal og austur í Öræfi. Í kjölfarið fylgdi samfelld og stöðugt vaxandi skjálftahrina sem náði hámarki 8. júní, þegar gos hófst og kolsvartur mökkur breiddi úr sér suður eftir Síðumannaafrétti og út yfir láglendið. Skaftáreldagosið, sem markar upphaf móðuharðinda – mestu náttúruhamfara Íslandssögunnar, var hafið''.

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 00:20

2 identicon

Kvikugangurinn hefur verið þetta 3 vikur að þrengja sér nokkra tugi kílómetra áður en gosið kom upp í Skaftáreldum. Eftir því módeli þá ættu ósköpin að byrja eftir c.a. viku en vonandi fyrr því þá eru eldarnir kanski því minni en Skaftáreldar. 

Svona ef maður veltir fyrir sér verstu mögulegu útkomu, sem væntanlega þarf ekki að verða!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 07:51

3 identicon

Hefur ekki verið eitthvað um "ekkivarlagos" í og við Kötlu af og til. Jafnvel slíku kennt um Múlakvíslarhlaupið stóra. Rámar líka í að hafa heyrt að menn telji slík hafa átt sér stað á sjöunda áratugnum (gæti vel verið að misminna).

ls.

ls (IP-tala skráð) 28.8.2014 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband