Eindæma snjór í Snæfelli.

Svæðið norðan Vatnajökuls, nokkurn veginn milli Snæfells í austri og Trölladyngju í vestri, hefur verið sá hluti Íslands, sem er með minnsta úrkomu, svo litla, að jaðrar við þurrt meginlandsloftslag. 

Á síðustu árum hefur þetta breyst nokkuð, einkum hvað varðar svæðið í kringum Snæfell frvá Vestur-Öræfum vestur í Krepputungu.

Elstu menn muna ekki eftir eins miklum snjó á þessum slóðum og hlóðst niður síðasta vor og í sumar hefur verið meiri snjór í Snæfelli en menn minnast.

Þótt það kunni að virðast skrýtið, eru þessi miklu snjóalög að hluta til fylgifiskar hlýrra og úrkomusamara veðurfari en fyrir aldamótin. 

Áberandi hafa verið öflugar lægðir og úrkomusvæði, sem hafa komið upp að Suðausturlandi með svo miklu vatnsveðri, að það hefur komist vestur yfir Austfjarðafjallgarðinn og Snæfell, og vegna þess að þetta hefur gerst að vetrarlagi, hefur úrkoman fallið sem snjór á fjöllum.

Meiri snjór hefur verið í Kverkfjöllum en oftast áður.  

Þrátt fyrir þetta virðist Brúarjökull, stærsti skriðjökull landsins, halda áfram að minnka, bæði með því að lækka og dragast saman.

Hlýnun veðurfars gerist ekki jafnt og þétt, heldur eru algengar sams konar sveiflur á mili ára og árattuga og ævinlega hafa verið.

Frá lokum 19. aldarinnar hefur hins vegar verið áberandi, að hver hlýindatoppur er ögn hærri en næsti á undan, og hver lægðirnar hafa einnig farið smám saman hækkandi.

Síðan hafa ýmis tölvumódel leitt í ljós, að á afmörkuðum svæðum getur orðið kólnun og sýndu sum líkön það í lok síðustu aldar, að orðið gæti svalara í norðvesturhluta Evrópu og einnig úrkomusamara.  


mbl.is Vísbending um kólnandi veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Firring skrifræðisþjóðfélagsins.

Ég er það "gamaldags" að ég komst í gott skap við að aka um sveitir landsins á vorin þegar áburðarlyktin af túnunum fyllir vitin. Enn betra skap við að finna töðuilminn síðsumars.

Mér fannst magnað og gefandi að dvelja í nótt við einfaldan kost uppi á Brúaröræfum og taka á móti hálendisvetrinum í háfjallasólinni eftir snjókomu næturinnar. Ekki hvað síst eftir að hafa verið kvöldið áður í návígi við átök elds, vatns og snævar í Holuhraun Sjá myndir sem ég ætla að segja á facebook frá því í gærkvöldi og í morgun.  

Lykt af lífríkinu og sem beinust snerting við náttúruna og tengsl við hana og hin miklu öfl hennar eru ómissandi hluti af þroska lífssýn og lífsnautn okkar.

Skorti þetta tilfinnanlega myndast smám saman firring þess sem lifir aðeins og hrærist daginn út og daginn inn í exel-skjölum og tölvugögnum og verður smám saman að því sem Vilmundur heitinn Gylfason nefndi svo snilldarlega "möppudýr." 

Sívaxandi skrifræði veldur því að það er engu líkara en margt fólk umbreytist hreinlega og missi tengsl við eðlilegt og beintengt samband við umhverfi sitt, tilveru og viðfangsefni. 

Skrifræðið sjálft og endalaus vöxtur þess er orðið að höfuðhlutverkinu og hið raunverulega viðfangsefni þokar fyrir því.  

Margt að því sem möppudýrin taka upp á virðist benda til þess að þau skorti talvert af skynsemi og velvild.

Ég held ekki að þetta sé þannig, heldur að hið ómanneskjulega og tilbúna umhverfi leiði þá, sem þekkja lítið annað en það,, út á þessa braut.

Lögmál Parksinsons, sem hafa aldrei sannast eins hastarlega og á okkar tímum, fjalla ekki um að fólkið, sem lifir og hrærist i samræmi við þau, sé neitt verr af Guði gert en annað fólk, heldur það að ákveðið umhverfi laðar fram ákveðna eiginleika hjá okkur. 

Einkum er átakanlegt þegar starfsmenn þjónustufyrirtækja og stofnana virðast orðnir firrtir vitund um það hvert sé eðli þjónustunnar, til hvers hún sé, og hvernig þeim, sem njóta eiga hennar eða leita hennar, sé best þjónað.  


mbl.is Fólk kvartar undan sveitalyktinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband