Vantar "góða" kandídata á listann.

Listinn sem AutoExpress birtir yfir tilnefnda bíla til titilsins "versti bíll sögunnar" er ágætur um margt en þó vantar nokkra kandidata. 

Ef bara er hugað að vestrænum bílum finnst mér vanta Pontiac Aztek, sem var herfilega ljótur.  

Stundum er spurningin sú hvort ljótleikinn einn nægi til útnefningar, og þar sómir Ssangyong Rodius sín vel í hópnum, sem AutoExpress birtir. 

Hér á Íslandi er ekki spurning í mínum huga að tvo austur-þýska bíla vantar á listann: Garant sendibílinn og P-70, sem var fyrirrennari Trabant, en þessir bílar voru fluttir hinn á tímum vinstri stjórnarinnar 1956-58.

Verstur er þó sennilega hinn úkrainski Zaphorszhets 965 var með eindæmum illa hannaður og illa smíðaður og reyndist skelfilega hér sem annars staðar, miklu verr en elsti Moskovitsinn sem hingað kom á árunum 1953-1956.   


mbl.is Verstu bílar sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í sókn til síbyljunnar ?

Sú var tíð að Rás 1 var eina leyfilega útvarpsrás landsins. Yfirbragð hennar var blandað og á síðari hluta aldarinnar sem leið fékk hún samkeppni frá Kananum, Radio Luxemburg og fleiri erlendum stöðvum sem spiluðu létta tónlist mestan part.

Gamla Gufan hélt að mestu sínu yfirbragði sem alíslensk stöð en sinnti þó léttu efni og dægurtónlist í vaxandi mæli að hluta til svo að sem flestir fengju eitthvað fyrir sinn snúð og erlendu stöðvarnar fengju einhverja samkeppni.  

Sú samkeppni var aukin með Rás 2 og frá 1986 hafa ótal útvarpsrásir verið dagskrár, sem að mestu hefur byggst upp á spilun léttrar tónlistar sem smám saman hefur orðið valin af tölvu mestan part.

Smám saman er yfirgnæfandi efni útvarpsrásanna nokkurs konar síbylja býsna einsleitrar tónlistar þar sem lögin eru ekki kynnt, og ef svo er, varla meira en að nefna söngvarana. 

Þess á milli misgott rabb og spjall af fingrum fram mestan part.  

Áður fyrr vantaði meira af léttu útvarpsefni hér á landi en nú hefur þetta í heildina tekið snúist við upp í það að það er offramboð á síbyljunni ef eitthvað er og leiknum auglýsingum í löngum bunum upp á ameríska mátann auk spjallþátta sem eru að stórum hluta innihaldslítill kjaftagangur .

Margt á Rás 2 hefur verið vel unnin dagskrá og Rás 1 hefur þrátt fyrir fjárskort tekist að viðhalda fyrirfram vel unninni dagskrárgerð, þótt endurtekið efni hafi verið full áberandi.

En nú er engu líkara en að sú sérstaða Rásar 1 að skera sig úr síbyljunni eigi undir högg að sækja.

Sjálfsagt er að bæta dagskrána eftir föngum, gera hana innihaldsríkari og áheyrilegri, en breytingarnar mega ekki ganga svo langt að þær séu að því er virðist eingöngu breytinganna vegna.

Dæmi um það er síðasta lag fyrir fréttir, sem hefur jafnan verið flutt af íslenskum söngvurum. Af nógu hefur verið að taka, því að vilji menn bæta lagavalið og gera það fjölbreyttara en verið hefur, er þeim sem velja lögin, i lófa lagið að leita víðar fanga en gert hefur verið í nær óþrjótandi sönglagasafni íslenskrar tónlistar.

Íslenska sönglagið, tónskáld, söngfólk og tónlistarfólk, hefur hingað til átt um það bil 3ja mínútna verndaðan griðastað í útvarpsdagskránni í síðasta laginu fyrir fréttir. Ég hef enn ekki heyrt einn einasta mann kvarta yfir því eða amast við því.

Rétt í þann mund sem ég hripa þessi orð hlusta ég á það sem hefur rutt því burtu á Rás 1; síbylju hástemmds auglýsingalesturs þar sem hrópað er í æsingi um það hvað allt sé svo frábært á frábæru verði í frábæru úrvali. 

Síðan koma fréttirnar lesnar heilli tóntegund neðar eins og eitthvað miklu ómerkilegra.

Kannski er einhver búinn að reikna út að lesnu auglýsingarnar á dýrasta auglýsingatímanum auki tekjur Ríkisútvarpsins.

Allt sé falt fyrir peninga.

Mér líður hins vegar svipað og þegar Reykjavíkurborg seldi Og Vodafone Þjóðhátíðardaginn 17. júní á græðgisbóluárunun, þegar öll hátíðarhöldin voru í boði Og Vodafone og það eina sem var eftir, var að syngja: "Ó Guð vors lands Og Vodafone, vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn."

Það fengust áreiðanlega mun meiri peningar fyrir að selja 17. júni en síðasta lagið fyrir fréttir en menn höfðu þó rænu á því að endurtaka ekki leikinn hvað Þjóðhátíðardaginn snerti.  

Vonandi gera menn svipað varðandi sönglagið fyrir fréttir því að það er slys og móðgun við íslenskt tónlistarmenningu að fella þessa fallegu og skemmtilegu hefð niður sem er eitt af því sem getur forðað Rás 1 að verða síbyljunni algerlega að bráð.  

Að því sögðu má hins vegar taka það fram að það er gott og nauðsynlegt að þróa Rás 1 í sífellu í takt við tímana eins og nú er reynt að gera, og vel má hugsa sér að færa Rás 1 í svipaðan búning og hún var í þegar hún var ein á boðstólum fyrstu hálfa öldina og reyndi að gera sem flestu útvarpshlustendum til hæfis án þess að slaka á kröfum um vandaða og áheyrilega dagskrá. 

 


mbl.is Eiga erfitt með breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugvellir eru öryggisatriði.

Samgöngumannvirki eru ekki aðeins álíka nauðsynleg fyrir þjóðfélagið og æðakerfið er fyrir líkamann, heldur eru þau annað og meira; - öryggisatriði.

Þannig eru Reykjavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur ómissandi öryggisatriði fyrir millilandaflug okkar, og minnsta flugbraut Reykjavíkurflugvallar er öryggisatriði fyrir innanlandsflugið og sjúkraflugið.

Enginn veit fyrirfram hvenær það eigi eftir að koma sér illa að búið er að loka Patreksfjarðarflugvelli vegna fjárskorts Isavia, en landleiðin frá þeim flugvelli til þéttbýlsins á Patreksfirði liggur á láglendi meðfram strönd fjarðarins, en hins vegar er yfir tvo fjallvegi og talsvert lengri leið að fara til Bíldudalsflugvallar.

Fokker F50 flugvél missti afl á báðum hreyflum yfir Brúaröræfum í nóvember 2007 og farþegum var gert að setja sig í brotlendingarstellingu í sætum sínum í fyrstu, áður en það tókst að koma afli á annan hreyfilinn og lenda við afl hans eins á Egilsstaðaflugvelli.

Skipunin um brotlendingarstellingu var að vísu byggð á misskilningi flugfreyju, en hún var engu að síður einsdæmi í íslenskri flugsögu síðari ára og farþegarnir þurftu áfallahjálp á eftir.   

Þá var enginn nógu stór flugvöllur nothæfur fyrir Fokker F50 skráður og viðurkenndur á Brúaröræfum eða hálendinu eins og síðar varð og nú er.

Náttúruhamfarir á hálendinu vestan flugvallarins um þessar mundir minna á að enginn veiit hvenær hann og samgönguleiðir á landi á því svæði muni geta komið sér vel.  

Enginn vissi fyrirfram um það á sínum tíma hve vel tilvist flugbrautar á Grímsstöðum á Fjöllum ætti eftir að koma sér vel þegar alvarlegt hópslys varð við Hólsselskíl skammt norðan við Grímsstaði.  

Isavia telur sig ekki geta viðhaldið völlum eins og Sauðárflugvelli, Siglufjarðarflugvelli, Patreksfjarðarflugvelli og fleiri flugvöllum vegna fjárskorts og Orri Vigfússon og félagar hans munu væntanlega þurfa að borga Flugmálastjórn reglulega á hverju ári fyrir að fá að halda Siglufjarðarflugvelli opnum til öryggis og þæginda fyrir Siglfirðinga og aðra.

Viðhaldsleysi á Egilsstaðaflugvelli er þegar farið að hafa neikvæð áhrif á ástand hans.  

Ég býð Orra og félaga hans velkomna í hóp þeirra sem er ekki sama um ástandið í flugvallamálum á Íslandi.   

Ekki veitir af. Þeim sem hafa fjárveitingavaldið virðast ekki gera sér grein fyrir því öryggisatriði sem flugvellirnir eru. 


mbl.is Orri vill taka yfir flugvöllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband