Enginn vildi hlusta á þetta fyrir átta árum.

Um þessar mundir eru liðin tæp átta ár síðan útlendingur kom hingað til lands til að ámálga hugmyndina um gagnaver, sem notaði íslenska orku. 

Þá stóðu til stórstækkkun á álverinu í Straumsvík, líka á Grundartanga auk þriggja nýrra risaálvera, í Helguvík, á Bakka við Húsavík og í Þorlákshöfn.

Ég veit ekki hve oft ég skrifaði og talaði mánuðina fyrir kosningarnar 2007 um miklu skaplegri notkun á orkunni heldur en til stóriðju og ef færi gafst mátti telja upp helstu kostina svo sem mun hærra orkuverið, fleiri og betri störf fyrir hverja orkueiningu og útblásturslausa starfsemi.

Áltrúarmenn máttu ekki heyra þetta nefnt, - enginn vildi hlusta á "eitthvað annað", jafnvel þótt um orkusölu væri að ræða.

Nú loksins eftir öll þessi ár sést, hve kolröng orkustefnan var 2007 þegar rætt er um að gagnaverðin verði fjórða stoðin í efnahagslífinu.

Stundum er talað um að fara úr öskunni í eldinn en í þessu tilfelli virðist aðal hættan verða sú að í stað rólegrar og yfirvegaðrar orkustefnu renni blint gagnaveraæði á þjóðina svo að hún fari úr eldinum í öskuna og að með gagnaveraæði verði einstæðum íslensk náttúruverðmætum enn einu sinni fórnað á altari virkjanafíkninnar.

En við blasir hve mun betur við stæðum ef við hefðum ekki kastað okkur út í mesta mögulega orkubruðl heims með orkusölu á gjafverði.   


mbl.is Gagnaverin verði fjórða stoðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjan er heilög kýr.

Á sjöunda áratug síðustu aldar var ég í hópi þeirra sem töldu, að stærsta framfaraskref þess tíma yrði að selja raforku landsins til stóriðju. Ástæðurnar voru meðal annars taldar þessar:

1. Við höfum ekki bolmagn til að virkja sjálf fyrir eigin not á nógu hagkvæman hátt. 

2. Meira en 95% bókfærðs útflutnings eru fiskafurðir. Skjóta þarf fleiri stoðum undir þjóðarbúskapinn. Stóriðjan felur í sér stærstu hagrænu möguleikana. 

3. Vegakerfi okkar og innviðir í samgöngum eru þau lélegustu norðan Alpafjalla, nánast á Afríkustigi.

4. Framkvæmdir vegna virkjana og stóriðju eru atvinnuskapandi.

5. Í tengslum við stóriðjuna rís upp viðamikill tengdur iðnaður, svo sem við framleiðslu á vörum úr áli.

Í krafti þessa var lagt út á braut sem fetuð hefur verið síðan og er enn stefna stjórnvalda. Hugtakið "orkufrekur iðnaður" varð að trúaratriði. Stóriðjan varð heilög kýr. "Eitthvað annað" var skammaryrði. Þá varð til trúarsetning Finns Ingólfssonar: "Ef ekki er virkjað stanslaust kemur kreppa og atvinnuleysi. Þegar búið er að virkja allt og ekki hægt að virkja meira verðum við dauð og þá kemur það okkur ekki við, heldur verðu það verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður í landinu."  

Skoðum nú atriðin fimm afturábak: 

 

5. Þetta brást. Það reis enginn stórfelldur framleiðsluiðnaður úr álvörum. 

4. Menn sáu ekki 1965 að atriði númer 4 gat ekki staðist til langframa, þ. e. að skapa atvinnu með stóriðju- og virkjanaframkvæmdum. Þótt x þúsund störf fengjust við hverja virkjun töpuðust sömu x þúsund störf þegar framkvæmdum var lokið. Og x þúsund atvinnulausir til frambúðar þegar síðasta mögulega virkjunin yrði risin. 

3. Vegakerfi okkar og innviðir í samgöngum eru ekki lengur á Afríkustigi. 

2. Sjávarútvegurinn skapar nú aðeins um þriðjung bókfærðs útflutnings. "Eitthvað annað", þ.e. ferðaþjónustan, nýsköpun og menningartengd starfsemi eru stærsti hluti gjaldeyristeknanna. Stóriðjan felur ekki lengur í sér stærstu hagrænu möguleikana því að vegna erlends eignarhalds á þungaiðnaðarverksmiðjunum og lágs orkuverð til þeirra, skila sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan, nýsköpun og menningartengd starfsemi meira en tvöfallt meiri virðisauka inn í þjóðfélagið en stóriðjan.  

1. Það er löngu liðin tíð að við getum ekki virkjað til okkar eigin nota og tekið nógu mikið frá fyrir okkur sjálf. En vegna þess ofurveldis stóriðjunnar að hún er enn ríkistrúarbrögð og notar 80% af orku landsins er þrengt að þessum kosti okkar.

Þrátt fyrir ofangreint halda enn velli stóriðjutrúarbrögðin og trúin á "orkufrekan iðnað", sem er eins og nafnið bendir til mesta mögulega bruðl með orkuna. Það er eins og ekkert hafi gerst síðan 1965.  


mbl.is Raforkan er að verða uppseld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stóra fjarvistarmálið" í rími.

Forystu Íslands féllust hendur. 

Til Frakklands var þess vegna enginn sendur. 

Héðan fór enginn yfir hafið

því enginn er betri en Sigmundur Davíð.

 

Í haust marga daga hann hljóp af þingi.

Samt héldu menn áfram með góðu fulltingi,

Í ljós kom að er yfir efa hafið

að enginn er betri en Sigmundur Davíð.

 

Við endalok valda hans enginn er skaðinn?

Og enginn þarf þá að koma í staðinn?

Þá verður ei utan af því skafið

að enginn er betri en Sigmundur Davíð.  

 

Og nú var Jóhann Jónannsson að vinna Golden Globe verðlaun! Jibbí!  Enn einu sinni sjáum við dæmi um "eitthvað annað" sem getur gefið okkur mikið en gert var gys að árum saman, sem óhugsandi og ómögulegt. 

Já, eins og Bjarni Fel myndi segja: Jóhann Jóhannsson er betri en enginn! 

 


mbl.is Obama gagnrýndur fyrir að mæta ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um hina ráðherrana? Fleiri spurningar en svör.

Þá vitum við það. Tímaskortur hamlaði för íslenska forsætisráðherrans en forsætisráðherrar hinna Norðurlandanna, sem voru í samstöðugöngunni höfðu greinilega nægan tíma sem og aðrir ráðherrar og þjóðarleiðtogar 60 þjóða sem fóru þar fremstir í flokki, sumir komnir um miklu lengri veg en frá Íslandi. 

Í tilkynningu forsætisráðuneytisins segir að boð Frakka hafi ekki verið til forsætisráðherra okkar.? Hvers vegna komu þá hinir forsætisráðherrarnir? Var þeim heldur ekki boðið? Eða var öllum norrænu forsætisráðherrunum boðið nema þeim íslenska? 

Bandaríski dómsmálaráðherrann var í París en sendi sendiherrann. Í Bandaríkjunum hefur þetta verið gagnrýnt og þótt snautlegt. Kannski smá sárabót fyrir okkur, samanber máltækið "Sætt er sameiginlegt skipbrot" og smá endurbót á öðru: "Svo má böl bæta að benda á annað svipað".    

Hafði íslenski innanríkisráðherrann ekki tíma frekar en forsætisráðherrann? Eða utanríkisráðherrann? Eða fjármálaráðherrann, annar af oddvitum ríkisstjórnarflokkanna?

Eins og í lekamálinu og í byssumálinu vekja svörin í þessu máli fleiri spurningar en svör.

Byssumálið, sem hægt hefði verið að afgreiða á einum degi með nákvæmu svari, tók hálfan mánuð í fjölmiðlum og vatt upp á sig, bara vegna þess að það þurfti að toga svörin eitt og eitt upp úr margsaga ráðamönnum með töngum.

Lekamálinu er ekki enn lokið eftir rúmt ár frá því að það hófst.

Hve lengi á þetta mál eftir að malla? 


mbl.is Tímaskortur hamlaði för ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband