Þarf lengstu flugbrautir heims fullhlaðin.

Samkvæmt tölum frá Boeing verksmiðjunum þarf Boeing 787-9 2,9 km langa flugbraut fullhlaðin í flugtaki við staðalaðstæður, 15 stiga hita við sjávarmál í logni , en lengstu flugbrautir alþjóðaflugvalla eru um 3ja kílómetra langar, til dæmis brautirnar á Keflavíkurflugvelli.

Flugtakið á þessari þotu við eðlilegar aðstæður með fólk í öllum sætum og fullhlaðna vél er ekkert öðruvísi en á sambærilegum þotum.

Tölur um afl hreyfla, stærð vængja og þyngd vélarinnar sjálfrar staðfesta ofangreint.

 Eiginleikar margra flugvéla breytast hins vegar við afbrigðileg skilyrði.

Ef flugtakið er upp í snarpan vind í kulda, engir farþegar eða farmur um borð og lágmarkseldsneyti um borð, er að vísu hægt að fá hana til að klifra ansi bratt og ná upp meiri tímbundnum bratta í klifri með því að láta hana rúlla það lengi eftir brautinni og klifra ekki bratt í fyrstu, heldur byggja upp hraða, og reisa síðan nefið til að "skipta út hraða fyrir klifur" stutta stund.

Það er gert á þessu myndbandi þannig að flugmennirnr verða að beina nefinu niður og fram efst í klifrinu bratta til þessa að ofreisa ekki vélina.

En fyrir neðan lítur út fyrir á myndinni að hún hafi notað fáránlega stutta braut. Grunur kviknar um smávægis tæknibrellur við myndvinnsluna.

Margir muna eftir gömlu "Monsonum", Rolls-Royce 400 (Canadair) skrúfuþotum Loftleiða.

Þær voru þunglamalegar fullhlaðnar og ég minnist til dæmis flugtaks frá Kennedy-flugvelli í New York, þegar hún þurfti í hitamollu og logni alla brautina til að komast í loftið og klifraði næstum ekkert eftir það, heldur var lengi að safna nokkur hundruð feta hækkun rétt yfir trjátoppum.

Á flugsýningu í Reykjavík komu Loftleiðamenn nokkru síðar á styttri gerðinni að svona vél inn til lendingar.

Það voru um 25 hnútar á norðan og þeir lentu á bláendanum við Nauthólsvík og stöðvuðu vélina á um þriðjungi brautarinnar, ca 5-600 metrum, - áttu þá drúgan spöl eftir í brautarmótin.

Þar settu þeir í kný afturábak (reverse) og bökkuðu hratt alveg niður á brautarenda.

Gáfu þar allt í botn, komust í loftið á þriðjungi brautar og klifruðu síðan svo bratt upp að áhorfendur tóku andköf.

Misstu við það hraða og settu nefið fram til að ná hraðanum aftur upp og þrusa að nýju bratt upp til himsins, þó ekki "næstum lóðrétt."

Með vind sem hjálp og hámarks léttleika má leika næstum fráleitar kúnstir á flestum flugvélum.

Til er mynd af afllítilli Piper PA-12 þriggja sæta vél þar sem hún fer í loftið á 10 metrum á Selfossflugvelli og rís síðan lóðrétt upp til lofts og flýgur meira að segja örlítið afturábak eftir það.

Fullhlaðin var þessi vél aflvana sleði en galdurinn við þetta flugtak var að hafa hana sem allra léttasta og framkvæma flugtakið í 40 hnúta vindi beint í nefið.    


mbl.is Fer næstum lóðrétt í loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynleg bylting á hraða snigilsins.

Hugsum okkur að nær allur bílafloti landsmanna væru rafbílar en aðeins örfáir bensín- og olíuknúnir bílar hefðu verið fluttir inn. 

Þá myndi það vaxa mönnum alveg í augum að ætla að skipta yfir í jarðefna knúnu bílana, vegna þess að alla innviði og kerfi vantaði. 

Það þyrfi að veita hundruðum ef ekki þúsundum milljarða króna í að byggja olíuhafnir, olígeyma og hundruð bensínstöðva um allt land og tryggja flutninga á olíuvörum með skipum og oliuflutningabílum um land allt. 

Samt tökum við þessu kerfi sem sjálfsögðum hlut rétt eins og það hafi ekki kostað krónu að koma því upp á heilli öld. 

Við blasa orkuskipti mannkynsins á þessari öld þar sem jarðefnaeldsneyti hlýtur að víkja fyrir öðrum orkugjöfum.

Við þurfum ekki að flytja rafmagn til landsins eins og olíuvörurnar. Einföldustu rafbíla og rafhjól má hlaða með heimilisrafmagni.

Eins og háttar drægi rafbíla núna þarf að koma upp hraðhleðstlustöðvum með um það bil 80 kílómetra millibili við helstu þjóðvegina.

Það er smávaxið verkefni miðað við hið tröllaukna dreifingarkerfi jarðaefnaeldsneytis um allt land og í engu landi er rafvæðingin og nauðsyn hennar jafn augljós og auðveld og á Íslandi.

Samt gerist allt á hraða snigilsins í þessum efnum.  


mbl.is Örverkefni að skipta í rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir lofuðu ekki "ljósi við enda ganganna" heldur heiðríkju strax.

Allir flokkar á þingi eru sammála um það að byrja að losa um gjaldeyrishöftin eins og verið er að gera nú. Bjarni Benediktsson lýsir ágætlega góðum og raunsæislegum vonum um árangur þess með samlíkingunni um "ljós við enda ganganna." 

En í síðustu kosningum var einn flokkur sér á báti með það að lofa ekki "ljósi við enda ganganna" eins og aðrir flokkar gerðu, heldur heiðríkju og skellibjartri heiðríkju strax eftir kosningar. 

Þá notaði Bjarni Benediktsson þá samlíkingu, að 3-400 milljarðarnir sem kjósendur fengju í vasann væru líkt og "fuglar í skógi." 

Framsóknarflokkurinn uppskar tvöföldun fylgis síns og forsætisráðherrastólinn út á kosningaloforð sem skáru sig alveg úr því sem aðrir sögðu, og voru aðrir flokkar þó bjartsýnir á að hægt væri að halda áfram þeirri sókn til betri kjara sem hafin var upp úr hinu einstæða hruni efnahagslífsins sem skefjalaus skammtímagræðgissókn áranna 2002-2007 hafði leitt yfir þjóðina. 

Aldrei man ég eftir því að minnst væri á það í kosningunum 2007 að þessar 3-400 milljónir færu eingöngu í það að laga afleitan hag ríkissjóðs heldur gengu tugþúsundir kjósenda um með dollaramerki í augunum varðandi persónulegan gróða sinn og allra, peningana beint í vasann.

Allir máttu þó vita að til lengri tíma litið væri lang skynsamlegast að grynnka á skuldum þjóðarbúsins og spara með því tugi milljarða af því sem fer í afborganir og vexti. 

Endurnýjaðan hugsinarháttinn "take the money and run" má glögglega sjá í þeirri holskeflu af stóriðju- og virkjanahugmyndum í anda 2007 hugsunarháttarins sem eru nú keyrðar áfram með glæsifréttum í Mogganum og tugum blaðsíðana aukablaðs Fréttablaðsins. 

 


mbl.is „Það er ljós við enda ganganna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband