Óljóst um samábyrgð.

Hvað eftir annað í stjórnmálasögu landsins hefur það gerst, að einstakir ráðherrar komist upp með ýmislegt umdeilanlegt, af því að samábyrgð annarra ráðherra í ríkisstjórn, er ekki skýr.

Þetta er mun meira áberandi hér á landi en í nágrannalöndunum og getur stundum verið bagalegt.

Í öðru lagi hefur samábyrgð Íslendinga með öðrum þjóðum í alþjóðlegu samstarfi stundum verið umdeilanleg.

Íslendingar gengu til dæmis ekki í Sameinuðu þjóðirnar fyrr en árið 1946 af því að við vildum ekki segja Öxulveldunum stríð á á hendur á meðan á stríðinu stóð.

Ýmis dæmi má nefna um það þegar einstakir ráðherrar hafa tekið sér vald, sem þeir ættu ekki að geta gert einir, heldur yrði viðkomandi ríkisstjórn að vera samábyrg um það.

Þannig tók Ólafur Jóhannesson sér býsna mikið vald í viðræðum við breska ráðamenn í deilunni um 50 mílna landhelgina.

Og hann samdi og lagði fram einn frumvarpið um verðtrygginguna á útmánuðum 1979, - lög, sem enn í dag vefjast fyrir stjórnvöldum.

2003 tóku tveir ráðherrar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson af skarið varðandi það að Íslendingar yrðu á lista yfir "viljugar þjóðir" og hefur mikill meirihluti landsmanna verið ósáttur við það æ síðan.

2010 drógumst við inn í hernaðaraðgerðir gegn Gaddafi einræðisherra í Líbíu og um það réði Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra mestu, en ráðherrar Vg fóru undan í flæmingi þegar gengið var á þá um aðild þeirra eða ábyrgð á þessu.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að samábyrgð (kollektiv) ríki um svona ákvarðanir í ríkisstjórn, og að einstakir ráðherrar geti því aðeins sagt sig frá henni, að þeir láti bóka um það sérstaklega á ríkisstjórnarfundi. 

Þegar litið er til baka er ljóst að hin herlausa þjóð Ísland hefði betur látið það ógert að taka á sig ábyrgð á því sem gerðist í Írak 2003 og í "arbíska vorinu" 2010.

Komið hefur í ljós að hvað eftir annað bregst vestrænum leiðtogum bogalistin við að meta þjóðfélagsástandið hjá fjarlægum þjóðum við aðstæður og hugsunarhátt sem er gerólíkir því sem við þekkjum.   


mbl.is Studdi ekki hernaðaraðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kansellísstíll og veðurfregnir með dönskum hreim.

Varla er fullveldisdagurinn liðinn þegar skilaboð frá íslenskri ríkisstofnun, Veðurstofunni, eru lesnar með áberandi dönskum hreim lesarans.

Og á hinni útvarpsstöðinni glitrar á danskan kansellístíl þegar lesið er:

"Fjöldi þeirra, sem leita aðstoðar hjá Mæðrastyrksnefnd, er álíka mikill og í fyrra"

þegar einfaldlega var hægt að segja:

"Álíka margir leita til Mæðrastyrksnefndar og í fyrra."

Í fyrri setningunni eru óþarfa málalengingar sem eru til ills eins, en þetta var eitt af einkennum hins svonefnda danska kansellístíls á 19. öld, þar sem óþarfa málskrúð og málalengingar voru alls ráðandi og þótti fínt, og því fínna sem spuninn var lengri og erfiðara að skilja hann.


mbl.is RÚV sýnir tvö jóladagatöl í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur. Eins og hjá nýlenduþjóð.

Dagurinn í dag er svartur dagur í sögu verkalýðsbaráttunnar á Íslandi.

Lyktir vinnudeilunnar í Straumsvík minnir á nýlendutímana, sem á pappírnum á að vera lokið, en eru það ekki, því að alþjóðleg stórfyrirtæki sjá um það sem nýlenduþjóðirnar gerðu áður; að láta hina innfæddu finna fyrir valdinu.

Sigur Rio Tinto er alger: Starfsmenn neyðast til að fórna verkfallsréttinum og því að fá kjarabætur á borð við aðra launþega landsins til þess að verjast því að þeir verði að stórum hluta og í vaxandi mæli reknir og í staðinn teknir verktakar á lægstu launum eftir útboð.

Verkalýðsfélagið átti um þrjá afarkosti að velja: Að vera sakaðir um að hafa valdið því að Rio Tinto lokaði álverinu, að sætta sig við að verða reknir og verktakar teknir inn í staðínn, eða að leggja niður rófuna án launahækkana eins og nú er orðin raunin.

Rio Tinto hefur grætt vel á álverinu undanfarin ár og tímabundið tap var því ekki raunveruleg ástæða fyrir því að loka og hætta.

Hin raunverulega ástæða er að láta kné fylgja kviði í samskiptum við starfsmenn, knésetja þá og fá sitt fram.

Áltrúarmenn hljóta að fagna þessu mjög, því að sjá mátti á netinu að þeir kröfðust þess að ríkisstjórnin bannaði verkfallið.

En þess þurfti ekki. Og ferill Rio Tinto í gegnum tíðina í þriðja heiminum er slíkur, að ekki var við öðru að búast en að það svinbeygðu starfsmenn sína í duftið.

Hér eftir verður þessum herrum auðvelt að fara sínu fram að vild.

Blaðafulltrúa fyrirtækisins varð það óvart á árið 2007 að nota orðið "grímulaust" um stefnu eigenda álversins.

Nú sést að það er rétta orðið í þetta sinn og væntanlega framvegis. 


mbl.is Verkfallinu aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband