"Heimsminjaskrká UNESCO! Og hvað með það?"

Eitt stærsta atriðið varðandi mannvirkjagerð virðist enn vefjast fyrir okkur Íslendingum: Það er sá grundvallarmunur á vernd (verndarnýtingu) og nýtingu (orkunýtingu) að verndarnýting kemur ekki í veg fyrir orkunýtingu síðar meir, en á hinn bóginn geta óafturkræf áhrif orkunýtingar komið í veg fyrir verndarnýtingu um alla framtíð.

Sömuleiðis sá munur á biðflokki og nýtingarflokki, að biðflokkur þýðir pass og útilokar ekki orkunýtingu síðar meir, en nýtingarflokkur þýðir í langflestum tilfellum það að ekki verður hægt að breyta síðar yfir í verndarflokk. 

Það er raunar dæmi um það hve erfitt er að ræða þessi mál á réttum forsendum, að mannvirkjasinnar hafa fengið fram sín sjónarmið með því að ráða því hvaða orð eru notuð.

Það er sérkennilegt að það skuli þurfa að benda strax í upphafi svona pistils á það misræmi, sem umræðan er strax leidd í, með því að stilla vernd og "verndarflokki" í rammaáætlun upp sem andstæðu við nýtingu og "nýtingarflokk".

Með þessu orðalagi er því slegið föstu, að nýting náttúrugæða með fjárhagslegum ábata geti aðeins falist í orkunýtingu, en að engin nýting eða fjárhagslegur ávinningur felist í vernd.

"Við verðum að nýta landið" er svo oft sagt sem röksemd fyrir virkjunum og mannvirkjum. 

Besta dæmið um þetta er verndarnýting Gullfoss, sem hægt er að meta til mun meiri fjár en orkunýting hans gæti falið í sér.

Og síðan er það hitt atriðið að meta ævinlega öll verðmæti aðeins til beins peningalegs ávinnings en setja núll krónu merkimiða á þau andlegu verðmæti, upplifun og unaðsstundir, sem náttúruvernd skapar. En það var gert varðandi Kárahnjúkavirkjun. 

Á tíunda áratug síðustu aldar sendu íslensk stjórnvöld fyrirspurn um tvo staði, Þingvelli og Mývatn, inn til nefndarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum, sem metur það hvað skuli sett á Heimsminjaskrá UNESCO.

Meðal þeirra, sem unnu fyrir þá nefnd að slíku mati sem sérfræðingur í fjallalandslagi, var Jack D´Ives, sem þekkti Ísland vel frá fornu fari.

Mönnum hjá SÞ leist vel á Þingvelli sem fólu í sér afar merk söguleg verðmæti og jafnframt gríðarleg jarðfræðileg verðmæti. Ferlið tók rúman áratug.

En umsóknin um Mývatn með Kísiliðjuna skammt frá austurbakka vatnsins og kísilgúrnám í vatninu vakti aðhlátur.

Á þessum tíma var það með reglulegu millibili fyrsta frétt í sjónvarpi að Mývatnssveit stefndi í glötun vegna þess hætta væri á að rekstur Kísiliðjunnar stöðvaðist.

Síðan hætti Kísiliðjan og þá þótti það ekki frétt þótt mannlíf í sveitinni héldi samt áfram.

Rétt áður en Kísiliðjan hætti, hitti ég þáverandi sveitarstjóra og sýndi honum norskan ferðamannabækling, þar sem á forsíðu trónaði heilsíðumynd af norsku verðmæti, sem voru þá komin á Heimsminjaskrá UNESCO og augljóst var hvernig Norðmenn litu á möguleikana fyrir ferðaþjónustuna að geta flaggað slíku.

Ég spurði hann hvort hann sæi ekki möguleikana, sem fælust í því að Mývatn kæmist kannski inn á Heimsminjaskrána við það að Kísiliðjan færi.

Hann hélt nú ekki. "Heimsminjaskrá UNESCO! Og hvað með það?" sagði hann með fyrirlitningartóni.

Eitt þeirra atriða sem olli því að ég gerðist aðgerðasinni í náttúruverndarmálum voru tvær fréttir, sem ég flutti um sömu helgi af Kárahnjúkavirkjun.

Önnur fréttin var afar jákvæð varðandi umsvif vel rekins verktakafyrirtækis við virkjunina, eitt þeirra fáu sem ekki urðu gjaldþrota.

Í hinni fréttinni lýsti kanadísk kona, Louise Crosley, því hvernig Franklin-áin á Tasmaníu komst á Heimsminjaskrá þegar hætt var við að virkja hana. Sagði hún að svipað blasti við ef hætt yrði við Kárahnjúkavirkjun.

Fulltrúi Framsóknarflokksins, flokksins sem meðal annars hafði fyrr á tíð náttúruverndarfrömuðinn Eystein Jónsson sem formann, lét bóka í þáverandi Útvarpsráði harða gagnrýni og mótmæli vegna þessarar fréttar.

Þá varð mér ljóst að sú sjálfsritskoðunarregla mín að flytja aldrei neikvæða frétt um þessa virkjun nema að minnsta kosti ein jákvæð frétt væri líka flutt, gekk ekki lengur upp.     


mbl.is Möguleikum verði ekki spillt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband