Skref í rétta átt.

Dómur Hæstaréttar í Gálgahraunsmálinu í dag er mikilvægt skref í rétta átt varðandi stöðu náttúruverndar á Íslandi þótt æskilegt hefði verið að hann hefði verið alger sýknudómur vegna þeirra aðferða sem Vegagerðin og lögreglan beittu.

21. október 2013 voru tvö dómsmál í gangi varðandi vegalagninguna í Gálgahrauni.

Annað þeirra var lögbannsmál þar sem vegarstæðið og hraunið sjálft var svokallað andlag, þ. e. verðmæti sem vernda þyrfti þar til málinu lyki fyrir dómstólum.

Í stað þess að bíða eftir málalokum í þessum dómsmálum réðist hins vegar 60 manna lögreglulið búið handjárnum, gasbrúsum og kylfum að friðsömu náttúruverndarfólki, sem ekki hreyfði legg né lið, og beitti aðferðum, sem brutu gegn meðalhófi, til þess að færa fólkið í fangaklefa og handjárna sumt af því.

Það sem verra var: Beitt var stærsta skriðdreka landsins í formi risajarðýtu til þess að brjóta hraunið með látum í spað á alls 3ja kílómetra kafla og eyðileggja með því andlagið á sem stystum tíma, í þessu tilfelli á átta klukkustundum. 

Skriðdreki þessi sást ekki aftur á svæðinu og framkvæmdir lágu niðri mánuðum saman um veturinn.

Tilgangurinn var augljós: Að valda sem mestum náttúruspjöllum á sem skemmstum tíma og eyðileggja jafnframt bæði dómsmálin, sem átti eftir að útkljá.  

Í gögnum sem sækjandi lagði fram í málinu varðandi skýrslu lögreglunnar um aðgerðir var klykkt út með þessari setningu: "Klukkan 17:46. Aðgerðum lokið og við erum komnir í gegn."

En Gálgahraunsmálinu er hvergi nærri lokið. Framundan er hugsanlega nokkurra ára ferli þess, sem við, sem þarna vorum handtekin, erum viss um að mun enda með fullri uppreisn æru Hraunavina.

Í stuðningssamkomu í Háskólabíói var sunginn baráttusöngurinn "Sigur vinnst um síðir" (We shall overcome)

Hann verður sunginn áfram.   


mbl.is Tónn sleginn fyrir náttúruvernd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afreksmaðurinn Agnar Kofoed-Hansen.

Við Íslendingar tökum því sem gefnum hlut hve langt við höfum náð á ýmsum sviðum flugmála. 

En það var ekki gefið og þessi bylting kom ekki af sjálfu sér. Það var ekki sjálfgefið að Ísland breyttist á fimm árum úr flugvallalausu landi án landflugvéla í land með tvo alþjóðaflugvelli og tvö öflug flugfélög.

Og heldur ekki sjálfgefið að eftir stríðið fengum við Íslendingar úthlutað til flugumferðarstjórnar margfalt stærra svæði á Norður-Atlantshafi en eðlilegt var miðað við stærð þjóðarinnar.

Til alls þessa þurfti öfluga frumherja og kjarkmikla baráttu- og hæfileikamenn á borð við Örn Johnson og Agnar Kofoed-Hansen.

Agnar var einstakur hæfileikamaður og glæsimenni. Aðeins 24 ára gamall hafði hann lært flug hjá danska sjóhernum, flogið í Danmörku, Noregi og hjá Lufthansa í Þýskalandi, verið hvatamaður og driffjöður við stofnun Svifflugsfélags Íslands, Flugmálafélags Íslands og Flugfélags Íslands, fengið þýska flugvél og leiðsögumenn til Íslands, fundið 38 lendingarstaði á landinu og orðið flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar og lögreglustjóri í Reykjavík.

Hann varð síðar fyrsti íslenski flugmálastjórinn og í því embætti tókst honum að afla sér gríðarlegra virðingar á alþjóðlegum vettvangi sakir þekkingar, reynslu og persónutöfra.

Ég fór sem fréttamaður með honum í ferðalag um Noreg til að kynnast flugmálareynslu Norðmanna og alls staðar þar sem Agnar kom var framkoma hans svo heillandi, að maður var að springa af stolti fyrir Íslands hönd.

Stærð og geta íslenskrar flugumferðarstjórnar var kórónan á ferli Agnars og enn sjáum við ný dæmi um það traust sem hún nýtur.

Kangerlussuaq-flugvöllur, þar sem Íslendingar hafa nú tekið að sér flugumferðarstjórn, er magnaður staður við botn 185 kílómetra langs samnefnds fjarðar, með jökla á alla vegu en samt með "arabíska" eyðimörk fyrir innan í mynni fagurs og gróðursæls dals, þar sem risastór skriðjökull fyllir dalbotninn með fossandi jöklusá.

Það er ævintýri líkast að koma á þetta svæði þar sem meðalhitinn að degi til í júlí er 16 stig, og ég er að hefja vinnu við að setja saman mynd um það sem tekin í ferðalagi yfir Grænlandsjökul 1999.

Flugvöllurinn hefur hingað til borið danska nafnið Syðri-Straumfjörður eða Söndre Ström í munni Íslendinga og Dana en að sjálfsögðu eigum við að nota grænlenska nafnið.

Agnar lést 1982, 67 ára gamall, og vannst ekki tími til að skrásetja minningar hans nema frá yngri árum hans. 

3. ágúst næstkomandi eru 100 ár frá fæðingu hans og vonandi verður gert eitthvað til að minnast þess.  


mbl.is Isavia með flugumferðarstjórn á Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíföldunarþörfin íslenska.

Tíföldunarþörf virðist nokkurs konar lögmál í hugsunarhætti Íslendinga.

Og framsetningin er yfirleitt sú sama: Það kemur í ljós að reksturinn ber sig ekki nema "einingarnar verði stærri." Án tífaldrar stækkunar er allt í voða. 

Fyrsta álverið í Straumsvík framleiddi 33 þúsund tonn af áli á ári. Það þótti svo svakalega mikið magn að ekkert minna orð en "stóriðja" dugði, sem er sérkennileg þýðing á enska heitinu "heavy industry" sem réttara væri að kalla heitinu "þungaiðnaður." 

Svo stórkostlegt þótti þetta álver, að 200 megavatta virkjunin, sem reist var, framleiddi meira en tvöfalt meiri raforku en talið var að við sjálfir myndum nokkurn tíma þurfa.

Álverið á Reyðafirði átti í upphafi að verða 120 þúsund tonn eða næstum fjórum sinnum stærra en álverið í Straumsvík var upphaflega.

En þegar komið var nógu langt af stað með það og Fljótsdalsvirkjun, sem átti að gefa álverinu orku, birtist austfirska "túrbínutrixið" í allri sinni dýrð: Talið var að fjórfalt Straumsvíkuálver yrði of lítið til þess að borga sig, og þess vegna þyrfti það að vera þrefalt stærra og þurfa þrefalt stærri virkjun.

Brýn nauðsyn væri á álveri sem væri tíu sinnum stærra en fyrsta álverið í Straumsvík, sem hlaut sæmdarheitið stóriðja. 

Og sömleiðis væri 120 þúsund tonna álver, sem áður hafði verið mært sem allsherjar lausn á öllum "fólksfjöldavanda" Austurlands, allt í einu orðið of lítið og voðinn vís nema það yrði þrefalt stærra. 

Þeir, sem andæfðu þessari stórfelldu stækkun voru úthrópaðir sem "eyðileggjendur" sem vildu "eyðileggja" alla milljarðana sem þegar væru komnir í verkefnið og "leggja Áustfirði í auðn."

Allar ábendingar um möguleika ferðaþjónustu voru úthrópaðar sem fánýtir "geimórar" og "fjallagrasarugl."

Í kjölfarið fór hröð þróun sem hefur endað með því að nú framleiðum við fimm sinnum meiri raforku en þarf til okkar eigin nota fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. 

Við framleiðum raunar meira en tíu sinnum meira rafafl samtals en fékkst með hinni fyrstu "stórvirkjun" við Búrfell.

En skyndilega er þetta ekki nóg, heldur er nú sagt að stefni í raforkuskort og atvinnuleysi nema að við framleiðum tíu sinnum meira en við þurfum sjálf fyrir íslensk heimili og fyrirtæki.

Og jafnvel sé það ekki nóg, heldur þurfi að ganga miklu lengra en það til þess að fullnægja eftirspurn eftir raforku í gegnum sæstreng til Evrópu, sem ekki sé spurning um hvort, heldur hvenær muni koma.

Tíu sinnum meiri raforka yrði þá ekki nóg, heldur líklega 20 sinnum meiri.

Í fyrstu var haldið að þjóðinni 90-120 þúsund tonna álverum á Bakka og í Helguvík.

Túrbínutrix á báðum stöðum og jafnvel viðbótar túrbínutrix í Þorlákshöfn, ef einhverjir skyldu vera búnir að gleyma fréttunum af undirbúningi fyrir bráðnauðsynlegt álver þar til að "bjarga Suðurlandi."

Þeir, sem bentu á að hér væri verið að leyna staðreyndum voru vændir um að ljúga upp á Alcoa og Norðurál. Þess var til dæmis krafist af mér að ég bæðist afsökunar á því sem ég hefði skrifað um þetta. 

En síðan datt sannleikurinn óvart upp úr forsvarsmönnum þessara fyrirtækja, af því að fyrir lá heitið "fyrsti áfangi" þegar 90-120 þúsund tonna stærð var haldið á lofti.

Þeir viðurkenndu með semingi að 340-360 þúsund tonna álver væru algert lágmark til að bera sig, tíu sinnum stærri álver en það fyrsta í Straumsvík. Og þar með þyrfti 1400 megavatta virkjanir samtals, sem sagt, meira en tíu sinnum meira rafafl en þurfti til fyrsta álversins á Íslandi.

Nú blasir túrbínutrix fiskeldisins við: Það verður að tífalda framleiðsluna til þess að hún sé samkeppnishæf.

Nú þegar eru eldislaxar farnir að ganga upp í ár, sem hafa verið með villta laxa. Í Noregi reyna menn að leyna og þræta fyrir vandann varðandi fiskeldið þar.

En hér á landi er hugsunin ekki á þessum nótum. Hér vilja menn að sjálfsögðu tífalda vandann, tífalda framleiðsluna. Annars er allt í voða, fiskeldið ber sig ekki og byggðirnar leggjast í eyði. 

Það er ekki langt síðan að 100 þúsund ferðamenn komu til landsins á ári. Nú koma tíu sinnum fleiri en samt þykir sumum ferðaþjónustan ekki nógu mikil til þess að hún geti velt stóriðjunni af stalli sem mesta bjargvætti íslenskrar atvinnusköpunar, þótt í álverunum vinni einnan við eitt prósent af vinnuafli Íslendinga.    

 


mbl.is Væntingar um tífalda framleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband