Hægt að færa Gæsavatnaslóðann til.

Gæsavatnaleið um Dyngjuhálsl er einhver magnaðasti og tignarlegasti hálendisslóði landsins í góðu veðri. 

Leiðinni er stundum ruglað saman við nýrri veg, sem liggur í hálfhring norðan við Trölladyngju og stendur hinum syðri að baki hvað landslag og útsýni snertir, en er settur skör ofar með þvi að merkja hann sem sérstakan hálendisveg.

Á syðrir leiðinni efst á Dyngjuhálsi eru flottar gígaraðir og útsýnið af hálsinum allt austur til Snæfells er geysi fagurt.

Ekið er um suðurbrún hins mikilfenglega sprengigígs Urðarháls.  

Slóðin er orðin til með lágmarks raski, nær eingöngu með því að jeppar hafa ekið sama slóðann án frekari tilfæringa.

Þegar komið er niður á Jökulsárflæðurnar tekur alveg nýtt landslag við þar sem ekið er yfir ótal kvíslar Jökulsár sem liggja þétt saman og síðan langa leið um sléttan sand og frá upphafi leiðarinnar á sléttlendinu og algera flata veglínu í austnorðaustur eru um 35 kílómetrar þar til komið er norður á vikrana milli Dyngjuvatns og Vaðöldu. .

Það er á þessum sandi sem nýtt hraun er nú byrjað að renna yfir slóðina eins og hægt verður að sjá á loftmynd, sem tekin var í fyrrakvöld af henni og ég ætla að setja á facebook síðu mína. 

Nokkur vegalengd, á að giska tveir kílómetrar eru enn frá nýja hrauninu á sléttum sandinum yfir í sandorpið hraun sem þekur stórt flatlendi þarna norður af og býður upp á nýtt stæði fyrir slóða þegar núverandi gosi lýkur.

Myndi ný Gæsavatnaslóð koma inn á veginn, sem liggur norður fyrir Trölladyngju heldur vestar en nú er.  

Engin ástæða er til þess að vera með rask til þess að gera nýja slóð. Hún getur komið þegar hraunið er hætt að renna lengra án þess að nota nein verkfæri og orðið svipuð slóðinni, sem hún mætir.

Rökræða kann að verða um það hvort láta eigi nýja hraunið loka þessum syðri slóða fyrir vélknúinni umferð og hafa hana aðeins fyrir göngufólk.

Að svo komnu er það mikið álitamál, því að nú þegar liggur slóði vestar í norður frá syðri leiðinni norður í þá nyrðri sem ekki er eins skemmtileg,-  vantar bæði Flæðurnar og leiðina meðfram nýja hraunjaðrinum, þannig að syðri leiðin öll lokast ekki fyrir bílaumferð nema að loka þeirri leið líka.  

Auk þess er leiðin frá Gæsavötnum um Dyngjuháls til Drekagils meira en 70 kílómetra löng og því öryggisatriði að hægt sé að fara hana á bíl.  


mbl.is Hraunið er komið yfir veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halda haus og horfa "Fram" á við.

Nú, þegar syrt hefur í álinn hjá Fram á lokaspretti Íslandsmótsins, ætti samt ekki að vera ástæða til þess að líta kolsvörtum augum á það, sem liðið hefur verið að gera í sumar. 

Þar vekur athygli að í viðureignum við bestu liðin í deildinni hafa Framarar ekki aðeins átt ýmsa mjög góða leiki, heldur tapað þeim furðu mörgum með litlum mun og jafnvel átt góða möguleika á jafntefli eða sigri.

Þetta hefur verið grátlegt, því að það hefði gagnast Frömurumum mun betur að vera upp á sitt besta og ná í stig frá neðstu liðunum frekar en hinum efstu og slá með því tvær flugur í einu höggi: Annars vegar að fjölga sínum stigum og hins vegar að fækka stigunum hjá þeim liðum, sem helst hafa keppt við Framara um að halda sér í deildinni.

Lið Fram er ungt og sömuleiðis þjálfarinn en geta átt framtíðina fyrir sér, sama hvernig fer í þetta sinn.

Þegar þannig háttar verður að gefa því og þjálfaranum minnst þrjú ár til að bæta sig og safna þeirri reynslu sem tryggir þann stöðugleika og sjálfstraust sem nægir til þess að ná því takmarki sem stefna þarf að.  


mbl.is Stjörnumenn völtuðu yfir Framara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný umgjörð og ný upplifun.

Svartur litur hefur verið yfirþyrmandi á gosstöðvunum í Holuhrauni að undanförnu að undanskildum hinum eldrauðu tungum, sem hafa staðið upp úr gígunum og sindrað í hraunsttaumum þar að næturlagi og í rökkri, sem verður æ lengri hluti sólarhringsins þegar haustar. 

Raunar eru dökkir svartir og dökkgráir litir yfirgnæfandi á þessu svæði þegar það er autt, en fyrir bragðið skera aðrir litir, svo sem grænir litir gróðurvinja og bláir litir vatna, sig enn betur úr en ella.  

Nú bætist hvítur litur vetrarsnævarins við auk þess sem miklar hvítar gufur standa upp úr þeirri hrauntungu, sem hefur teygt sig lengst í norðaustur og er í mikilli glímu við vatnið í Jökulsá svo að sýður hressilega upp úr.

Það var ný lífsreynsla að eiga svefnstað á Sauðárflugvelli í fyrrinótt vegna þess að þá stóð mökkurinn beint í áttina þangað, og þessi staður var miklu nær gosinu en í byggð.

Það var sérkennileg tilhugsun að geta átt von á þvi að ósýnilegt brennisteinsloftið sigi niður af lágum hæðum fyrir vestan völlunn og safnaðist fyrir á þessum stóra slétta fleti, en í slíkum tilfellum getur eitrunin orðið afar lúmsk.

Ráðið við þessu var að aka upp á hæð og vera þar yfir nóttina.

Þegar ég kem suður úr Akureyrarferð á afmælisskemmtun Ragga Bjarna í Hofi ætla ég að huga að því að velja fleiri myndir úr þessari ferð en hafa birst fram að þessu á facebook síðu minni.   


mbl.is Snjóar í Holuhrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband