Nýrnagjafinn sem gaf sjálfum sér lífið.

Það er varla hægt að hugsa sér meira göfuglyndi en að gefa frá sér líffæri á borð við nýra.

Ég þekki eina sögu af fyrirhugaðri gjöf á nýra þar sem sagan tók óvænta stefnu.

Vinur minn einn ákvað að gefa bróður sínum nýra, en áður en til þess kæmi, varð hann að láta skoða nýru sín.

Þá kom óvænt upp úr kafinu, að hann var kominn með krabbamein í annað nýrað og mátti teljast heppinn að það uppgötvaðist á síðustu stundu.

Sjúka nýrað var því tekið úr honum, en þar með gat hann ekki gefið bróður sínum heilbrigða nýrað, heldur var það viðfangsefni leyst á annan hátt.

En ef þessi göfuglyndi maður hefði ekki ákveðið að gefa nýra sitt er óvíst að hann væri á lífi í dag.  


mbl.is Skólabróðir gaf Gyðu nýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki neinn smáræðis sparnaður.

Mismunurinn á olíuverði og verði á raforku hefur ekki verið mikið í hávegum hafður, en kemur glögglega í ljós þegar tölurnar um sparnað á rafdrifnum nýjum Herjólfi eru skoðaðar, 3,4 milljarðar á 20 árum miðað við olíukostnað.

Sparnaðurinn nær yfir allt samgöngusviðið, allt frá stórum farartækjum niður í eins manns hjól. Náttfari við skrifborðið

Það sást glögglega á því þegar hjólað var á rafdrifnu hjóli milli Akureyrar og Reykjavíkur fyrir aðeins 115 krónur.

En hann sést líka vel þegar skoðaður er kostnaðarmunur innanbæjar þar sem notkun rafhjóls er fyllilega raunhæfur kostur, einkum á stuttum leiðum í þéttbýlum hverfum, þar sem rafhjólið er í mörgum tilfellum ekkert lengur á ferðinni en bíll, heldur jafnvel fljótara.

Og engin vandræði með að finna ókeypis stæði.  

Ég hafði ímyndað mér að vegna þess að flestar vegalengdir væru langar frá heimili mínu í Spönginni myndi það fella rafhjólið.

En eftir níu mánaða reynslu liggur fyrir að hægt er að nota hjólið allt árið og að minnsta kosti í helmingi allra ferða.

Meðalakstur minn innanbæjar er um tíu þúsund kílómetrar á ári, en hlaupandi kostnaður af þeim akstri eru 550 þúsund krónur samkvæmt taxta opinberra starfsmanna, en 1,1 milljón ef allt er talið með í rekstri bílsins.

Ef aksturinn er rúmir 800 kílómetrar á mánuði verður orkukostnaðurinn miðað við bensínbíl með 8 lítra á hundraðið 13 þúsund krónur.

Reynslan í níu mánuði sýnir að hjólið má nota í minnst helmingi þessara ferða, og er sparnaðurinn því minnst 6-7 þúsund krónur á mánuði eða um 80 þúsund krónur á ári, því að orkan fyrir hjólið kostar aðeins 0,25 krónur á kílómetrann eða 100 krónur fyrir allan mánuðinn! 

Þá er ekki talinn með sá sparnaður sem felst í því að reiðhjól er margfalt ódýrara í viðhaldi og rekstri en bíll, og opinber gjöld eða tryggingar af reiðhjóli eru 0 krónur.

Að meðaltali sparar bíllinn 7-9 mínútur á algengustu ferðaleiðinni, sem er frá Spönginni niður að Háaleitisbraut. En ávinningurinn er hin góða tilbreyting fyrir hugarstarfið og hressandi hreyfing og útivera.


mbl.is Rafdrifin ferja spari milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg nýjar aðstæður.

Stórvaxandi myndatökunotkun síma hefur skapað nýjar aðstæður varðandi gögn um ýmsa atburði. Sama er að segja um öryggismyndavélar.

Á YouTube má sjá svakalegar myndaraðir, sem teknar hafa verið erlendis af óhöppum, slysum og hvers kyns uppákomum.

Myndskeiðið af árekstri fyrir rúmri viku sýnir, að bílstjórinn í bílnum, sem myndavélin var í, fylgir auðum förum á sínum kanti og hefur fulla stjórn á sínum bíl, en bílstjórinn á Benzinum, sem kemur á móti, gerir þetta ekki sín megin á veginum, heldur lætur hjólin vera á flughálku utan við auðu hjólförin.  

Ef myndavél er alltaf höfð við höndina, geta myndskeiðin orðið að fréttum, samanber 7. nóvember 2007, þegar ég átti fyrir algera tilviljun leið akandi fram hjá brautarenda Egilsstaðaflugvallar og sá Fokker flugvél koma á sama augnabliki í aðflugi að brautinni með aðeins annan hreyfilinn virkan, en slökkt á hinum.

Þetta fór að sjálfsögðu í 10 fréttir sjónvarpsins og samstarfsfólk mitt kallaði mig í gríni Forrest Gump Íslands um sinn eftir þetta.

Atvikið dró dilk á eftir sér varðandi mig og hefur kostað mig drjúgan skilding, því að ég komst að því við að kynna mér málsatvik, að í upphafi þessa flugatviks hafði drepist á báðum hreyflunum yfir Brúaröræfum og farþegunum tilkynnt að vera við því búnir að nauðlenda einhvers staðar utan flugvalla á hálendinu. 

En síðan hrökk annar hreyfillinn í gang, en farþegar fengu skiljanlega áfallahjálp eftir lendingu á Egilsstöðum.  Fjórum árum síðar fékk flugvöllur á Brúaröræfum alþjóðlega viðurkenningu og skráningu sem brúklegur lendingarstaður fyrir allar flugvélar, sem notaðar eru í innanlandsflugi hér á landi.

Ef ég hefði ekki verið staddur með myndavél við brautarendann hefði ég aldrei kafað ofan í þetta atvik sem varð slík hvatning til aðgerða.

Myndskeiðið af hörðum árekstri í Ljósavatnsskarði fyrir rúmri viku er hrollvekjandi, því að það sýnir hve berskjaldaðir ökumenn geta verið gagnvart ökumönnum, sem koma á móti þeim og missa skyndilega stjórn á bílum sínum.

Stundum gerist þetta vegna syfju ökumanna en stundum af öðrum ástæðum, sem hinn grandalausi ökumaður getur engan veginn séð fyrir.

Að þessu leyti er spiluð endalaus rússnesk´rúlletta í umferðinni, nema að samlíkingin er dálítið fjarstæðukennd vegna þess hve líkurnar eru margfalt minni í bíl í umfeðinni en þegar byssu er beint að höfði með einu virku skothylki en öðrum óvirkum.


mbl.is Birti myndband af árekstrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríska lögreglan í vanda, ný viðbrögð.

Fróðleg umfjöllun um fjölgandi fjöldamorð í Banaríkjunum og viðar var í 60 mínútum.

Í henni kom fram að bandaríska lögreglan er að endurskoða allt verklag sitt þegar svona atburðir eiga sér stað og einnig þurfa borgararnir, sem fyrir barðinu á svona árásum verða, að breyta viðbrögðum sínum.

Aðalatriðið er það, að morðingjarnir eiga sér yfirleitt aðeins eitt takmark; að drepa eins og marga á eins stuttum tíma og þeir geta og fá eins mikla auglýsingu út á ódæði sín og mögulegt er.

Ef lögreglan eyðir löngum tíma í að ráðast til atlögu og eyðir tímanum í að reyna að rökræða við glæpamennina eða semja, verður niðurstaðan oftast sú, að árásarmennirnir fá það sem þeir sækjast mest eftir, sem mestan tíma til að drepa sem flesta og auglýsa ódæðið sem best.

Í slíkum tilfellum verður að stytta morðtímann og áróðurstímann sem mest, og láta það til dæmis hafa forgang fram yfir það að fara að hjúkra særðum.

Einnig er niðurstaðan sú, að lögreglan eigi ekki að bíða eftir víkingasveit, heldur vera þannig búin, að hún geti þegar í stað gripið til varna með vopnabeitingu.

Og skástu viðbrögð þeirra sem ráðist er á, er að flýja þegar í stað og óhikað.

Þessi nýju viðbrögð kunna að sýnast harkaleg, en þeir, sem eru að innleiða þau, byggja á reynslu og rannsóknum, sem þeir telja sig verða að hafa til hliðsjónar og sýna fram á, að þannig sé hægt að bjarga flestum mannslífum.  


mbl.is Ofbeldi án hliðstæðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband