Svipaðir grjótgarðar safna sandi um allt land.

Úrræði Landgræðslunnar gegn því að sjórinn hefur brotið niður fjöruna fyrir neðan Vík var það að gera nokkra garða, sem ganga þar út í sjó og drepa strauminn meðfram fjörunni þannig að sandurinn sökkvi til botns og færi þannig landið út.

Svipað má sjá við árfarvegi um allt land. Ég þekki eitt dæmi nákvæmlega eftir að hafa fylgst með árbakka margsinnis árlega með árbakka Blöndu fyrir neðan Hvamm í Langadal.

Með því að rjúfa sveig á ánni sunnar, breyttist straumurinn og fór að belja á fyrrnefndum árbakka.

Vegagerðin lofaði að búa til "tennur" eða litla varnargarða á bakkann úr hluta af þeirr miklu möl sem tekin var úr skriðu Hvammsár til að byggja upp nýjan veg í dalnum.

Það loforð var svikið og því eru aðeins nokkur ár síðan loks var farið í það verk, en þá hafði Blanda brotið nokkra hektara af túninu á bakkanum.

Síðan þessir stuttu garðar voru gerðir, hefur myndast sandur við bakkana og landbrotið hefur stöðvast.

Að sjálfsögðu hefur svipað gerst við Landeyjahöfn og um þetta efni var til dæmis fjallað hér á síðunni þegar farið var í gerð hennar. Grynningarnar þar eiga ekki að koma neinum á óvart og ekki heldur 1,1 milljarður, sem dælingin ein mun kosta, en þá er sleppt öllu því tjóni sem höfn, sem er ónothæf stóran hlut úr ári, kostar.

Ef sagt er að þessi kostnaður nemi 1,5 milljörðum á ári nemur hann um 30 milljörðum á 20 árum.

Það leiðir hugann að því hvort göng út í Eyjar, að gefnu því að þau hefðu verið tæknilega framkvæmanleg, hefðu getað borgað sig upp á svipaðan hátt og Hvalfjarðargöng.

Er eitthvað á móti því að varpa þeirri spurningu upp,-  burtséð frá því hvort sá möguleiki var sleginn af á sínum tíma, sé sleginn af nú eða sleginn af um alla framtíð?

Verkefnið er verðugt, hvernig sem það verður leyst, því að svo mikið leggja Eyjamenn til samfélagsins, bæði í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, að samgöngur við Eyjar verða að vera eins góðar og mögulegt er.    


mbl.is Miklar grynningar í Landeyjahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegasti "forsendubresturinn"?

Hækkun á húsaleigu um 40% á þremur árum lítillar verðbólgu er stærri frétt en svo að það sé auðskilið, af hverju hún hefur hlotið jafn litla athygli og raun ber vitni. 

Ástæðan gæti verið sú, að enn sem komið er, eru húsnæðisleigjendur mikill minnihluti landsmanna og virðist eiga sér mun áhrifaminni talsmenn en hinn stóri meirihluti eigenda húsnæðis. 

Það er til dæmis athyglisvert að hinn svonefndi "forsendubrestur" sem talinn var réttlæta tilfærslu á 80 milljörðum króna að mestu frá skattgreiðendum sjálfum, til þeirra sem hefðu orðið fyrir umræddum forsendubresti, fékk ekki hljómgrunn varðandi þá leigjendur, sem augljóslega guldu fyrir það að forsendubresti húseigendanna, sem þeir leigðu hjá, var velt yfir í leiguverðið. 

Nú heyrast fréttir um hremmingar hjá félögum eins og Búmönnum, og þær líða bara hjá án frekari útskýringa, svo sem á því hvort ekki hafi þar verið um sams konar "forsendubrest" að ræða og hjá þeim sem fengu í gegn skuldaniðurfærslu á dögunum. 

Stórhækkun húsaleigu er stórmál, sem fer furðulega hljótt miðað við það að heil kynslóð ungs fóks stendur nú frammi fyrir öðrum og grimmari veruleika en ungt fólk hefur staðið frammi fyrir í meira en hálfa öld.

Þetta væri minna mál ef þetta unga fólk gæti leitað til góðs framboðs á hentugu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði eins og í nágrannalöndunum. En stöðug hækkun húsaleigu sýnir að svo er ekki, því miður.  


mbl.is Leiguverðið rýkur upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í samræmi við spár en ekki við "kuldatrúna".

Fyrir meira en áratug greindu íslenskir jarðvísindamenn frá því í sjónvarpsfréttum að vegna minnkunar jöklanna af völdum hlýnandi loftslags myndi eldvirkni aukast mikið á Íslandi á þessari öld og eldgosum stórfjölga, einkum undir Vatnajökli og í grennd við hann. Holuhraun gos 3

Nú þegar hafa orðið sjö eldgos á síðasta aldarfjörðungi, þar af þrjú gos á síðustu tíu árum, en spáð er enn tíðari gosum. 

35 millimetra hækkun lands á ári að mati bandarískra vísindamanna kann að sýnast smá tala, en hún samsvarar 35 sentimetrum á áratug og þremur og hálfum metra á öld. 

Þetta er athyglisvert, en athyglisverðara hlýtur þó að teljast, að stór hópur vel menntraðra manna skuli ekki aðeins andmæla því kröftuglega að mesta magn CO2 í andrúmslofti jarðar í 800 þúsund ár skuli valda hlýnun andrúmslofts, og ekki aðeins andmæla því að loftslag fari hlýnandi, heldur jafnvel fullyrða að "loftslag fari hratt kólnandi". 

Íhugun á því hvernig þetta geti gerst í nútíma samfélagi á upplýsingaöld er nefnilega nauðsynleg til þess að skilja af hverju mannkynið er á þeirri leið sem það er á í meðferð þess á jörðinni og auðlindum hennar.  


mbl.is Ísland rís um 35 millimetra á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær eru "varahlutirnir" orðnir of gamlir?

Í frétt um líffæragjafir er þess getið að 18 ára aldur sé skilyrði fyrir því fólk geti gefið líffæri eftir sinn dag. 

Fróðlegt væri að vita hvort eitthvert aldurtakmark er í hinum enda ævinnar, eða hvort það sé matsatriði hvort viðkomandi líffæri sé nothæft. 

Ef eitthvað af mínum líffærum er nothæft, þótt ekki væri nema í neyð, myndi ég láta skrá samþykki mitt fyrir slíkri gjöf. 

Í Danmörku eru lögin víst þannig að fólk verður að lýsa yfir því að það vilji ekki gefa líffæri eftir andlát sitt, en annars teljist aðgerðarleysi sama og samþykki. 

Þetta byggist á því að með sívaxandi tækni vex skorturinn á líffærum og að það megi ekki gerast að óþörfu að manneskja láti lífið vegna þess að það vantaði "varahlut".  


mbl.is Allir geta tekið afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband