Framsýni 1965 en afglöp 2006.

Stofnun Landsvirkjunar 1965 í eigu ríksins og Reykjavíkurborgar sýndi framsýni, sem þeir sem að stofnun fyrirtækisins stóðu voru sannfærðir að myndi borga sig, jafnvel þótt komið gætu tímabil þegar arðurinn yrði lítill, aðstæður og rekstur erfiður eða gerð mistök. 

Það, að Reykjavíkurborg ætti myndarlegan hlut í fyrirtækinu sýndi líka mikla framsýni þáverandi borgarstjórnar Reykjavíkur með Geir Hallgrímsson sem borgarstjóra og Sjálfstæðisflokkinn með meirihluta. 

Um þessar mundir fagnar Landsvirkjun 50 ára afmæli sínu og í þeim hefur þessi framsýni réttilega verið höfð til skýjanna. 

Hafi trú ár fyrirtækinu og eignarhlut í því sýnt framsýni og verið réttmæt 1965, hefur hún verið réttmæt æ síðan, líka 2006, svo framarlega sem menn kynnu að reka fyrirtækið í samræmi við þá yfirburðastöðu sem það hefur haft í nýtingu á hinni verðmætu orkuauðlind landsins og að því gefnu að orkan yrði ekki seld á smánarverði til erlendra auðhringa.

Þess vegna voru það arfamistök og í raun hneyksli þegar Reykjavíkurborg lét lét hlut sinn af hendi fyrir alltof lágt verð 2006.

Þegar þetta var gert sýndu tölur, sem glöggir menn á þessu sviði settu fram, að þarna var farið illa með verðmæta eign borgarbúa.

Sú röksemd, að um nokkurt árabil hafi arðurinn af rekstri Landsvirkjunar verið svo lítill að rétt hafi verið að gefa hlut borgarinnar frá sér fyrir spottprís 2006, er jafn fánýt og það hefði verið sagt við stofnun Landsvirkjunar 1965 að sú gjörð væri misráðin, af því að á einhverju árabili eftir 40 ár yrði arðurinn lítill á þeim tíma þegar orkan yrði seld undir kjörorði bæklingsins frá 1995: "Lowest energy prizes!" sem sendur var til helstu stóriðjufyrirtækja heimsins. 

Og að tugmilljarða árlegur arður af stærsta álveri landsins rynni úr landi án þess að borgaður væri tekjuskattur af honum.  

  


mbl.is Gat ekki átt bæði fyrirtækin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver eru hlutföllin í nágrannalöndunum?

Ísland er hluti af sameiginlegum evrópskum vinnumarkaði. Í fróðlegu viðtali í Spegli Ríkisútvarpsins í gær var rætt við Dana, sem telst vel kunnugur kjaramálum þar í landi, um það hvernig kjaramálum væri háttað í Danmörku. 

Þar hefur allt verið í föstum skorðum og engin stór verkföll í 17 ár. Á vinnumarkaðnum eru fyrst gerðir kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði og síðan fylgja launþegar hjá ríkinu eftir í samræmi við niðurstöðuna á almenna markaðnum.

Hér er hins vegar komin til skjalanna alger upplausn á vinnumarkaðnum og stórhættuleg ringulreið.

Hvernig væri nú að settir væru í það menn sem könnuðu hlutföllin á milli starfsgreina í nágrannalöndunum og fyndu til dæmis út, hvað langskólanám gefur fólki þar umfram þá sem styttra nám hafa að baki?

Og að við reyndum að læra eitthvað af reynslu annarra þjóða?  

 


mbl.is Meðaldagvinnulaun frá 406 - 536 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umbrot í breyttu umhverfi.

Fyrir tilkomu símans og loftskeytanna fyrir rúmri öld var hraðametið frá Austurlandi til Þingvalla fjórir dagar, sett í þeysireið Árna Oddssonar. Engin samskipti, munnleg eða skrifleg, gátu átt sér stað á meiri hraða.

Það er ekki lengra síðan að aðstæðurnar voru svona. 

Íslendingar báðu fyrir heilsu, velgegni og verkum konungs síns í kirkjum landsins vikum og mánuðum saman 1863 þótt kóngurinn væri dauður allan tímann og annar konungur kominn til valda.

Það er ekki lengra síðan. 

Á síðustu 130 árum hafa átt sér stað hraðar og stöðugar breytingar á högum þjóðanna sem enn í dag sér ekki fyrir endann á og skapa ný viðfangsefni og ný vandamál. 

Hið svonefnda gríska vandamál er eitt af þeim og snýst um aðstæður, sem breytt skipan allsherjarmála í einni heimsálfu, hefur leitt yfir þjóðir hennar.

Í hugann koma fræg orð Íslendings þegar álit nýtilkomins yfirvalds í Noregi birtist Íslendingum: "Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."  

 


mbl.is Skref í átt að lokasamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband