Eilíf spurning smáþjóðar.

Allt frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki 1918 hefur nagandi spurning verið á sveimi um fullveldi landsins.

Danir önnuðust vörslu lögsögu okkar umhverfis landið, þ.e. 3ja mílna landhelginnar allt fram á fimmta áratug aldarinnar.

Þeir gátu, hvenær sem þeim sýndist, sent sín vopnuðu skip í hvaða aðgerð sem þeim sýndist, "jafnvel þótt ekki væri beðið um aðstoð".

Á stríðsárunum hélt lögregla þriggja þjóða, Íslendinga, Breta og Bandaríkjamanna, uppi löggæslu, eftir því sem við átti.

Sama ár og lýðveldið var stofnað, framseldum við hluta valdi okkar í flugmálum til Alþjóða flugmálastofnunarinnar og hefur svo verið síðan. 

Með aðild að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkjamenn höfum við afsalað okkur hluta af gæslu í íslenskri lögsögu þegar aðstæður eru taldar gera það nauðsynlegt.

Allar svona ráðstafanir geta verið umdeilanlegar og eiga að sæta sífelldri og vandaðri rökræðu og skoðanaskiptum.     

 


mbl.is „Jafnvel þó ekki sé beðið um aðstoð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir oft yfirsterkari en hugsjónir hjá stórveldum.

Sagan sýnir að þegar beinir valda- og efnahagslegir hagsmunir eru knýjandi, víkja stjórnmálalegar og trúarlegar hugsjónir, sem ráðamenn þjóða bera fyrir brjósti, oft fyrir þeim. 

Vart verður tölu komið á þær spilltu einræðisstjórnir sem Bandaríkjamenn hafa stutt víða um heim í þágu beinna stórveldishagsmuna.

Stjórn Sádi-Arabíu er lýsandi dæmi um það.

Og fögur orð sovéskra og síðar rússneskra ráðamanna, "Sinatra-kenningin" svonefnda um sjálfsákvörðunarrétt þjóða í austanverðri Evrópu ( Sinatra-kenningin = My way), stóðst ekki áhlaup beinna hagsmuna, sem Rússar skilgreindu sem beina öryggishagsmuni sína.

Þeir hagsmunir eru sama eðlis og öryggishagsmunir Sovétríkjanna sálugu voru.   


mbl.is Vilja ekki endurreisa Sovétríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi varðveislu gamals borgarmynsturs.

Á uppbyggingarárunum eftir Seinni heisstyrjöldina reið yfir mikil endurreisn evrópskra borga, og voru farnar mismunandi leiðir í því efni en þó aðallega tvær.

Annars vegar með gagngerðri uppbyggingu með byggingu gler- og steinsteypuhalla þar sem loftárásir höfðu gereytt gömlum borgarhlutum eða þá niðurrifi á gömlum húsum og byggingu stórra steinsteypu-, stál- og glerhalla í staðinn.

Á Íslandi birtist þetta meðal annars í hugmyndum um niðurrif "ónýtra fúaspýtukofa" á borð við Bernhöftstorfuna þar sem átti í staðinn að reisa nútímalegan stóran steinsteypuklump yfir stjórnarráð Íslands.

Í Stokkhólmi og fleirum borgum ruddu steinsteypukassarnir lægri og vinalegri húsum burtu, og telja margir Svíar nú að þar hafi verið gengið of langt og að þessi hluti borgarinnar sé full kaldranalegur og fráhrindandi.

á hinn bóginn var í sumum eyddum borgarhlutum í Evrópu endurreist hin fyrri byggð.

Sumar borgir eins og Prag sluppu bæði við loftárásir og niðurrif í þágu steypukassastefnunnar og hafa notið síns gamla sjarma síðan.

Baráttan fyrir varðveislu hinnar aðlaðandi og vinalegu ásýndar og dýrmæts menningarsögulegs gildis hins gamla miðbæjar Reykjavíkur hefur staðið fram á þennan dag, en endurbygging húss í gamla miðbænum, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is er vonandi eitt af táknum um að sú barátta hafi ekki verið háð til einskis.   


mbl.is Endurbyggt í upprunalegri mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðræðið sterkasta aflið.

Þegar verið er að leggja mat á það hver séu valdahlutföllin í heiminum á milli lýðræðis og annarra stjórnarforma, milli trúarbragða eða á milli stórvelda eða ríkjahópa gleymist lang valdamesta fyrirbrigðið, - auðræðið.

Auðræðið, hið yfirgengilega vald gríðarstórra alþjóðlegra auðhringa, er jafn mikið og raun ber vitni, vegna þess að það teygir anga sína inn í króka og kima allra forma stjórnmála, trúarbragða, ríkja og ríkjahópa og stjórnar og drottnar yfir gangi alþjóða efnahagsmála.

Núverandi forstjóri Landsvirkjunar var áður forstjóri Marels  og vakti fyrst athygli mína á fundi Verslunarráðs í ársbyrjun 2007, þar sem hann tætti í sig þáverandi orkuverðstefnu Landsvirkjunar á hreinum viðskiptalegum forsendum.

Fyrir tveimur árum sagði hann á opnum fundi Lv að á öllum þeim hundruðum samningafunda fyrirtækisins, sem hann hefði setið, hefði hann aldrei heyrt orðið sanngirni nefnt.

Risastórir auðhringar eru að byrja að sýna Íslendingum klærnar vegna þess að nú loksins hefur Landsvirkjun uppi tilburði til þess að fá aanngjarnt og eðlilegt markaðsverð fyrir dýrmæta orku.  

Það er ömurlegt að sjá hvernig sumir, þeirra á meðal talsmenn verkalýðsfélaga, virðast kikna í hnjáliðunum og taka málstað hinna erlendu auðhringa með þeirra dðkku fortíð.        


mbl.is Vilja ekki hugmyndafræði auðhringa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband