Óvenjulega "íslenskt" veðurfar á Grænlandi.

Það hefur sést vel á veðurkortunum í veðurfréttum Sjónvarpsins í vetur hvernig hlýjar og rakar loftbylgjur hafa hvað eftir annað brunað norður með ströndum landsins, bæði norður eftir vesturströndinni og austurströndinni í mun meira mæli en venjulegt hefur verið undanfarna áratugi.  

Þessu hefur fylgt óvenju mikið af dæmigerðu "íslensku" vetrarveðri með hlákum og tilheyrandi stormum og hálku.

Hafísinn er mun norðar en áður var og svo virðist sem þetta geti verið dæmi um að hlýir loftmassar eigi greiða leið lengra norður en áður var, þegar hafísinn kældi hafið þar sem sjórinn er nú auður og sjávarhitinn í Norður-Atlantshafinu hefur hækkað síðustu ár.  

Þetta hefur bitnað á mörgum vestra eins og beinbrot Vigdísar Hauksdóttur ber vitni um.

Henni eru sendar óskir um góðan bata nú þegar hún er komin heim á Klakann, sem svo oft ber það viðurnefni með rentu á þessum árstíma.  


mbl.is Vigdís brotin og í einangrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að fljúga á öðrum hreyflinum.

Sé það rétt að drepist hafi á öðrum af tveimur hreyflum ATR 42 flugvélarinnar, sem fórst skömmu eftir flugtak frá Tapei, gæti það verið skýring á því hvers vegna ekki tókst að fljúga vélinni yfir hindranir á flugleiðinni á afli hins hreyfilsins. 

Ástæðan er sú að afar vandasamt og erfitt getur reynst að fljúga áfram á afli annars hreyfilsins fyrst eftir flugtakið.

Á myndinni sést að báðar skrúfurnar snúast þegar vélin fellur niður, en það sýnir að hafi vinstri hreyfillinn stöðvast, hefur flugstjórunum ekki tekist að láta skrúfuna á þeim hreyfli komast í hlutlausa stöðu.

Meðan skrúfan snýst, jafnvel þótt hún snúist án tregðu, er veldur snúningur hennar loftmótstöðu, sem er töluverð og dregur úr getu vélarinnar til þess að halda hæð eða klifra.

Eitt höfuðatriðið þegar drepst á hreyfli á fjölhreyfla flugvél, er að flugstjórinn breyti beitingu skrúfublanna þannig að þau kljúfi loftið eins og hnífsblað án loftmótstöðu til að auka möguleika hins hreyfilsins til að halda vélinni á lofti.

Ákvörðun um flugtak tekur flugstjórinn þegar vélin hefur náð nægum skilgreindum lágmarkshraða til þess að hægt sé að fljúga áfram á einum hreyfli ef hinn bilar.

Ef bilun verður fyrst eftir flugtak eru flugstjórarnir í vandasamri stöðu til þess að vélin geti klifrað, því að bæði þarf að auka flughraðann og draga úr þeirri loftmótstöðu sem flapar gefa, en þeirra hlutverk er gera kleift að nota sem styst brautarbrun.

 

Þrír hraðar skipta mestu við flug á öðrum hreyfli.

1. Lágmarkshraði til þess að hliðarstýrið geti haldið í við þann hreyfil sem togar skakkt í flugvélina þegar slokknað hefur á hinum hreyflinum.

2. Besti klifurhraðinn á afli annars hreyfilsins, sem er hærri en hraði númer 1.

3. Ofrishraðinn.

Hugsanlega hefur vélin aldrei náð því að komast á besta klifurhraðann og ljóst virðist af myndum, að vélin stefnir í ógöngur þegar hún kemur að íbúðablokkunum framundan, því að til þess að komast yfir þær, þarf að reisa vélina og við það missir hún það mikinn hraða að hún getur ekki haldið hæð, og auk þess er lofthraðinn orðinn of lítill yfir hliðarstýrið til þess að það geti haldið á móti togi hægri hreyfilsins.

Vélin byrjar því að snúast til vinstri við það að ofrísa og falla niður.

Síðan veit enginn fyrr en eftir rannsókn á slysinu hvort eitthvað hefur misfarist hjá flugmönnunum við hið erfiða hlutverk þeirra að halda vélinni á lofti.    


mbl.is Óttast um afdrif farþeganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymist að hann er fulltrúi flokks og skoðana hans.

Í nýjustu stjórnarskrám á Vesturlöndum er mannréttindakafli fremstur. Þannig er það líka í frumvarpi stjórnlagaráðs. Slíkt er ekki að ástæðulausu, því að grunnur vestræns lýðræðis og skoðanafrelsis felst í slíkum kafla. 

Nú sér maður þess krafist að listi Framsóknarflokksins og flugvallarvina eigi að halda því til streitu bjóða fram mann í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar, sem ekki fellst á þessi grundvallaratriði. Er sagt, að ef þessi maður eða skoðanasystkin hans eigi ekki aðgang að mannréttindaráði borgarinnar sé verið að "þagga niður" ákveðnar skoðanir og þar með að vinna gegn skoðanafrelsi.

Þetta er nú svolítið stór krafa, vegna þess að maðurinn er fulltrúi flokks, sem hefur alls ekki skoðanir hans á stefnuskrá sinni heldur þveröfugar.

Og ekki er vitað til þess að flugvallavinir séu á þeirri línu sem Gústaf Níelsson er.

Hvernig er hægt að krefjast þess í fulltrúalýðræði af framboðum og flokkum, að þeir tefli fram fólki sem er algerlega á móti stefnu viðkomandi flokks og vinni gegn henni?

Kvörtun yfir "þöggun" á ákveðnum skoðunum á ekki við í þessu máli, því að fólki er frjálst að setja fram fjölbreytilegar skoðanir og hefur slíkt frelsi aldrei verið meira en núna á tímum netsins.

Og skoðanasystkin Gústafs Níelssonar geta, rétt eins og aðrir, stofnað sjálft til framboðs til framdráttar skoðunum sínum og fengið fulltrúa sína í kjörna trúnaðarstöður.   


mbl.is „Þeirra rödd, rödd haturs og fordóma“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heimsminjaskrká UNESCO! Og hvað með það?"

Eitt stærsta atriðið varðandi mannvirkjagerð virðist enn vefjast fyrir okkur Íslendingum: Það er sá grundvallarmunur á vernd (verndarnýtingu) og nýtingu (orkunýtingu) að verndarnýting kemur ekki í veg fyrir orkunýtingu síðar meir, en á hinn bóginn geta óafturkræf áhrif orkunýtingar komið í veg fyrir verndarnýtingu um alla framtíð.

Sömuleiðis sá munur á biðflokki og nýtingarflokki, að biðflokkur þýðir pass og útilokar ekki orkunýtingu síðar meir, en nýtingarflokkur þýðir í langflestum tilfellum það að ekki verður hægt að breyta síðar yfir í verndarflokk. 

Það er raunar dæmi um það hve erfitt er að ræða þessi mál á réttum forsendum, að mannvirkjasinnar hafa fengið fram sín sjónarmið með því að ráða því hvaða orð eru notuð.

Það er sérkennilegt að það skuli þurfa að benda strax í upphafi svona pistils á það misræmi, sem umræðan er strax leidd í, með því að stilla vernd og "verndarflokki" í rammaáætlun upp sem andstæðu við nýtingu og "nýtingarflokk".

Með þessu orðalagi er því slegið föstu, að nýting náttúrugæða með fjárhagslegum ábata geti aðeins falist í orkunýtingu, en að engin nýting eða fjárhagslegur ávinningur felist í vernd.

"Við verðum að nýta landið" er svo oft sagt sem röksemd fyrir virkjunum og mannvirkjum. 

Besta dæmið um þetta er verndarnýting Gullfoss, sem hægt er að meta til mun meiri fjár en orkunýting hans gæti falið í sér.

Og síðan er það hitt atriðið að meta ævinlega öll verðmæti aðeins til beins peningalegs ávinnings en setja núll krónu merkimiða á þau andlegu verðmæti, upplifun og unaðsstundir, sem náttúruvernd skapar. En það var gert varðandi Kárahnjúkavirkjun. 

Á tíunda áratug síðustu aldar sendu íslensk stjórnvöld fyrirspurn um tvo staði, Þingvelli og Mývatn, inn til nefndarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum, sem metur það hvað skuli sett á Heimsminjaskrá UNESCO.

Meðal þeirra, sem unnu fyrir þá nefnd að slíku mati sem sérfræðingur í fjallalandslagi, var Jack D´Ives, sem þekkti Ísland vel frá fornu fari.

Mönnum hjá SÞ leist vel á Þingvelli sem fólu í sér afar merk söguleg verðmæti og jafnframt gríðarleg jarðfræðileg verðmæti. Ferlið tók rúman áratug.

En umsóknin um Mývatn með Kísiliðjuna skammt frá austurbakka vatnsins og kísilgúrnám í vatninu vakti aðhlátur.

Á þessum tíma var það með reglulegu millibili fyrsta frétt í sjónvarpi að Mývatnssveit stefndi í glötun vegna þess hætta væri á að rekstur Kísiliðjunnar stöðvaðist.

Síðan hætti Kísiliðjan og þá þótti það ekki frétt þótt mannlíf í sveitinni héldi samt áfram.

Rétt áður en Kísiliðjan hætti, hitti ég þáverandi sveitarstjóra og sýndi honum norskan ferðamannabækling, þar sem á forsíðu trónaði heilsíðumynd af norsku verðmæti, sem voru þá komin á Heimsminjaskrá UNESCO og augljóst var hvernig Norðmenn litu á möguleikana fyrir ferðaþjónustuna að geta flaggað slíku.

Ég spurði hann hvort hann sæi ekki möguleikana, sem fælust í því að Mývatn kæmist kannski inn á Heimsminjaskrána við það að Kísiliðjan færi.

Hann hélt nú ekki. "Heimsminjaskrá UNESCO! Og hvað með það?" sagði hann með fyrirlitningartóni.

Eitt þeirra atriða sem olli því að ég gerðist aðgerðasinni í náttúruverndarmálum voru tvær fréttir, sem ég flutti um sömu helgi af Kárahnjúkavirkjun.

Önnur fréttin var afar jákvæð varðandi umsvif vel rekins verktakafyrirtækis við virkjunina, eitt þeirra fáu sem ekki urðu gjaldþrota.

Í hinni fréttinni lýsti kanadísk kona, Louise Crosley, því hvernig Franklin-áin á Tasmaníu komst á Heimsminjaskrá þegar hætt var við að virkja hana. Sagði hún að svipað blasti við ef hætt yrði við Kárahnjúkavirkjun.

Fulltrúi Framsóknarflokksins, flokksins sem meðal annars hafði fyrr á tíð náttúruverndarfrömuðinn Eystein Jónsson sem formann, lét bóka í þáverandi Útvarpsráði harða gagnrýni og mótmæli vegna þessarar fréttar.

Þá varð mér ljóst að sú sjálfsritskoðunarregla mín að flytja aldrei neikvæða frétt um þessa virkjun nema að minnsta kosti ein jákvæð frétt væri líka flutt, gekk ekki lengur upp.     


mbl.is Möguleikum verði ekki spillt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband