"Mafía er hún og mafía skal hún heita!" sagði Óli Jó.

Stóra Skagafjarðar-Sikileyjarmálið á sér hliðstæðu í íslenskri sögu. 

Senn eru fjórir áratugir síðan Ólafur Jóhannesson, þáverandi dómsmálaráðherra, formaður Framsóknarflokksins og síðar forsætisráðherra, lang áhrifamesti stjórnmálamaður þess tíma og goð í augum Framsóknarmanna, sagði að til væri "Visis-mafía" sem stæði fyrir ofsóknum á hendur sér. Átti hann við dagblaðið Vísi og menn sem væru í kringum það. 

Þetta þóttu stór orð og veittu menn Ólafi ákúrur og vildu að hann drægi þessu meiðandi ummæli sín til baka. 

En Ólafur hafnaði því og bætti bara í í ræðustól Alþingis þegar hann fór næst í pontu, endurtók fullyrðinguna um "Vísis-mafíuna" og sagði fleyg orð: "Mafía er hún og mafía skal hún heita."

Það er skondin tilviljun að nú skuli svipað mál vera á ferðinni sem tengist Framsóknarflokknum.

Nema, að í þetta skipti snýr málið öfugt við: Notað er orðið Sikiley um Skagafjörð og þá væntanlega einkum veldi kaupfélagsins og Framsóknarmanna þar og áhrif þess á fjármálastjórnmál síðustu ára.

Nú er spurningin hvort Birgitta Jónsdóttir biðjist opinberlega afsökunar á ummælum sínum eins og krafist er.

Einn dáðasti foringi Framsóknarmanna á síðustu öld harðneitaði að draga ummæli sín um Vísismafíuna" til baka og biðjast opinberlega afsökunar á þeim, en þessi ummæli verða að teljast enn harkalegri en orðið Sikiley. Sikiley er jú út af fyrir sig falleg eyja en Mafía er heiti á glæpasamtökum, sem hefur að vísu fengið nokkuð útþynnt gildi í samlíkingum, sem helst eru notuð um umdeilda fjármálastarfsemi. 

Ef Birgitta biðst ekki afsökunar og dregur ummælin til baka, er hún búin að skipa sér á bekk með einum dáðasta leiðtoga Framsóknarmanna á síðustu öld.

Ef hún biðst afsökunar varpar hún hins vegar skugga á enn svakalegri ummæli Framsóknardýrlingsins.

Það er greinilega vandlifað fyrir alla aðila í þessum máli.  


mbl.is Vilja að Birgitta biðjist afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær miðju höfuðborgarsvæðisins en aðrir "kjarnar."

Miðja íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er innst í Fossvogi og miðja atvinnustarfsem litlu vestar. Stærstu krossgötur landsins eru skammt þar austan við og samanlögð miðja þessara þriggja þátta því austast í Fossvogsdal. 

Nýr miðbæjarkjarni Kópavogs er í raun viðurkenning á ofangreindum staðreyndum, því að enginn "kjarni" á höfuðborgarsvæðinu verður nær miðjunni en þessi nýi. Því miður áttuðu menn sig ekki á því í tíma að Mjóddin var næst þessari miðju og hefði þurft meira rými til uppbyggingar sem nýr kjarni.  

Nýr miðbæjarkjarni við Smáralind er einfaldlega nær þungamiðju höfuðborgarsvæðisins en nokkur annar, og hinn gamli miðbæjarkjarni Kópavogs hefur færst út frá miðjunni, að ekki sé nú talað um hina gömlu "miðborg Reykjavíkur." 

Síðustu áratugi hafa menn rembst eins og rjúpan við staurinn við að afneita þeim staðreyndum, sem þarf að hafa í huga við allt skipulag og uppbyggingu höfuðborgarsvæðsins í heild, og er flugvallarmálið gott dæmi um það.

Því þarf að linna að byggt sé á hálfrar aldar gamalli samsetningu byggðar í Reykjavík um miðbik síðustu aldar í stað þess að taka mið af nýjum aðstæðum á nýrri öld. 


mbl.is Nýr miðbæjarkjarni við Smáralind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í átt til norræna módelsins?

Í stórgóðri fréttaskýringu Spegilsins hjá Ríkisútvarpinu þar sem rætt var við norrænt kunnáttufólk um kjarasamninga kom glögglega fram mikill munur á því fyrirkomulagi, sem þar er, og því sem komið var upp hér í vetur og vor. 

Á hinum Norðurlöndunum er fyrst samið um heildarlausn fyrir almenna vinnumarkaðinn, sem tryggi hóflega kaupmáttaraukningu án þenslu og verðbólgu. 

Síðan er samið á opinbera markaðnum. 

Nú er svo að sjá að þau "tímamót í kjarasamningum" sem Sigurður Bessason kallar samningana hér nú, felist einmitt í því að ástandið hér sé að þróast í átt til "norræna módelsins". 

Upphrópanir um að kjaradeilurnar nú væru lymskuleg og óheiðarleg pólitísk aðför Samfylkingarinnar að ríkisstjórninni hljóma hins vegar hlálega þessa dagana.

Sagt var að í pólitískum tilgangi þrýsti Samfylkingin fram óbilgjörnum kröfum verkalýðshreyfingarinnar sem væru augsjáanlega bara til þess gerðar að hleypa öllu í uppnám til að fella stjórnina.

Nú hefur það gerst að samningar hafa náðst um þessar "óbilgjörnu pólitísku kröfur" og þá snúa þeir, sem héldu samsæriskenningunni fram, við blaðinu og segja að niðurstaðan sé "mikill sigur fyrir ríkisstjórnina"! 

Þótt áhætta sé tekin með samningum, þar sem brugðið getur til beggja vona, var hinn kosturinn þó sýnu verri; -  mikið þjóðfélagslegt tjón af stórfelldum verkföllum.

Á augnablikim þegar verður að hrökkva eða stökkva og bægja hættunni á slíku frá, er út af fyrir sig sigur fyrir alla sem að því standa að það tókst að forðast verri kostinn. 


mbl.is Tímamót í kjarasamningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband