Samt "fer hratt kólnandi" og "hafísinn stóreykst".

Ég hef að undanförnu átt í netsamskiptum og persónulegum samræðum við góða og gegna og vel menntaða menn sem staðhæfa með tilvitnunum í "traust vísindaleg gögn", sem þeir segjast hafa undir höndum, að nú fari loftslag á jörðinni "hratt kólnandi" og að á aðeins einu ári hafi ísþekjan á Norður-Íshafinu "stórminnkað". 

Hvorki geta þessir menn þó útskýrt af hverju íslensku jöklarnir fari síminnkandi og því síður af hverju Grænlandsjökull sé á sömu leið. 

Ekki geta þeir heldur útskýrt fjarveru hafíssins frá landinu þrátt fyrir óvenju þrálátar suðvestanáttir og heldur ekki hvers vegna það hefur ekki komið frost í Moskvu í háa herrans tíð, heldur engu líkara en að hinn hræðilegi rússneski vetur sé gufaður upp. 

Og varla fer formaður umhverfisnefndar öldungardeilar Bandaríkjaþings að kasta snjóboltum þar í 16 stiga hita til að sanna, að víst fari "hratt kólnandi." 

Ekki geta þeir heldur útskýrt viðurkenndar alþjóðlegar mælingar, sem sýna hlýnun að meðaltali á jörðinni, né heldur af hverju meira CO2 er nú í lofthjúpi jarðar en síðustu 800 þúsund ár.

Trú mín á gildi menntunar hefur beðið nokkurn hnekki við að sjá fullyrðingar hámenntaðra manna um hina hröðu kólnun veðurfarsins á jörðinni. 

"Vísindin efla alla dáð", sagði skáldið, en hefði átt að bæta við og hafa það svona:

"Vísindin efla alla dáð

en ekki greindina´í lengd og bráð".  


mbl.is Jöklarnir 12% minni en áður talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanleg stutt kynni 1995. Kostulegir erlendir þættir.

Ýmsa fræga hefur maður hitt um dagana en Jeremy Clarkson er hugsanlega sá skemmtilegasti, þótt kynnin tækju aðeins um tíu mínútur við Litlu kaffistofuna 1995 þegar hann gerði einn þátta sinna hér á landi.

Sá þáttur hét "Jeremy Clarkson´s MotorWorld - Iceland."   

Stærsti kostur Clarksons er hve óhemju hröð tilsvör hans eru, en hraðinn getur sennilega líka komið honum í koll, því að "the quickest draw in the west" eins og það nefnist í kúrekamyndunum, byggist oft á því að skjóta fyrst og spyrja svo.

Þau stuttu orðaskipti sem varðveist hafa í Íslandsþætti "Jeremy Clarksons´MotorWorld" eru fjarri því að vera þau skemmtilegustu eða bestu þarna við hliðina á flygildinu Skaftinu við bensíndæluna, því að Clarkson var í mesta stuðinu á meðan myndavélarnar voru ekki í gangi og verið var að undirbúa tökurnar. 

Ég man sáralítið af því, nema kannski orðaskiptin þegar hann spurði mig hvað ég hefði gert um dagana, vildi fá að vita það út í hörgul ef það mætti nýtast honum í viðtalinu.

Ég reyndi að telja það upp sem ég myndi eftir að hafa sýslað við í atvinnuskyni; sveitastörf, hafnarvinna, járnabindingar, sprengingar og boranir, leikhús, skemmtanir, söngur, plötugerð, tónsmíðar, textagerð, rallakstur, flug, dagskrárgerð, spurningaþættir, veðurfréttir, almenn sjónvarpsfréttamennska o. s. frv.

"Sjónvarpsfréttir, einmitt það" sagði Clarkson. Þá geturðu sagt mér eitthvað um það hvernig þjóðinni vegnar um þessar mundir."

"Jú, kannski," svaraði ég. "Það gengur bærilega en þó hefur verið meira atvinnuleysi en oft áður."

"Er það furða? - það kemst enginn að í vinnu fyrir þér," svaraði Clarkson á sekúndubrotinu.    

P.S.  Í athugasemd hér fyrir neðan er minnst á sænskan sjónvarpsþátt um Ísland og Íslendinga sem gerður var 1965 fyrir daga íslenska sjónvarpsins, aldeilis kostulegur þáttur, sem aldrei hefur verið sýndur í íslenska sjónvarpinu.  


mbl.is Fjölhæfur en frakkur þáttastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband