Slys, sem markaði spor í söguna.

Það hefur ekki verið haft í hámæli, hvað flugslysið á Fagradalsfjalli 3. maí 1943 markaði spor í veraldarsöguna. 

Frank Matthew Andrews var yfirmaður alls herafla Bandamanna í Evrópu og stóð frammi fyrir uppbyggingunni í aðdraganda innrásarinnar í Normandy. 

Hann var 59 ára gamall og sex árum eldri en Eisenhower, sem þá átti fyrir höndum 17 ára feril í hermálum og stjórnmálum. 

Andrews hefði þess vegna getað átt eftir um rúman áratugs feril ef hann hefði lifað og spilað jafn vel úr sínum spilum og mönnum bar saman um að hann hefði hæfileika til, ekkert síður en Eisenhower, sem yfirmaður Evrópuheraflans og síðar herafla NATO. 

Augljóst er hvað ferlar þeirra Andrews og Eisenhowers voru tengdir og höfðu áhrif hvor á annan. 

Er vafasamt að Eisenhower hefði orðið forseti Bandaríkjanna 1953 á jafn auðveldan hátt og raun bar vitni, ef Andrews hefði allt fram að því staðið honum framar í hernum, í stað þess að bíða bana í flugslysi á Íslandi. 

 


mbl.is Reisa minnisvarða á Fagradalsfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eru sumir samt jafnari en aðrir.

Það er ástæða til að halda upp á daginn í dag með fögnuði sem merkan dag í sögu þjóðarinnar. Kosningaréttur kvenna þennan dag 1915 var risaskref í átt að jafnrétti kynjanna. 

En þeirri vegferð er samt ekki lokið. 

"Meira jafnrétti" segir forsætisráðherrann núna í útvarpinu. Þetta er bæði málfræðilega og rökfræðilega rangt, því að annað hvort er staðan jöfn eða ekki jöfn.

Um jafnrétti gildir hið sama og um jafntefli. Annað hvort er staðan jöfn eða ekki jöfn. 

"Minna misrétti" væri nær að segja þá dagana sem fimm karlar færa fram fyrir þjóðina ráðstafanir um vandasamasta verkefnið í fjármálum hennar og launamisrétti er enn við líði.

Fólk á ekki að vera feimið við að nota orðið misrétti, því að misrétti getur verið mismunandi mikið og jafnvel sáralítið. 

 

"Meira jafnrétti" er orðalag sem minnir dálítið á frægustu setninguna í sögu Orwells: "Allir eru jafnir, en sumir eru jafnari en aðrir."   


mbl.is „Merkisdagur í okkar sögu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dönsk stjórnmál ólík íslenskum stjórnmálum.

Um áratuga skeið hafa dönsk stjórnmál verið ólík íslenskum stjórnmálum. Hér á landi hafa ríkt átakastjórnmál þar sem meirihlutastjórnir hafa verið við völd og flokkar hafa farið ofan í skotgrafir á Alþingi og þvílíka hörku að þingið hefur með árunum orðið rúið trausti þjóðarinnar. 

Í Danmörku hafa setið minnihlutastjórnir sem hafa haldið velli með því að stunda samræðustjórnmál eftir bestu getu í leit að skástu málamiðlunum, sem fundist hafa. 

Danska stjórnmálahefðin, sem myndast hefur, hefur leitt af sér farsæld og mesta mögulega frið í samfélaginu þótt skoðanir hafi verið skiptar milli flokka eins og gengur. 

Í kjarabaráttunni sigla Danir eins lygnan sjó og mögulegt er með því að hafa þróað ákveðið módel fyrir kjarasamninga sem taka mið af heildarhagsmunum. 

Íslenskum stjórnmálamönnum væri hollt að kynna sér dönsk stjórnmál og sjá, hvort eitthvað megi ekki af þeim læra. 


mbl.is Ríkisstjórn vinni þvert á flokkslínur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband