Lagið féll úr leik, ekki María.

Eurovision söngvakeppninni er ætlað að snúast fyrstu og fremst um gæði sönglaga. María Ólafsdóttir stóð sig með stakri prýði allan tímann sem barist var fyrir því að koma íslenska laginu upp í topp tíu í kvöld. 

En þegar horft er á frammistöðu hennar er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að engu skipti hvernig lagið væri flutt eða útbúið sjónrænt eða hver flytti það: Það var einfaldlega ekki nógu gott til að fá þann hljómgrunn sem þurfti. 

Til að lag, sem byggist á þrisvar sinnum fjögurra takta laglínunum, sem eru afar svipaðar, komist áfram og upp fyrir önnur lög, þurfa þessar fáu stuttu og keimlíku laglínur að vera afar grípandi og góðar. 

Það voru þær einfaldlega ekki, en hugsanlega hefði verið hægt að bæta úr því með því að brjóta lagið upp í miðjunni með stuttum sérstökum millikafla sem byði upp á tilbreytingu.

En það var ekki gert.

Nú kvikna kannski alls konar samsæriskenningar, svo sem að "Austur-Evrópu mafían" hefði ráðiðð hvernig fór, en sú kenning var höfð uppi í fyrradag þegar tvö Norðurlandanna féllu úr keppni.

En nú komust tvö Norðurlandanna áfram svo að það þarf nýja samsæriskenningu.  

 


mbl.is Ísland ekki í úrslit Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrek ef hún kemst áfram.

María Ólafsdóttir horfir upp á þverhníptan hamar til að klífa ef hún á að komast í gegnum niðurskurðinn í kvöld og halda áfram í úrslitakeppnina. 

Hún er búin að standa sig afburða vel í þessari fyrstu ferð sinni á svona stóran viðburð, hefur lagt sig alla fram og orðið landi og þjóð til sóma, hvernig sem fer.

Hættan er sú að eyða svo mikilli orku í langvinnri törninni fyrir þetta kvöld, að það verði tæpt hve mikið verði á orkugeyminum á úrslitastundinni, sem auðvitað verður að teljast vera einmitt nú. 

Ég hafði á tilfinningunni áðan að hún væri komin á ystu mörk úthaldsins í söngnum í kvöld, hvort sem það er rétt hjá mér eða ekki. En hún bætti það upp með afar mikilli útgeislun og flutningurinn var kannski meira hrífandi vegna þess að þessi berfætta smávaxna kornunga kona, stóð alein á risavöxnu sviðinu.

Það er alltaf sterkt að tefla fram andstæðum og kannski mun það hafa gagnast vel í kvöld.  

Það er við ramman reip að draga þegar svo mörg lög og flytjendur eru af svipuðum toga og ef hún kemst í gegnum niðurskurðinn eins og ég kýs að kalla það, er það afrek hjá henni. 


mbl.is Frábær flutningur hjá Maríu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ítala er notuð víða um lönd á ferðamannaslóðum.

Það hefur legið fyrir í áratugi erlendis að þar sem náttúran þolir ekki mikinn átroðning, neyðast menn til að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir óafturkræf umhverfisspjöll sem ekki aðeins eyðileggja verðmætin, sem skapa umferðina, heldur kippa grundvellinum undan því sem ferðamönnum er selt.

Nefna má ótal dæmi um slíkt. Það getur falist í því, eins og á hverasvæðum Old Faithful og Mammoth Hot Springs í Yellowstone að gera vandaða göngupalla, eða að hafa ítölu inn á ákveðin svæði. 

Í Yellowstone er ítala inn á gönguslóðir sem eru alls 1600 kílómetra langar. Slóðirnar eru misjafnlega vinsælar og viðkvæmar, en kröfur ferðafólksins yfirleitt þær að njóta lágmarks kyrrðar og einveru.

Á sumum slóðunum er biðlisti sem getur valdið því að bíða þarf í marga mánuði eða jafnvel ár eftir því að komast að. 

Lengsti biðlistinn, sem mér er kunnugt um vestra, er að fá að sigla niður Kólóradófljót fyrir neðan stífluna í Glen Canyon og allar glötur niður að Mead miðlunarlóninu fyrir ofan Hoover-stífluna, en þetta er nokkur hundruð kílómetra löng siglingarleið og farið í gegnum Marmaragljúfur en síðar í gegnum Miklagljúfur. 

Þarna þurfti að bíða í 14 ár árið 1999 eftir að fá að sigla. Hljómlistarmennirnir Vilhjálmur Guðjónsson og Magnús Kjartansson sigldu þessa leið hér um árið og áttu engin orð til að lýsa þeirri upplifun. 

Þegar spurt var hvort ekki væri slæmt hve margir yrðu frá að hverfa var svarið það, að það eitt að fólk vissi af tilvist þessa fyrirbæris væri það mikils virði að ekki yrði breytt um stefnu. 

Til stóð að virkja ána og búa til virkjun á stærð við Kárahnjúkavirkjun með 80 kílómetra langt miðlunarlóni í Marmaragljúfri fyrir um 40 árum á þeim forsendum að eftir sem áður væru rúmlega hátt á þriðja hundrað kílómetrar af gljúfrum látnir ósnortnir. 

Hugmyndin var auglýst með því, að ekki aðeins yrði bara hluti leiðarinnar notaður í lónið, heldur yrði miklu auðveldara að skoða ýmsar flottar bergmyndanir á bátum þegar vatnið væri hækkað svona mikið og að lónið í gljúfrinu yrði afar fagurt. 

Ein opnumynd andstæðinganna í auglýsingu í blöðum og tímaritum drap þessa hugmynd.

Sýnt var á þeirri mynd hvernig hægt yrði að sigla á smákænum um Sixtínsku kapelluna í Róm og sjá hin frábæru listaverk Michelangelos miklu betur ef kapellan yrði hálffyllt af vatni og spurt: Vilt þú láta gera þetta?

Þetta var fyrir næstum hálfri öld í Ameríku. Við erum hins vegar enn næstum hálfri öld á eftir Kananum í þessum efnum og viljum ekkert af þeim læra.  


mbl.is Umferð um Dyrhólaey takmörkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíkniefni í sérflokki.

Áfengi er fíkniefni sem hefur fyrir hefð fengið algera sérstöðu og undanþágu miðað við önnur algerlega hliðstæð efni varaðandi ávanabindingu og tjón á neytendum þess.

Áfengið veldur meira tjóni í samfélaginu en nokkurt annað fíkniefni en fær algera sérmeðferð varðandi það að vera tekið út úr og sett í sérflokk, jákvæðan sérflokk.

Viðgangur þess byggðist og byggist enn á meðvirkni alls samfélagsins. Allir eru "kóarar." 

Það er selt í sérverslunum sem þurfa helst að vera aðalaðandi með sína söluvænu vöru svo að ríkið græði.

Nú er eina ferðina enn verið að reyna að koma því inn í matvöruverslanir svo að það verði enn aðgengilegra, einkaaðilar geti grætt á því og áfengið fái enn meiri viðurkenningu fyrir það hvað það sé allt annars eðlis og betra en önnur fíkniefni. Sé í jákvæðum sérflokki Sem er algerlega rangt.

Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess sama um áfengi og önnur fíkniefni, að því aðgengilegra sem það er því meira tjón hljótist af neyslu þess.

En áfengið á sér sterka meðmælendur sem ulla á slíkar niðurstöður.

"Látum því vinir vínið andanna hressa" orti stórskáldið sem áfengisbölið drap fyrir aldur fram. "Á meðan þrúgna gullnu tárin glóða / og guðaveigar lífga sálaryl..." orti sami snillingur. 

Því að áfengið fer ekki í manngreinarálit og það fer nákvæmlega ekkert eftir andlegu atgervi hverjir verða bráð þess. 

Það ræðst jafn á marga af helstu afburðamönnum heims sem hinn venjulega meðaljón.

Sigmar Guðmundsson á alla mína samúð og fær hugheilar óskir um árangur í sinni baráttu, þegar hann tekst nú á við þennan bölvald. 

 

 


mbl.is Sigmar í meðferð á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband