Loks leyst úr langvinnum vandræðum?

Furða er hve lengi það hefur dregist að gefa notendum facebook kost á að nota eitthvað annað en "like" til að gefa til kynna viðbrögð sín við ýmsu sem þar birtist.

"Like" þarf nefnilega ekki endilega að þýða samþykki við því sem lækað er við og olli þetta vandræðum nýlega vegna þess að viðkomandi var sakaður um að hafa haft velþóknun á ákveðnum atriðum sem birtust á facebook og taka með því afstöðu í málum, sem gerði hann vanhæfan.

Ef stillingin "reactions" hefðí verið til og hún notuð í þessum tilfellum, hefði þetta mál líkast til aldrei risið.  


mbl.is „Like“ hnappurinn að breytast?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnd veiði en ekki gefin.

Ef niðurstöður borgarstjórnarkosninga yrðu svipaðar og í skoðanakönnun Viðskiptablaðsins gætu Píratar knúið fram það stefnumál sitt að kosið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu eða atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Þeir urði að kyngja þessu grundvallarstefnumáli sínu við myndun núverandi borgarstjórnarmeirihluta þótt það hafi ekki farið hátt.

Einn mjög stór óvissuþáttur er fólginn í skoðanakönnunum varðandi fylgi Pírata í kosningum, sem hefur komið skýrt í ljós í undanförnum kosningum.

Grunnnfylgi þeirra er meðal fólks sem aðhyllist sem mesta notkun netsins, ekki hvað síst í stjórnmálum.

Þetta fólk hefur verið það tregt til að fara á kjörstað, að minnstu munaði að Píratar fengju engan þeirra þriggja þingmanna, sem þeir rétt mörðu að fá í Alþingiskosningunum 2013, vegna hins ósanngjarna ákvæðis í kosningalögum um 5% atkvæðaþröskuld.

28% fylgi í borginni samkvæmt skoðanakönnun er því sýnd veiði en ekki gefin.

En jafnvel þótt Píratar fengju "aðeins" um 20% atkvæða í borgarstjórnarkosningum, yrði staða þeirra mun sterkari til að fara ekki í borgarstjórnarsamstarf nema grundvallaratriði stefnu þeirra varðandi beint lýðræði fáist fram.


mbl.is Píratar stærstir í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á Balkanskagann fyrir rúmri öld.

Balkanskaginn var nefndur "órólega hornið á Evrópu" í upphafi 20. aldarinnar. Þar rákust á hagsmundir Rússa, Tyrkja, Austurríkismanna, Þjóðverja, Breta og Frakka og þess vegna voru þar staðbundin stríð og átök þótt friður ríkti við önnur landamæri Evrópu, norðar í álfunni.

Á nýlendusvæðum í Norður-Afríku höfðu stórveldin stundað samningapólitík, en á Balkanskaganum var hins vegar vettvangur fyrir beinni átök og vopnaglamur.

Í gangi var heiftúðugt vopnakapphlaup á höfunum.

Allt fór þetta úr böndunum þegar serbneskur þjóðernissinni myrti ríkisarfahjónin austurrísku.

Núna er hafið vopnakapphlaup á höfunum og "órólega hornið" er í Miðausturlöndum eftir að "arabíska vorið" snerist upp í andhverfu sína.

Rússar eru á ný aðilar að stríðsleikjum og hernaðarbrölti sem Vesturveldin áttu mestan þátt í að koma af stað með allt öðrum afleiðingum en þau höfðu vonast eftir.

Óvænt morð á ríkisarfa setti allt í bál og brand 1914. Enginn hafði séð það fyrir og á sama hátt er ekki víst að menn sjái óvænta uppákomu nú fyrir með afleiðingum í formi atburðarásar sem fer úr böndunum.

 


mbl.is Rússar valda vandræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband