Beint í kjölfar yfirlýsingar forsætisráðherra.

Yfirlýsing fulltrúa Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur um stöðvun í hjólreiðaáætlun borgarinnar kemur í beinu framhaldi af loforði forsætisráðherra á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um að Ísland ætli að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir 2030.

Sveinbjörg Birna telur það vera rök í málinu að hjólreiðar séu hættulegar vegna slæms veðurs í borginni.

Þetta stangast á við mína reynslu af hjólreiðum á reiðhjóli með rafmagnshjálparafli í hálft ár.

Sjálfur var ég með alls kyns nýtilkomna fordóma gagnvart hjólinu þegar ég byrjaði að hjóla, - ég segi nýtilkomna, því að það var eins og ég væri alveg búinn að gleyma því hvernig maður fór allra sinna ferða á reiðhjóli mestallt árið á unglingsárunum.

Sveinbjörg Birna gleymir því að hjólreiðar koma ekki að fullu í stað notkunar bíla og almenningsfarartækja, en geta hins vegar sparað mikla fjármuni séu reiðhjólin notuð, þótt ekki væri nema í helmingi þeirra tilfella sem ferðast þarf innan borgarinnar.

Það er enginn að tala um að það þurfi að nota reiðhjól þegar veður eru verst á veturna, en meirihluta ársins er hægt að nota þau.

Svolítill vindur og rigning eru engin hindrun. Auðvelt er að hafa í tösku á hjólinu léttan regn- og vindgalla og hlýjan en þó léttan fatnað til að halda á sér hita.

Ég er með þríuppskorin, slitin og veik hné, en með því að stilla samstilla notkun þeirra við notkun rafaflsins, hafa hnén stórbatnað og ég hef ekki verið betri í þeim í meira en tíu ár, þvert ofan í það sem ég óttaðist!

Þótt ég eigi heima við Spöngina, austast í Grafarvogi, hef ég komist upp í það að fara allra minna ferða í heila viku á borgarsvæðinu á hjólinu og fór einn daginn alls 50 kílómetra.

Eldsneytissparnaðurinn þessa einu viku nam 5000 krónum og þennan tiltekna mánuð hefur hann líkast til verið alls um 15000 krónur.

Þegar haft er í huga hve margir búa í þéttbýli á landinu sést ljóslega, hve gríðarlegar fjárhæðir samtals getur verið um að ræða að ekki sé talað um minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Þegar talað er um hættu samfara hjólreiðum er í fyrsta lagi ljóst að hún er ekkert meiri en á bílum og  ekki mun hún minnka ef hætt verður að sinna hjólreiðastíganetinu.

Það má endurbæta og gera þennan ferðamáta síst hættulegri en bifreiðaakstur.


mbl.is Hafi ekki efni á hjólreiðaáætluninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af mörgum atriðum til bóta í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Athyglisvert hefur verið að sjá hvernig einstök atriði í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár hafa með nokkuð reglulegu millibili komið upp í þjóðmálaumræðunni á sama tíma sem valdaöflin í landinu standa fast á móti þörfum breytingum.

Nú síðast eru það ákvæðin um kjör forseta Íslands.

Með þessu háttalagi er málinu drepið á dreif og það tafið.

Ferill þess hefur nú staðið í meira en sex ár án þess að nokkuð hafi enn fengist fram.


mbl.is Forseti þurfi meirihluta atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stendur sig enginn betur en Íslendingar" ??

Í olíukreppunni sem brast á 1979 gripu Íslendingar til þess ráðs að fara út í hitaveitur og gufuaflsvirkjanir við Kröflu og síðar á Nesjavöllum.

Þótt með þessu væri stórlega dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis hefði þetta þó vart verið gert nema vegna þess að hin innlenda orka var miklu ódýrari og sparaði þar að auki gjaldeyri.

Síðan þessi miklu umskipti byrjuðu fyrir alvöru eru liðin 35 ár og því er það ansi billegt að gaspra nú: "Það stendur sig enginn betur en Íslendingar."

Í aðdraganda Hrunsins komum við okkur upp mest mengandi bílaflota í okkar heimshluta og erum aftarlega á merinni við að vinda ofan af því en fjarri því að standa undir þeirri síbylju fullyrðingu að enginn standi sig betur en Íslendingar um þessar mundir við að minnka notkun jarðefnaeldsneytis fyrir bíla- og skipaflotann.

Það er líka billegt að kasta sér á bak við heildarstefnu ESB og Noregs varðandi 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda þegar ekki er vitað hvað kemur út úr því hvað varðar okkur sérstaklega.

Ég fer ekki ofan af því að það hafi verið full ástæða til þess að vekja með aðgerðinni "Orkuskipti - koma svo!" í sumar athygli á slakri frammistöðu okkar miðað við þá einstæðu aðstöðu sem við erum í til þess að taka raunverulega forystu á borði ekki síður en í orði.  


mbl.is Enginn í NY misskildi Sigmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband