Enn eitt dæmið um verðmæti sem hugvit skapar.

Aðdragandinn að uppgangi fyrirtækisins Arctic Trucks er orðinn að minnsta kosti 25 ár.

Á níunda áratugnum urðu miklar framfarir í gerð jöklajeppa, sem byggðust að mjög miklu leyti á tilkomu 38 tommu radial dekkja og 44 tommu dekkja af gömlu gerðinni.

Tvö bílaumboð, Toyota og Bílabúð Benna, voru framarlega í því að láta breyta bílum og Toyota var farið að bjóða kaupendum jeppanna hjá fyrirtækinu upp á slíkar breytingar á skipulegan hátt.

Snillingar á borð við Frey Jónsson voru tæknilegir bakhjarlar að þessum breytingum, því að því fer fjarri að þær snúist bara um að troða hinum stóru hjólbörðum undir jeppana.

Smám saman varð sterfsemin umfangsmeiri og af þessum grunni spratt fyrirtækið Arctic Trucks sem er sífellt að treysta starfsemi sína og framleiðslu með bættri og þróaðri tækni, byggða á hugviti og reynslu.

Landvinningarnir geta verið óþrjótandi, allt frá Suðurheimskautslandinu til eyðimarka í Arabalöndum.

Starfsemi Arctic Trucks byggist sameiginlegu einkenni skapandi greina, virkjun hæfileika og sköpunarmáttar mannsheilans.

Skapandi greinar gefa nú tugi milljarða inn í þjóðarbúskapinn á hverju ári hafa það fram yfir margar framleiðslugreinar að vaxtarmöguleikarnir geta verið óendanlegir svo framarlega sem hægt er að finna vinnuafl til að vinna úr þeim.  


mbl.is Arctic Trucks verði bílavörumerki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verslað með tugi landa eftir hentugleikum.

Þjóðir sem ráða yfir smáþjóðum víla ekki fyrir sér að versla með þær minni eftir því sem vindurinn blæs.

Stundum líkist þetta uppboði þegar stórveldin kalla saman alþjóðlega fundi til þess að "leysa vandamál á friðsamlegan hátt", til dæmis á fundum Bandamanna í Seinni heimsstyrjöldini.

Þá var ríkjum Evrópu skipt upp í áhrifasvæði, og í sumum ákveðið um skiptingu áhrifa innanlands í prósentutölum, til dæmis í Júgóslavíu.

Stalín lyfti ekki litla fingri þegar Bretar hjálpuðu til við að bæla niður uppreisn kommúnista í Grikklandi eftir stríðið og þrátt fyrir mótmæli stjórnuðu Rússar í raun ríkjum Austur-Evrópu að vild í 45 ár eftir stríðið og bældu niður uppreisnir í Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu og Póllandi án þess að þurfa að hafa áhyggjur af hernaðaríhlutun Vesturveldanna.

Síðast núna á fundinum um Sýrland voru þau ríki, sem taka beinan þátt í átökunum í Sýrlandi að reyna að komast að samkomulagi um hvernig völdum eða valdaleysi Assads forseta landsins yrði háttað.

Íslendingar voru svo heppnir 1918 að Danir voru í ákveðnum verslunarhug, rétt eina ferðina enn.

Þeir voru tilbúnir til að gefa Íslendingum kost á að fá fullveldi gegn því að íbúar Slésvík-Holstein fengju sjálfir að ákveða, hvort þeir tilheyrðu Þýskalandi eða Danmörku.

Gæfa Íslendinga hvað varðaði það að eiga Jón Sigurðsson var ekki einungis sá málatilbúnaður sem hann stillti upp og sú forysta sem hann veitti í sjálfstæðisbaráttunni.

Jón var nefnilega afar mikilvægur fyrir Dani sjálfa og sjálfsímynd þeirra vegna yfirburða þekkingar sinnar á norrænni menningu og menningararfi, þar sem Íslendingar höfðu gegnt lykilhlutverki við varðveislu hans.

Íslensk tunga og menningararfur var á við tugþúsundir hermanna.

Danskur maður, Rasmus Kristján Rask, var á krítisku tímabili helsti baráttumaður fyrir varðveislu íslenskrar tungu og menningar og enskur maður beitti sér fyrir varðveislu íslenska hundsins.

Ekki þarf annað en að líta á ástand og stöðu mála á Orkneyjum og Hjaltlandi til að sjá hvaða örlög hefðu beðið Íslendinga undir breskri stjórn.

  


mbl.is Ísland ítrekað falboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unglingalag í efsta flokki.

Á þeim tíma sem lagið Bohemian Rhapsody fór eins og eldur í sinu um heimsbyggðina voru elstu börnin okkar Helgu komin á táningsaldur eða á leiðinni inn í táningsárin og framundan var rúmur áratugur í heimilislífinu með kunningjahóp þeirra á þessum viðkvæma aldri sem heimilisvini.

Það var ekki hægt að komast hjá því að verða var við hve mikil áhrif lagið hafði á unglingana sem voru á erfiðustu mótunarárum sínum og stundum álíka ringluð og óskiljanleg og textinn í laginu.

Ég er ekki frá því að þetta lag sé í efsta flokki sem unglingalag vegna þess hve áhrifamikið það er fyrir tilfinningalífið á þessum mikilvæga og viðkvæma aldri.


mbl.is Óskiljanlega lagið sem allir elska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband