Bjóst einhver við því?

Bjóst einhver við því að sykraður matur og drykkir myndu lækka í verði eftir afnám sykurskattsins? 

Ekki ég. 

Það er hægt að plata suma stundum en ekki alla alltaf. 

Býst einhver við því að í fyrsta sinn í 90 ár standi verðlag í stað eftir kjarasamninga um afnám smánarlega lágra lægstu launa og hækkun lágmarkslauna upp í 300 þúsund krónur á mánuði? 

Ékki ég. Ég yrði að minnsta kosti hissa ef slíkt gerðist núna, allt í einu, í fyrsta sinn. 


mbl.is Lækkun á sykurskatti skilar sér ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látið drauminn rætast!

Herranótt er elsta leikhefð og upphaf leikhúss á Íslandi. Það voru því blikur á lofti 1957 þegar upp komu hugmyndir um að leggja hana niður vegna mikils tapreksturs. Voru sýningar hennar þó mun fyrirferðarmeiri í leiklistarlífi Reykjavíkur þá en síðar, og leikdómarar fjölluðu um hana í dagblöðum. 

Menntaskólakennarar með Einar Magnússon í broddi fylkingar tóku þá af skarið varðandi það að gefa Herranótt eitt tækifæri til þess að verða taplaus. 

Leiknefndin, undir eftirliti Einars, stórjók sjálfboðavinnu og setti markið hátt með því að taka fyrir leikritið "Vængstýfða engla" í Herranótt 1958, sem bróðir eins menntaskólakennarans, Bjarni Guðmundsson, þýddi af snilld. 

Þetta þótti fífldirfska, því að kvikmyndin "Vængstýfðir englar" skartaði fremstu kvikmyndaleikurum þess tíma, Humpfrey Bogart, Peter Ustinov og Aldo Ray. 

Skemmst er frá því að segja að Herranótt var bjargað, því að sýningin sló í gegn með á annan tug sýninga, meðal annars úti á landi, og gróðinn af sýningunni nægði til að borga skuldir Herranætur og gott betur. 

Árið eftir, 1959, var markið sett enn hærra og fífldjarfara með því að sýna Þrettándakvöld eftir William Shakespeare. 

Og þótt ótrúlegt megi virðast, tókst enn betur til en 1958 og fékk sýningin afbragðs dóma.

Leikritin voru ólík, sem af dirfsku og ákefð voru sett á svið þessi tvö ár, og viðfangsefni Herranætur nú er af enn einum toga.

En það er ástæða til að óska Herranótt til hamingju með það að sækja fram af dirfsku undir kjörorðinu: Látum drauminn rætast! Það stekkur enginn lengra en hann hugsar!  


mbl.is Færa Herranótt á annað „level“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gangur náttúrunnar.

Sú var tíð fyrir um hálfri öld að mikil bjartsýni ríkti um að útrýma fjölda sjúkdóma, sem herjað hafa á mannkynið. Þá þegar hafði verið unninn bugur á berklum,mænuveiki, holdsveiki og syfilis, og mislingar og fleiri sjúkdómar í sigtinu, auk þess sem uppfinning töfralyfsins penesilíns var eitthvert mesta framfaraspor í sögu læknisfræðinnar.

Fyrir um aldarfjórðungi fór að slá á þessa bjartsýni þegar alveg nýr og óþekktur sjúkdómur, alnæmi, fór að leggja fólk í gröfina þúsundum saman.

Langan tíma tók að finna svar við alnæminu, en um svipað leyti fóru stökkbreyttir ónæmir sýklar að sækja fram og í gang fór kapphlaup lyfja og sýkla, sem stendur enn og sér ekki fyrir endann á.

Allt er þetta sennilega hluti af því lögmáli lífs og náttúru að sífelld þróun og breyting er í gangi í lífríkinu og verður svo lengi sem það er við lýði.

Þetta kann að þykja drungaleg framtíðarsýn en það er betra að reyna að gera sér grein fyrir raunverulegu ástandi en að einblína á tálvonir.    


mbl.is Nýuppgötvuð veira er sögð vera bráðdrepandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldaniðurfellingin orðin að styrk til bankanna?

Karl Garðarsson alþingismaður vakti athygli á því á þingi með pappír upp á það í höndunum, að bankar og fjármálastofnanir væru nú að graðga í sig sem næmi nýgerðri "skuldaleiðréttingu til heimilanna" á þann hátt að halda uppi svo háum vöxtum, að skuldararnir fengju ekki krónu í sinn hlut.

Haldið er uppi vöxtum um 8% á sama tíma og verðbólga er nær engin.

Hvað skyldi síðan gerast þegar og ef verðbólgan fer af stað? Endar það þannig að "skuldaniðurfellingin" verði neikvæð eftir allt saman?  


mbl.is Pínleg gagnrýni á banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúir til enda.

Willy´s jeppinn, sem kom fram fyrir tæpum 75 árum var að sönnu tímamótabíll, sá fyrsti sem viðráðanlegt var að eignast og opnaði vegleysur úm allan heim, eitt af fimm tækjum, sem Eisenhower yfirhershöfðingi sagði að hefðu ráðið úrslitum um sigur Bandamanna í Seinni heimsstyrjödlinni. 

Eitt af grunnatriðum jeppans var hátt og lágt drif og heilir driföxlar. Jeep Wrangler Rubicon

Nýtingin á rýminu í jeppanum var ekki upp á hið besta. 15 sentimetrar milli framhjóla og farþegarýmis nýttust ekki fyrir farþegarýmið og aðeins fjórir eða í mesta lagi fimm gátu setið í bílnum. Farangursrýmið í því tilfelli var ekkert.Land Rove Defendar

Land Rover kom með aðra byltingu 1948. Með tiltölulega lítilli breytingu, aðeins 10 sentimetra breikkun og 30 sentimetra lengingu gátu þrír setið frammi í og fjórir aftur í eða samtals sjö.UAZ 469 Patriot

Og gírarnir voru fjórir í stað þriggja. 

GAZ 69 "Rússajeppinn" kom með þriðju byltinguna 1953 þegar farþegarýmið var fært fram á grindinni um 30 sentimetra og öxlarnir lengdir svo að menn sátu á mun betri stað í rýminu og það var heilmikið farangursrými í Rússanum. Hann var auk þess 13 sentimetrum hærri undir kviðinn en hinir jepparnir, þar sem full lágt var undir millikassann. Mercedes Benz G-Wagen

Auk þess voru þyngdarhlutföllin mun betri en í Willys og Land Rover og fjaðrirnar lungamjúku hafðar ofan á öxlunum, svo að bíllinn var betri torfærubíll en keppinautar hans á Íslandi, engin fjaðrahengsli sem stóðu niður fyrir öxlana.

En einstaklega léleg vél og þrír gírar voru ókostir. Síðar var veghæðin aukin undir kviðinn á Defender. 

Í dag þrauka aðeins fjórir fjöldaframleiddir jeppar með formúlunni hátt og lágt drif og heila driföxla, Jeep Wrangler, Land Rover Defender, Mercedes Benz G jeppinn, Suzuki Jimny og UAZ 469 og UAZ Patriotm sem eru í grunninn GAZ 69 og einna minnst breyttur í 62 ár.Suzuki Jimny

Allir aðrir jeppar eða jepplingar eru komnir með sjálfstæða fjöðrun og nær allir með slíka fjöðrun á öllum hjólum.

Kostir sjálfstæðrar fjöðrunar er léttari fjöðrunarbúnaður og sjálfstæði hvers hjóls, en ókostirnir eru helst þeir, að fjöðrunarslagið er mun styttra en á heilum öxli, sem er með gormafjöðrun, en gormafjöðrun er á öllum fyrrnefndum "alvöru" jeppum.

Langt fjöðrunarslag þýðir meiri gripmöguleika í ójöfnum og ófærum og það vegur þungt. Þetta gerði Range Rover svo magnaðan þegar hann kom fram með sína löngu og mjúku gormafjöðrun án jafnvægisstangar. Hann hallaðist að vísu svakalega í beygjum og halla, en hjólagripið var einstakt. 

Tveir jeppanna tryggu hafa fengið möguleika á lægri fyrsta gír en áður var, Land Roverinn með 1:67 og Jeep Wrangler Rubicon með 1:64. Möguleikinn á  að fara niður i slíkt drifhlutfall getur verið ómetanlegt í ófærum.

Jimny hefur fært sig úr 1:32 í 1:38 og 1:38 er í boði á G Wagen, sem þar að auki er afar kraftmikill og með sjálfskiptingu sem getur gert drifið enn lægra.

Til samanburðar má geta þess að á nær öllum öðrum fjórhjóladrifsbílum er aðeins hægt að fara hálfa leið eða skemur í þessa átt.

Allir fyrrnefndir "alvöru"jeppar hafa fengið gormafjöðrun nema að UAZ er áfram með blaðfjöðrun að aftan. 

Framleiðendur Wrangler, Land Rover, G-Wagen, Jimny og UAZ eiga hrós skilið fyrir að hafa ekki látið hrekjast frá því að framleiða þessa jeppa fyrir markhóp, sem kannski er ekki eins stór og hann var fyrrum.

Land Rover Defender í núverandi formi verður trúr allt til enda og vonandi verður haldið áfram að framleiða hina þrjá.

Með því að setja hann á gorma á níunda áratugnum og hækka hann stórlega undir kviðinn tók hann stórt stökk fram á við í fjöðrunar- og torfærueiginleikum. 

Að vísu er búið að lækka Wrangler fullmikið í staðal útgáfu hans, en auðvelt á að vera að breyta því.

Það verður spennandi að sjá, hve langt frá gamla góða Land Rover nýi Defenderinn fer. Vonandi verður þeim sinnt sem þurfa á sem bestu torfærutæki að halda.     


mbl.is Land Rover Defender kveður með stæl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta fer að verða þreytandi.

Nýjabæjarfjall milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar og hálendið þar í kring nær í meira en þúsund metra hæð yfir sjó inni undir miðju hálendinu. Þar getur verið sérlega illviðrasamt og Jónas Hallgrímsson lenti í hremmingum þar að sumarlagi og beið þess aldrei bætur.

Að vera á ferð án skjóls við Urðarvötn í einu af mestu fárviðrum vetrarins sem þar að auki var margspáð dagana á undan er rugl.

Það er að vísu á færi vönustu fjallamanna á góðum og hlýjum jöklafarartækjum að bíða af sér svona veður ef þeir eru vel búnir vistum, tækjum og búnaði. 

En það fer að verða þreytandi hvernig ekkert lát virðist vera á uppákomum af því tagi sem nú dynja yfir björgunarsveitir landsins í hverri viku og jafnvel oft í viku. 


mbl.is 50 manns í björgunaraðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristur var krossfestur fyrir guðlast.

Hann guðlastar!" hrópuðu æðstu prestarnir þegar réttað var yfir Kristi og hann svaraði ásökunum sem dauðadómur lá við að mati prestanna, enda vitnuðu þeir í þágildandi lög þess efnis. 

Í svörum Krists þóttu ákærendurnir finna staðfestingu á dauðasynd Jesú. 

Hollt er að íhuga þetta þegar páskar fara í hönd og einnig almennt að íhuga það á okkar tímum. 

En einnig að hafa það í huga, að takmarkalaust frelsi er ekki til, því að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar og allir eiga að hafa rétt að lifa með reisn en ekki að þola að vera niðurlægðir og smánaðir að ósekju. 

Ævinlega er slíkt matsatriði og þá er efnislegt magn þess sem notað er í atferlinu ekki alltaf mælikvarðinn heldur hinn huglægi þáttur. 

Það að hrækja á einhvern er talið vera merki um einstaklega hatursfullt og meiðandi atferli, þótt verknaðurinn sjálfur efnislega sýnist ekki svo stór. Í íþróttum og lögum um hegðun fólks er tekið á þessu. 

Sýkingarhætta er hins vegar varla meiri við slíka orðalausa árás en ef viðkomandi ryki til og knúskyssti og faðmaði í staðinn. 


mbl.is „Hefðu átt að hugsa sig tvisvar um“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband